Samþykktir fyrir Íslandsbanka hf.

Samþykktir Íslandsbanka kveða m.a. á um tilgang bankans, hlutafé, hluthafafundi, kosningu stjórnar og skyldur hennar, sem og hvernig megi breyta samþykktum bankans.

1. gr.
Nafn félagsins er Íslandsbanki hf.

2. gr.
Heimilisfang félagsins og varnarþing er í Kópavogi. Útibú félagsins eru engin en heimilt er að stofna til þeirra.

Stofnun félagsins er liður í aðgerð skv. heimild í 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

3. gr.
Tilgangur félagsins er að starfrækja viðskiptabanka. Skal félaginu heimilt að stunda hverja þá starfsemi sem fjármálafyrirtækjum er heimil lögum samkvæmt á hverjum tíma sem og aðra starfsemi í eðlilegum tengslum við hana.

Félaginu er heimilt að taka þátt í starfsemi er samrýmist rekstri þess og gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum í því skyni.

4. gr.
Hlutafé félagsins er kr. 10.000.000.000,- krónur tíumilljarðar 00/100-. Hlutafé skiptist í einnar krónu hluti eða margfeldi þeirrar fjárhæðar. Gefa má út eitt hlutabréf fyrir öllu hlutafé hluthafa í félaginu og gildir það sama við aukningu hlutafjár.

5. gr.
Hlutabréf skulu tölusett og skráð á nafn. Hlutabréf veita hluthafa full réttindi sem samþykktir þessar og lög um hlutafélög mæla fyrir um.

6. gr.
Um hlutabréf í hlutafélaginu gilda venjulegar reglur viðskiptabréfa.

7. gr.
Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda.

8. gr.
Hluthafafundi skal boða með almennri auglýsingu lengst fjórum vikum fyrir fund og skemmst viku fyrir fund, nema boða skal til aðalfundar með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.

9. gr.
Aðalfundi félagsins skal halda fyrir lok apríl mánaðar ár hvert.

10. gr.
Á aðalfundi félagsins skulu þessi mál tekin fyrir:

  1. Skýrsla stjórnar félagsins.
  2. Staðfesting efnahagsreiknings og rekstrarreiknings fyrir næstliðið rekstrarár.
  3. Hvernig skuli fara með hagnað eða tap félagsins á næstliðnu rekstrarári.
  4. Kosning stjórnarmanna.
  5. Kosning endurskoðanda.
  6. Ákvörðun um þóknun stjórnarmanna fyrir störf þeirra.
  7. Samþykkt starfskjarastefnu.
  8. Önnur mál.

11. gr.
Eitt atkvæði fylgir hverri einni krónu í hlutafé.

Hluthafi getur með skriflegu umboði veitt umboðsmanni heimild til að sækja hluthafafund og fara þar með atkvæðisrétt sinn.

Á hluthafafundi ræður afl atkvæða, nema öðruvísi sé fyrir mælt í landslögum eða samþykktum þessum.

12. gr.
Fundagerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á hluthafafundum.

13. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.

14. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum og að minnsta kosti tveimur til vara. Hlutfall hvors kyns í stjórn skal ekki vera lægra en 40%. Formann skal kjósa sérstaklega en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér störfum.

Endurskoðunarfélag skal kjörið á aðalfundi félagsins í samræmi við lög.

Kjörtímabil stjórnarmanna er eitt ár.

15. gr.
Fimm stjórnarmenn rita firma félagsins.

Stjórn félagsins veitir prókúruumboð fyrir félagið.

Stjórn félagsins hefur heimild til að skuldbinda það, þar á meðal til veðsetningar eigna félagsins, sbr. 1 málsgrein.

Stjórn félagsins er ályktunarbær ef minnst fimm stjórnarmenn sækja stjórnarfund.

Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða afgreiðslu mála samkvæmt einföldum meiri hluta. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum og varaformanns í fjarveru formanns.

Skrá skal fundargerð hvers stjórnarfundar í fundargerðarbók.

16. gr.
Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans.

Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

17. gr.
Engin sérréttindi fylgja hlutum í félaginu. Hluthafi þarf ekki að sæta innlausn hluta sinna, nema félaginu verði slitið eða hlutaféð löglega lækkað.

18. gr.
Samþykktum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða, svo og með samþykki hluthafa sem ráða yfir a.m.k. 2/3 hlutum af því hlutafé í félaginu sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum, enda sé mætt fyrir a.m.k. helming hluthafa á fundinum og annað atkvæðamagn ekki áskilið í samþykktum eða landslögum.

19. gr.
Tillögur um slit eða skipti á félaginu má taka fyrir á aðalfundi eða aukafundi, enda sé tillagna getið í fundarboði. Til þess að ákvörðun um slit eða skipti sé gild þarf samþykki hluthafa sem ráða yfir a.m.k. 2/3 hlutum af heildarhlutafé félagsins.

Hluthafafundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda.

20. gr.
Að því leyti sem ekki er kveðið á um í samþykktum þessum gilda ákvæði hlutafélagalaga, nú laga nr. 2/1995, með síðari breytingum, svo og önnur ákvæði laga er við geta átt.

Þannig samþykkt á hluthafafundi Íslandsbanka hf. Reykjavík, 19. apríl 2016.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall