Valmynd

Tíu ára gamlar fréttir frá Finnlandi

Það eru fáar leiðir betri til að fá innsýn í hversu miklar breytingar geta verið í atvinnulífi og rekstrarumhverfi fyrirtækja en að lesa gamlar greinar í viðskiptatímaritum. Á undanförnum vikum hefur gengi hlutabréfa í Nokia lækkað um tæplega fjórðung sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Gengi félagsins er enn 85% lægra en það var hæst en það var í maí 2000, nánast sama dag og meðfylgjandi grein um fyrirtækið var að þrykkjast á prent. „Hvað gerir Nokia að svo góðu fyrirtæki? „ er yfirskrift greinarinnar. Og vissulega er Nokia enn gott fyrirtæki, markaðsstaða þess firnasterk og vörumerkið eitt það verðmætasta í heimi. Þeir sem voru helstu keppinautarnir á farsímamarkaðinum fyrir áratug, Motorola og Ericsson, hafa ekki riðið feitum hesti frá þeirri viðureign en nýjir og harðsnúnir keppinautar komið fram á sjónarsviðið, t.d. Samsung, Apple og Research in Motion (Blackberry). Velta fyrirtækisins hefur minnkað síðustu tvö ár og einkum var samdrátturinn harkalegur á síðasta ári. Það er e.t.v. tímanna tákn að langstærsti markaður fyrirtækisins í veltu er Kína og sá næststærsti Indland. Þeir á Nokia bænum hafa í gegnum tíðina verið þekktir fyrir að geta tekist á við mótbyr og hafa spýtt í lófana við þær aðstæður. Enda segja Finnar að enginn komist til manns fyrr en hann hafi plægt akur.

Upprunaleg grein á vef CNN Money

 

Íslandssjóðir Inngangur skrifaður af sérfræðingum Íslandssjóða hf.