Græn skuldabréf

IS Græn skuldabréf var stofnaður árið 2018 og var fyrsti græni skuldabréfasjóðurinn í boði fyrir sparifjáreigendur. Sjóðurinn er valkostur fyrir sparifjáreigendur sem leggja áherslu á umhverfis- og samfélagsmál án þess að slá af kröfum um samkeppnishæfa langtíma ávöxtun og hentar sjóðurinn fjárfestum sem vilja ávaxta fé í þrjú ár eða lengur.

Frá stofnun hefur sjóðurinn komið að fjármögnun á margvíslegum verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Fjárfestingarheimildir sjóðsins eru skýrar, hann fjárfestir einungis í skuldabréfum sem skráð eru á sjálfbæran lista hjá Nasdaq OMX ásamt ríkisskuldabréfum. Undir sjálfbæran lista geta flokkast: Græn skuldabréf, félagsleg skuldabréf og sjálfbær skuldabréf.

Til að fá skráningu á sjálfbæran lista Nasdaq Iceland þarf útgefandinn að útbúa umgjörð sem vottuð er af þriðja aðila þar sem tilgreint er hvernig fjármunum er ráðstafað og hvaða áhrif verkefnin hafa á umhverfi og samfélag.

Umgjörðin fylgir „green bond principles“ sem eru viðmið útgefin af ICMA, alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði.

Græna umgjörðin byggir á fjórum stoðum:

  • Skilgreiningu grænna verkefna
  • Valferli grænna verkefna
  • Meðferð fjármuna
  • Skýrslugjöf til fjárfesta

Útefandi skuldabréfa þarf að fá vottun frá sérstökum vottunaraðilum að umgjörðin sé í samræmi við Green Bond Principles. Árlega er svo fylgst með því að fjármunir frá útgáfu hafi verið nýttir í samræmi við umgjörðina. Útgefendur hérlendis hafa ýmist fengið vottun frá Sustainalytics, sem er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki á sviði sjálfbærni, eða CICERO (Center for International Climate Research), sem er leiðandi í alþjóðlegum loftlagsrannsóknum og baráttunni gegn loftlagsbreytingum.


Hvað eru græn skuldabréf?

Græn skuldabréf eru skuldabréf sem gefin eru út til að fjármagna verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Til þess að skuldabréf sé flokkað sem grænt skuldabréf þarf að útbúa græna umgjörð (e. Green framework) sem segir til um í hvað fjármununum er ráðstafað og þannig tryggt að fjármunirnir nýtist til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi. Umgjörðin er svo staðfest af þriðja aðila.

Hvað eru félagsleg skuldabréf?

Félagsleg skuldabréf eru gefin út til að fjármagna verkefni sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á félagslega þætti. Á Íslandi hafa Félagsbústaðir einir útgefenda gefið út félagsleg skuldabréf og nýtir útgefandinn fjármunina til að byggja upp félagslegt húsnæði í Reykjavík.

Hvað eru sjálfbær skuldabréf?

Sjálfbær skuldabréf eru hvoru tveggja græn- og félagsleg skuldabréf og þurfa því að uppfylla bæði græna og félagslega umgjörð til að vera flokkuð sem slík.


Verkefni og grænir rammar sem sjóðurinn hefur fjárfest í

Orkuveita Reykjavíkur

Tilgangur útgáfu grænna skuldabréfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur er að fjármagna græn verkefni hjá OR og dótturfyrirtækjum - Veitum og Orku Náttúrunnar. Má þar nefna; orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, svo sem raforkuvinnslu og stækkun hitaveitna, vatnsvernd og eflingu fráveitna, snjallvæðingu veitukerfa og metnaðarfull kolefnisbindingarverkefni. 

Reykjavíkurborg

Meðal verkefna sem fjármögnuð eru með grænni skuldabréfaútugáfu Reykjavíkurborgar er t.a.m. uppbbygging Borgarlínu, lagning hjólreiðastíga og göngustíga, LED væðing götulýsingar, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og fliera sem sparar orku og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Reginn

Tilgangur útgáfu grænna skuldabréfa hjá Reginn er að fjármagna eða endurfjármagna umhverfisvænar fjárfestingar, umhverfisvottaðar fasteignir og önnur verkefni sem samræmast umgjörð félagsins um græna fjármögnun. Lykilþáttur í vegferð Regins í umhverfismálum var alþjóðleg umhverfisvottun Smáralindar í janúar 2020, en Smáralind er fyrsta fasteignin á Íslandi sem hlýtur hina alþjóðlegu BREEAM In-Use umhverfisvottun.

Íslandsbanki

Íslandsbanki hefur skilgreint umgjörð utan um þau lán og fjárfestingar í eignasafni sínu sem flokkast sem sjálfbær og samanstendur hún af grænum flokki fyrir umhverfismál, bláum flokki fyrir sjálfbærar fiskveiðar og rauðum flokki fyrir félagslega uppbyggingu. Græn skuldabréfaútgáfa Íslandsbanka fjármagnar sjálfbærniverkefni í grænum flokki, dæmi um verkefni eru orkuskipti í samgöngum, orkusparnaður, mengunarvarnir og - stýring, grænar byggingar o.fl. 

Lánasjóður sveitarfélaga

LSS gefur út græn skuldabréf til að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftslagbreytingum sem er í takti við umhverfisstefnu Lánasjóðsins. 

Dæmi um fjárfestingar eru umhverfisvænar samgöngur, vistvænar byggingar, endurnýjanleg orka og orkunýtni, fráveitur og meðhöndlun aukaafurða (úrgangs).

Félagsbústaðir

Tilgangurinn með útgáfunni félagslegra skuldabréfa Félagsbústaða er að fjármagna byggingu á leiguíbúðum Félagsbústaða.

Félagsbústaðir er hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar. Félagið á og rekur félagslegar íbúðir og hefur að markmiði að veita einstaklingum og fjölskyldum tryggan aðgang að leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Fyrirvari vegna fræðsluefnis
Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandssjóðir hf. ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari. Íslandssjóðir hf. ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.