Stefna Íslandsbanka um sölu eigna

1. Gildissvið og markmið

Stefna þessi skal gilda um sölu eigna bankans, þar á meðal fullnustueigna. Stjórn bankans skal stuðla að því að sambærilegri stefnu um sölu eigna sé fylgt í dótturfélögum bankans þar sem það á við. 

Markmið stefnunnar er að stuðla að gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni í ákvarðanatöku bankans um sölu eigna og efla þannig traust fjárfesta til bankans og sýna ráðvendni gagnvart hagaðilum. Stefnunni er jafnframt ætlað að takmarka rekstrar-og orðsporsáhættu fyrir bankann sem kann að felast í sölu eigna og hámarka endurheimtur krafna við sölu fullnustueigna. 

Sala eigna skal fara fram á viðskiptalegum forsendum að teknu tilliti til viðskiptalegra markmiða bankans og markaðsaðstæðna. Öll sala skal vera í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði og gætt að samkeppnissjónarmiðum. 

2. Meðferð sölu

Tilhögun sölumeðferðar skal liggja fyrir við ákvörðun um sölu eigna og vera í samræmi við stefnu þessa.

2.1 Opið söluferli 

Eignir bankans skulu að meginstefnu seldar í opnu söluferli, þ.e. ferli þar sem bankinn veitir upplýsingar um að tiltekin eign sé til sölu og gefur þannig hugsanlegum kaupendum, sem uppfylla tiltekin skilyrði, kost á að gera kauptilboð í viðkomandi eign á jafnræðisgrundvelli í samræmi við nánar tilgreindar forsendur. 

Fjármálagerningar sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði skulu seldir á markaði og telst slík sala hafa farið fram í opnu söluferli í skilningi stefnu þessarar.

2.2 Undantekningar frá opnu söluferli 

Í undantekningartilvikum kunna hagsmunir bankans að kalla á lokað útboð eða annars konar fyrirkomulag á sölu eigna. Slíkt getur helgast af því að opið söluferli brjóti gegn lögvörðum hagsmunum bankans eða viðskiptalegar eða samningsbundnar takmarkanir komi í veg fyrir að slíkt ferli verði viðhaft. Slíkar takmarkanir kunna að vera t.d. ákvæði hluthafasamkomulaga eða samþykkta um forkaupsrétt, sjónarmið annarra eigenda, kröfuhafa eða eigenda viðskiptaleyfa eða áætlað söluverðmæti viðkomandi eignar telst ekki réttlæta kostnað við opið söluferli eða vegna annarra augljósra hagsmuna bankans.

Frávik frá meginstefnu bankans um opið söluferli skal samþykkt af stjórn bankans. Stjórn veitir fjárfestingaráði almenna heimild til þess að samþykkja frávik þegar verðmæti eignar er undir tilteknum mörkum. Frávik skulu sérstaklega rökstudd og skráð.

2.3 Sala eigna háð samþykki stjórnar

Sala eigna sem eitt af eftirfarandi skilyrðum á við um skal alltaf vera háð samþykki stjórnar bankans, að fenginni tillögu fjárfestingaráðs þar um og að undangengnu mati meðal annars m.t.t. orðsporsáhættu, hagsmunaárekstra og samfélagslegrar ábyrgðar:

  • Eignarhlutir í félagi í hliðarstarfsemi, sbr. 21. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
  • Fasteignir eða fasteignaréttindi þar sem bókfært verð eða verðmat er yfir kr. 500.000.000.
  • Lausafjármunir, þ.e. fjármunir aðrir en fasteignir og fasteignaréttindi, þar sem bókfært verð eða verðmat er yfir kr. 300.000.000.
  • Óskráð hlutabréf, aðrir eignarhlutar eða réttindi í óskráðum félögum þar sem þar sem bókfært verð eða verðmat er yfir kr. 500.000.000.
  • Eignir þar sem sala felur í sér aukna orðsporsáhættu eða hættu á hagsmunaárekstrum að mati fjárfestingaráðs bankans.

3. Fullnustueignir

Fullnustueignir eru eignir sem bankinn leysir til sín til að tryggja fullnustu krafna. Slík fullnusta er eðlilegur þáttur í starfsemi viðskiptabanka. Fullnustueignir skulu seldar eins fljótt og unnt er að teknu tilliti til markaðsaðstæðna. 

Sala fullnustueigna skal vera í samræmi 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og jafnframt taka mið af þeim sjónarmiðum sem Samkeppniseftirlitið hefur beint til fjármálafyrirtækja vegna yfirtöku á fyrirtækjum í samkeppnisrekstri, þ. á m. þeim tilmælum sem fram koma í áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja, frá 12. nóvember 2008 og umræðuskjali Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2009 um banka og endurskipulagningu fyrirtækja.

4. Verklagsreglur

Á grundvelli þessarar stefnu skulu settar verklagsreglur um sölu eigna sem skulu vera samþykktar af fjárfestingarráði. Verklagsreglurnar skulu m.a. kveða á um:

  • Söluferli fyrir einstaka eignaflokka s.s. fasteignir, lausafjármunir og eignarhluti í félögum. 
  • Skilgreiningu á opnu söluferli fyrir mismunandi eignaflokka. 
  • Viðmið um hvenær skuli afla utanaðkomandi ráðgjafar við sölu, s.s. verðmat og áreiðanleikakönnun.
  • Viðmið um mat á mögulegum hagsmunaárekstrum og orðsporsáhættu í tengslum við söluferli.
  • Gagnsæi og tilhögun upplýsingagjafar í tengslum við sölu.
  • Nánari útfærslur á viðmiðum um frávik frá opnu söluferli fyrir mismunandi eignaflokka.

5. Skýrslugjöf og innra eftirlit

Bankinn skal árlega birta upplýsingar á heimasíðu sinni samantekt um fylgni bankans við stefnu þessa síðastliðna 12 mánuði ásamt upplýsingum um frávik frá meginstefnu bankans um opið söluferli, ef einhver eru.

Innri endurskoðun skal hafa eftirlit með framkvæmd stefnu þessarar og gera grein fyrir því í skýrslu til stjórnar.

6. Ábyrgð og viðhald stefnunnar 

Stefnan er samþykkt af stjórn bankans og fjármálastjóri ber ábyrgð á að viðhalda henni. Stefnan skal yfirfarin eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall