Stofna fyrirtæki

Að stofna eigið fyrirtæki er eitt skemmtilegasta verkefni sem hægt er að taka þátt í en afar mikilvægt er að vanda til verksins í upphafi.

Stofnun fyrirtækja

Stofnun fyrirtækis er krefjandi verkefni sem krefst skipulagningar. Þegar viðskiptaáætlun og fjármögnun er að miklu leyti komin hefst næsta stig sem er skráning fyrirtækis ásamt starfsleyfum.

Að mörgu þarf að huga eins svo sem að velja félagsform en þar liggur munurinn helst í ábyrgð eigenda og hlutafé. Mikilvægt er að lesa vandlega yfir ábyrgðarhlutverk stjórnarmanna.

Viðskiptaáætlun

Viðskiptaáætlun er mikilvægt tæki til fjármögnunar á hlutafé og við mat lánsumsókna hjá fjármálastofnunum ásamt því að gera góða hugmynd að veruleika og tryggja að hún skili arði.

Hægt er að nálgast leiðbeiningar um gerð viðskiptaáætlana hjá ýmsum stofnunum sem vinna við að efla nýsköpun á Íslandi.

Fjármögnun

Fjármagn kostar peninga og því meiri sem áhættan er, því hærra er verðið. Eitt af meginmarkmiðum viðskiptaáætlunar er að draga úr áhættu og því getur vel unnin og trúverðug viðskiptaáætlun skipt sköpum þegar kemur að því að semja við fjárfesta og fjármálastofnanir.

Við fjármögnun nýrra fyrirtækja þarf að huga að mörgum þáttum. Best er ef eigið framlag getur verið sem hæst því það er það fjármagn sem er þolinmóðast. Einnig er hægt að sækja um ýmis lán og styrki.

Skattamál

Skattar á fyrirtæki eru mismunandi eftir formi og tegund reksturs. Mikilvægt er að fara vandlega yfir skattareglur um atvinnurekendur og tekjuskatt rekstraraðila þar sem þær eru almennt flóknari en skattareglur launþega.

Fyrirtæki og einstaklingar í rekstri þurfa að innheimta virðisaukaskatt vegna innlendra viðskipta og vegna innflutnings vöru og þjónustu og skila honum í Ríkissjóð. Til þess að geta innheimt skattinn þarf að hafa sérstakt virðisaukaskattsnúmer sem sótt er um hjá skattstjóra í hverju umdæmi.

Bókhald

Öllum bókhaldsskyldum aðilum ber að færa bókhald og haga færslum, bókhaldsbókum og reikningaskipan í samræmi við bókhaldslög.

Meginreglan er að bókhaldið skal vera tvíhliða. Einstaklingum í ákveðnum atvinnugreinum er þó heimilt að færa einhliða bókhald ef þeir nota ekki meira aðkeypt vinnuafl við starfsemi sína en sem svarar einum starfsmanni á ári.

Samkvæmt bókhaldslögum skal haga bókhaldi þannig að á skýran og aðgengilegan hátt megi rekja viðskipti og notkun fjármuna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall