Valmynd

Nýr alþjóðlegur fjárfestingasjóður Íslandssjóða

Íslandssjóðir hafa stofnað nýjan alþjóðlegan fjárfestingasjóð sem ber heitið Einkasafn erlent og er sjóðurinn opinn fyrir alla sparifjáreigendur og fjárfesta. Sjóðurinn hentar sérstaklega vel fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í erlendum fjárfestingum. Helstu fjárfestingar sjóðsins verða í alþjóðlegum verðbréfasjóðum, erlendum hlutabréfum, skuldabréfum og innlánum. Við stýringu sjóðsins er mikil áhersla lögð á góða eignadreifingu á alþjóðlegum mörkuðum.Íslandssjóðir er rekstrarfélag verðbréfa- og fjárfestingasjóða sem býr yfir 18 ára reynslu af  erlendum fjárfestingum. Félagið er í samstarfi við fjölmörg erlend sjóðastýringafyrirtæki og má þar helst nefna The Vanguard Group, BlackRock og DnB. Sjóðsstjóri erlenda Einkasafnsins er Sigurður Guðjón Gíslason sem hefur starfað sem sjóðsstjóri í erlendum fjárfestingum í yfir 10 ár.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:

„Nú fá einstaklingar loksins tækifæri til þess að fjárfesta í erlendum verðbréfum í fyrsta sinn síðan gjaldeyrishöft voru sett á árið 2008. Í átta ár hefur nær allur sparnaður íslenskra sparifjáreigenda verið í innlendum eignum, en hver einstaklingur hefur nú heimild til að fjárfesta erlendis fyrir allt að 100 milljónir króna. Í langtímasparnaði er eignadreifing mikilvæg og því er skynsamlegt að ráðstafa hluta sparnaðar í erlendar fjárfestingar. Söguleg ávöxtun sýnir einnig að vægi erlendra hlutabréfa eigi að vera að minnsta kosti jafnhátt og vægi innlendra hlutabréfa í blönduðu eignasafni.“

Nánari upplýsingar um Einkasafn Erlent veita ráðgjafar VÍB í síma 440 4900.