Fréttir Greiningar

Stýrivaxtaspá: Óbreyttir vextir í ársbyrjun

31.01.2018 11:05

Við spáum óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, sem kynnt verður þann 7. febrúar næstkomandi. Skammtíma þróun verðbólgu, lækkandi raunvextir, minna aðhald opinberra fjármála og óhagstæðari samsetning hagvaxtar mun líklega vega þungt á metunum í vaxtaákvörðuninni nú, þótt á móti megi benda á hægari hækkun á íbúðamarkaði, stöðuga krónu og horfur á hægari hagvexti
 
Framsýna leiðsögnin mun væntanlega verða hlutlaus, en þó gæti örlað á harðari tóni en verið hefur undanfarið. Þar má nefna að í desember var peningastefnunefndin sammála um að þörf væri á peningalegu aðhaldi vegna spennu í þjóðarbúskapnum, og að aðhaldið þyrfti að vera meira en ella ef slaknaði á aðhaldi í ríkisfjármálum. Þótt ekki séu horfur á umtalsvert meiri slaka í opinberum fjármálum virðist okkur þó sem aðhaldið verði heldur minna á þeim bænum í ár en Seðlabankinn gerði ráð fyrir.

Raunstýrivextir fara lækkandi

Raunstýrivextir hafa lækkað jafnt og þétt frá miðju ári á flesta mælikvarða. Lækkunin er á bilinu 0,8% – 1,2% eftir mælikvörðum. Eru raunstýrivextirnir um þessar mundir á bilinu 1,3% – 2,0%. Frá síðustu vaxtakvörðun hafa raunstýrivextir lækkað um 0,4% miðað við liðna verðbólgu og um 0,2% að jafnaði miðað við verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Peningalegt aðhald hefur því minnkað talsvert frá fyrri helmingi síðasta árs.

Forvitnilegt verður að heyra hvernig peningastefnunefndin túlkar þessa þróun peningalegs aðhalds. Almennt virtust nefndarmenn vera nokkuð sáttir við aðhaldsstigið í desember ef marka má fundargerð desemberfunda nefndarinnar. Einn nefndarmaður viðraði raunar þá skoðun að rök kynnu að vera fyrir vaxtahækkun þá. Líklegt má telja að minna peningalegt aðhald styrki þann nefndarmann í skoðun sinni, og jafnvel kynnu fleiri nefndarmenn að taka undir að aðhaldið væri með minna móti.

Útlit fyrir minna aðhald opinberra fjármála en minnkandi framleiðsluspennu

Fram kom við kynningu á vaxtaákvörðun í desember að svo virtist sem opinber fjármál hefðu lagt meira til hagvaxtar á árinu 2017 en áður hafði verið talið. Fram komnar fjárhagsáætlanir helstu sveitarfélaga ásamt fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar benda að okkar mati til þess að aðhald opinberra fjármála verði öllu minna í ár en Seðlabankinn áætlaði í nóvember síðastliðnum. Ef bankinn deilir þessari skoðun okkar mun það draga úr vilja peningastefnunefndarmanna til að minnka peningalegt aðhald í bili.

Á móti má benda á að uppfærð þjóðhagsspá okkar hljóðar upp á minni hagvöxt á þessu ári en áður voru horfur á. Munurinn liggur einna helst í samdrætti atvinnuvegafjárfestingar milli ára og hægari vexti þjónustuútflutnings en við væntum áður. Það gæti því dregið hraðar úr framleiðsluspennu í hagkerfinu þegar frá líður en spáð var í síðustu Peningamálum. Einkaneysla og opinber umsvif munu þó vaxa talsvert í ár.

Samandregið má því segja að horfur séu á hægari hagvexti í ár en áður var talið, en á móti verði samsetning hagvaxtarins óhagstæðari í hagstjórnarlegu tilliti. Þessir þættir gætu vegist á í ákvörðun peningastefnunefndarinnar nú.

Krónan siglir lygnan sjó

Frá miðjum ágúst í fyrra hefur gengi krónu verið fremur stöðugt. Er það athyglisvert í ljósi þess að fjármagnshöftum var aflétt að mestu á fyrsta fjórðungi síðasta árs og Seðlabankinn hefur nánast alfarið haldið sig frá gjaldeyrismarkaði frá miðjum júlí. Stöðugleiki í krónu er bæði til marks um vel heppnaða afléttingu hafta og endurspeglar einnig allgott jafnvægi í gjaldeyrisflæði til og frá landinu.

Peningastefnunefndin taldi í desember ánægjulegt að gjaldeyrismarkaðurinn hefði verið í góðu jafnvægi í aðdraganda vaxtaákvörðunar þá. Væntanlega gleðjast nefndarmenn áfram yfir stöðugri krónu, enda stuðlar stöðugleiki krónunnar að minni sveiflum í verðbólgu en ella væri.

Verðbólga eykst og verðbólguálag hækkar

Verðbólgutakturinn hefur aukist nokkuð frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Verðbólga reyndist 2,4% í janúar 2018 og hefur ekki mælst meiri síðan í júlí 2014. Þá hefur dregið úr mældri verðhjöðnun miðað við VNV án húsnæðis, en hún mældist 0,9% í janúar. Horfur eru á að verðbólga verði áfram við 2,5% markmið Seðlabankans næsta kastið, en í síðustu verðbólguspá sinni gerði Seðlabankinn ráð fyrir 2,0% verðbólgu á 1F 2018 og 2,4% verðbólgu á 2F.

Væntanlega mun ný verðbólguspá Seðlabankans hljóða upp á öllu meiri verðbólgu til skemmri tíma litið en síðasta spá í ljósi fram kominna talna. Sú breyting mun að öðru jöfnu letja peningastefnunefndina til lækkunar vaxta að þessu sinni.

Verðbólguálag á markaði hefur hækkað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun. Stór hluti þeirrar hækkunar kom fram í kjölfar birtingar á verðbólgutölum janúarmánaðar. Ef undan er skilin vika í september síðastliðnum hefur verðbólguálagið ekki verið jafn hátt og nú frá 3F árið 2016. Væntanlega mun þessi hækkun á verðbólguálaginu leggjast fremur illa í peningastefnunefnd, enda fagnaði nefndin því í desember að nýlegar mælingar á verðbólguvæntingum væru í samræmi við verðbólgumarkmiðið. Verður í því sambandi fróðlegt að sjá niðurstöður mælingar á verðbólguvæntingum markaðsaðila, sem birtar verða mánudaginn 5. febrúar næstkomandi.

Spáum vaxtalækkun á komandi misserum 

Vaxandi verðbólga mun að mati okkar áfram leiða til lækkandi raunstýrivaxta á komandi fjórðungum að öðru jöfnu. Þó gæti Seðlabankinn viljað herða á lækkun raunstýrivaxtanna með því að lækka nafnvexti hóflega á komandi misserum eftir því sem spenna í hagkerfinu minnkar og verðbólguhorfur batna á nýjan leik. Nafnvextir gætu því lækkað um hálfa prósentu á næstu tveimur árum samkvæmt spá okkar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall