Valmynd

Virðishlutabréf og dýrðarljómahlutabréf

Reynslan sýnir að þegar horft er yfir löng tímabil hafa það almennt séð ekki verið hlutabréfin sem eru mest "spennandi", ef svo má að orði komast, sem hafa skilað mestu í vasa fjárfesta. Meðfylgjandi grein er í þessa veru en þar er borin saman ávöxtun mismunandi hlutabréfa miðað við vissar forsendur. Um ræðir að hlutabréfum er raðað eftir markaðsverði í hlutfalli við bókfært eigið fé, svokallað P/B hlutfall (price-to-book). Félögum er raðað svokölluð tíundarmörk (decile). Þau 10% af félögum sem eru með lægstu P/B hlutföllin eru í neðsta tíundarmarkinu, "Decile 10", og eru í rannsókn Brandes nefnd virðishlutabréf (value stocks). Þau 10% af félögum sem eru með hæstu P/B hlutföllin eru í efsta tíundarmarkinu, "Decile 1", og eru nefnd dýrðarljómahlutabréf (glamour stocks). Hér er því verið að bera þau hlutabréf þar sem markaðsverð er hæst í samanburði við eigið fé saman við hlutabréf þar sem markaðsverð er lægst í samanburði við eigið fé.

Hér verður ekki rakið hvaða skýringar geta legið að baki miklum mun í þessum efnum en látið nægja að segja með nokkurri einföldun að fjárfestum lítist miklu betur á dýrðarljómahlutabréf heldur en virðishlutabréfin. Mynd 2. er kjarni greinarinnar. Á vinstri ás er sýnt bilið eða munurinn á milli dýrðarljómahlutabréfanna og virðishlutabréfanna, þ.e. hversu miklu hærra P/B þeirra fyrrnefndu er. Eins og sjá má þá er munurinn oft nærri tífaldur og keyrir alveg um þverbak í upphafi árs 2000 þegar hann er áttatíufaldur. Á hægri ás er 5 ára ávöxtun virðishlutabréfanna umfram ávöxtun dýrðarhlutabréfanna. Ef aftur er skoðað öfgakennda tímabilið í upphafi árs 2000 þá sést að næstu 5 árin var árleg meðalávöxtun virðishlutabréfanna 50% hærri en dýrðarhlutabréfanna.

Nauðsynlegt kann að vera að gera ýmsa fyrirvara við samanburð af þessu tagi. T.d. er miðað við markaðsverðmæti félaga og þá geta örfá mjög verðmæt félög með hátt P/B hlutfall hækkað hlutfallið í efsta tíundarmarkinu verulega.

En hvað sem öðru líður þá er efni greinarinnar í takt við það sem reynslan sýnir, þ.e. að fjárfestar þurfa að fara sérstaklega gætilega þegar um ræðir fjárfestingar í hlutabréfum fyrirtækja sem mikill dýrðarljómi er yfir.

Upprunaleg grein á vef Brandes

 

Íslandssjóðir Inngangur skrifaður af sérfræðingum Íslandssjóða hf.