Fréttir Greiningar

Ferðaþjónustan stór þáttur í endurreisninni

04.03.2015 10:09

Sá mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustunni síðustu ár skýrir stóran hluta af þeim hagvexti sem mælst hefur hér á landi síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2010. Áætlar Greining Íslandsbanka að a.m.k. þriðjung hagvaxtarins frá árinu 2010 megi rekja til ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan hefur þannig átt stóran þátt í því endurreisnarstarfi sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Kemur þetta fram í skýrslu Greiningar Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu sem gefin var út í dag og má nálgast hér

Í heild hefur störfum í hagkerfinu fjölgað um 10.300 á tímabilinu og eru 4.600 þeirra sem sinna þessum störfum starfandi í flutningum með flugi, á ferðaskrifstofum og í rekstri gisti- og veitingastaða. Það má því rekja um 45% af fjölgun starfandi á tímabilinu til ferðaþjónustunnar. Eru þá ótaldar tengdar greinar og hlutfallið því eflaust vanmetið. Vöxtur í ferðaþjónustunni hefur því átt ríkan þátt í að ná niður atvinnuleysi hér á landi.

Greining Íslandsbanka áætlar að ferðaþjónustan muni afla 342 ma.kr. í gjaldeyristekjur á árinu 2015 eða sem nemur 28,9% af áætluðum gjaldeyristekjum af útflutningi vöru og þjónustu á árinu. Til samanburðar var þessi hlutdeild 23,8% árið 2012 og 19,8% árið 2009.

 

Mikil fjölgun ferðamanna

Greining Íslandsbanka spáir því að fjöldi ferðamanna sem kemur hingað til lands um Leifsstöð á árinu 2015 verði um 1.191 þúsund, sem er aukning um tæplega 23% á milli ára. Má áætla að heildarfjöldi ferðamanna verði um 1.350 þúsund á árinu eða rúmlega fjórfaldur fólksfjöldi landsins. Fátítt er að hlutfall ferðamanna í samanburði við íbúafjölda sé svo hátt meðal ríkja heims. Meðaleyðsla erlendra ferðamanna á hverja gistinótt á veturna er um 18,7 þúsund krónur, en um 12,1 þúsund krónur á sumrin. Þegar horft er á einstaka þjóðir eyða Norðmenn mestu á hverja gistinótt, eða um 29 þúsund krónum á sumrin og um 37 þúsund krónum á veturna.

Nýtingahlutfall gistinátta í sögulegu hámarki

Greining Íslandsbanka spáir því að gistinætur á heilsárshótelum hér á landi verði um 2,7 milljónir á árinu 2015 samanborið við 2,3 milljónir árið áður. Frá árinu 2010 hefur nýtingarhlutfall hótelherbergja hækkað úr 47% í 67% á Íslandi. Nýtingarhlutfall á höfuðborgarsvæðinu var um 84% á árinu 2014. Þrátt fyrir að áætlanir um 700 ný hótelherbergi á höfuðborgarsvæðinu gangi eftir er útlit fyrir að nýtingarhlutfall verði áfram í sögulegu hámarki á árinu 2015.

Samanburður á nýtingu og verði hótelherbergja í Reykjavík og í helstu ferðamannaborgum Evrópu sýnir að nýting er töluvert yfir meðallagi en verð undir meðallagi. Í Reykjavík hefur nýtingarhlutfall aukist þrátt fyrir verðhækkanir. Talsverð uppbygging er framundan í hótelum á höfuðborgarsvæðinu. Er útlit fyrir að fjöldi hótelherbergja á svæðinu verði um 4.500 á árinu 2016 sem er 33% aukning frá núverandi stöðu.

Bílaleigubílar nær helmingur seldra bíla

Fjöldi starfsleyfa til reksturs bílaleiga hefur þrefaldast frá árinu 2003, úr 51 í 151 árið 2014. Helst það í hendur við fjölgun ferðamanna sem er einnig þreföld á sama tímabili. Fjöldi bílaleigubíla yfir háannatímann var 12.179 árið 2014 miðað við 4.756 árið 2006. Árið 2015 er spáð að þeir verði um 14.000 talsins. Við aldursgreiningu á bílaleiguflotanum sést að hann er tiltölulega nýlegur, en 36% af bílaleigubílum voru nýir bílar í útleigu á árinu 2014. Þá eru 86% af flotanum 5 ára bílar eða yngri. Til samanburðar voru aðeins 13% af heildarbílaflota landsmanna 5 ára bílar eða yngri árið 2013.

Sala á nýjum bílum féll árið 2009 frá því sem hafði verið mörg ár þar á undan, og hlutfall bílaleigubíla af heildarsölunni jókst. Það hefur haldist þannig síðan og að meðaltali frá 2009-2014 hafa bílaleigubílar staðið undir 42% af sölu nýrra bíla. Aðeins 4 bílategundir mynda 50% flotans og 82% flotans samanstendur af 9 tegundum.

Íslandsbanki og ferðaþjónustan

Íslandsbanki býður einstaklingum, heimilum, fyrirtækjum og atvinnufjárfestum alhliða fjármálaþjónustu. Á fyrirtækjasviði Íslandsbanka hafa um árabil starfað sérstök teymi með sérhæfingu í sjávarútvegi, orku og sveitarfélögum. Sérstakt ferðaþjónustuteymi er nú einnig starfandi innan fyrirtækjasviðs ásamt ferðaþjónusturáði sem samanstendur af fjölbreyttum hópi úr ýmsum deildum bankans.

Á undanförnum árum hafa mörg af stærstu og öflugustu ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi verið á meðal viðskiptavina Íslandsbanka. Í árslok 2014 voru lán til fyrirtækja í ferðaþjónustu um 15% af lánasafni bankans. Fyrirtæki í ferðaþjónustu sem eru í viðskiptum við bankann eru yfir 500 talsins. Það er því ljóst að ferðaþjónusta sem atvinnugrein er bankanum afar mikilvæg.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall