Valmynd

Árshlutauppgjör Íslandssjóða 2022

Hagnaður af rekstri Íslandssjóða var 280 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2022 samanborið við 466 milljónir króna á sama tíma árið áður. Rekstur Íslandssjóða var stöðugur á fyrstu sex mánuðum ársins og jukust þóknanatekjur um 92 milljónir króna á milli ára og námu alls 1.120 milljónum króna á fyrri hluta ársins. Starfsemin einkenndist nokkuð af erfiðum aðstæðum á verðbréfamörkuðum sem leiddi til lækkunar á gengi sjóða í stýringu og neikvæðrar afkomu af verðbréfaeign félagsins. 

Hjá félaginu starfa 20 sérfræðingar í eignastýringu, 9 konur og 11 karlar, sem nýta aðferðir ábyrgra fjárfestinga í allri eignastýringu. Alls voru eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum 392 milljarðar króna í lok júní. Þá stýra Íslandssjóðir 22 sjóðum fyrir almenna fjárfesta, en hrein eign sjóðanna var 209 milljarðar króna í lok tímabilsins. Íslandssjóðir eru stærsti aðilinn á sjóðamarkaði fyrir almenna fjárfesta með um 30% markaðshlutdeild.
 
Afkoma Íslandssjóða fyrstu sex mánuði ársins 2022

Hagnaður félagsins eftir skatta var 280 m.kr. samanborið við 466 m.kr. á sama tímabili 2021.
Þóknanatekjur námu 1.120 m.kr. samanborið við 1.028 m.kr. á sama tímabili í fyrra og hækkuðu um 9%.
Rekstrargjöld námu 680 m.kr. samanborið við 657 m.kr. á sama tímabili í fyrra og hækkuðu um 3,5%.
Launakostnaður nam 299 milljónum króna á tímabilinu og lækkaði um 4% á milli ára.
Eigið fé 30. júní 2022 var 2.251 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 44,4% en má lægst vera 8%.
Í lok júní voru 22 sjóðir fyrir almenna fjárfesta í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 209 milljörðum króna samanborið við 224 milljarða króna í árslok 2021.
 
Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:

„Fyrri hluti ársins einkenndist af krefjandi aðstæðum á innlendum og alþjóðlegum verðbréfamarkaði sem rekja má að mestu leyti til stríðsátaka í Úkraínu og vaxtahækkana í kjölfar þeirra og heimsfaraldurs Covid-19. Rekstur félagsins var stöðugur á tímabilinu og góð eignadreifing í sjóðum og eignasöfnum sannaði gildi sitt enn á ný. Áhersla á ábyrgar fjárfestingar er sífellt að aukast hér á landi og er aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga beitt við stýringu allra okkar sjóða og eignasafna.“

Íslandssjóðir er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1994 og er dótturfélag Íslandsbanka.  

Árshlutareikning félagsins er að finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, í síma 844 2950.