Friðrik Sophusson, stjórnarformaður

Ávarp stjórnarformanns

Árið 2015 markaði enn ein kaflaskilin í sögu Íslandsbanka. Bankinn skilar góðum árangri og uppsker árangur af vinnu síðustu ára og er nú kominn í eðlilegt og stöðugra umhverfi eftir mikla umbrotatíma. Í kjölfar nauðasamningsins á milli Glitnis og kröfuhafa hefur eignarhald bankans flust frá Glitni yfir til ríkisins. Sú aðgerð markar upphaf nýs kafla í sögu bankans.

Haustið 2015 urðu straumhvörf þegar nauðasamningar náðust um slitabú föllnu bankanna. Í framhaldi af því ályktaði Seðlabanki Íslands að efndir nauðasamninganna ásamt fyrirhuguðum mótvægisráðstöfunum leiði hvorki til óstöðugleika í gengis- og peningamálum né raski fjármálastöðugleika.

Mikilvægt er að íslenskir skattgreiðendur njóti góðs af sölu bankans og að hann fái um leið ákveðið frelsi til að halda hlutverki sínu áfram sem mikilvæg fjármálastofnun sem styður við hagvöxt á Íslandi með ábyrgum hætti. Vert er að hafa í huga að Íslandsbanki og forverar hans voru í einkaeigu áður en þeir sameinuðust og mynduðu hið öfluga félag sem bankinn er í dag. Þetta speglast meðal annars í þeirri verðmætu fyrirtækjamenningu bankans og metnaði starfsfólks til að vera númer eitt í þjónustu við viðskiptavini.

Nokkrar breytingar voru gerðar á stjórn Íslandsbanka á árinu. John E. Maack og Þórönnu Jónsdóttur er hér með þakkað fyrir vel unnin störf. Þá langar mig til að bjóða velkomin til stjórnarstarfa þau Evu Cederbalk og Gunnar F. Helgason. Marianne Økland tók við sem varaformaður stjórnar í mars 2015 en hún hefur setið í stjórn frá því í janúar 2010.

Íslandsbanki réð Ernst & Young sem ytri endurskoðendur bankans í stað Deloitte á þessu ári. Ráðningin er í samræmi við reglugerð um að skipt sé um ytri endurskoðendur á fimm ára fresti. Af því tilefni þökkum við Deloitte fyrir framúrskarandi þjónustu og ákaflega gott samstarf á undanförnum árum.

Íslandsbanki skuldbindur sig til að starfa eftir ýtrustu kröfum um stjórnarhætti og siðareglur. Bankinn fylgir ákveðinni stefnu sem tryggir að bankanum sé stjórnað á skilvirkan hátt, með virkri umsjón og eftirliti. Stefnan heitir „Góðir stjórnarhættir”og var kynnt árið 2012. Stefnan tekur til allra mikilvægustu ákvarðana sem bankinn þarf að fjalla um og setur ákveðin skilyrði fyrir hverri og einni. Þannig er tryggt að allar mikilvægar ákvarðanir séu teknar að höfðu samráði við hæfustu aðila innan bankans á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga hverju sinni.

Íslandsbanki fékk endurnýjaða viðurkenninguna „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum” frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands í samvinnu við Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi í mars 2015. Við erum afar ánægð með viðurkenninguna og ætlum okkur að halda áfram að uppfylla þau skilyrði sem í henni felast og lúta að stjórnarháttum, jafnréttismálum og framlagi stjórnenda.

Að lokum vil ég þakka stjórnendum og starfsfólki bankans fyrir vel unnin störf. Á grundvelli fagmennsku, eljusemi og metnaðar þeirra hefur bankinn skilað þeirri góðu afkomu sem raun ber vitni.

Ársskýrsla Íslandsbanka 2015, ásamt ársreikningi samstæðu og áhættuskýrslu, gefa greinargóða mynd af starfsemi bankans og rekstri á árinu.

Hér má skoða skýrslurnar á PDF formi.

Ársskýrsla Ársreikningur Áhættuskýrsla

Að auki má finna allt kynningarefni, s.s. kynningar, tilkynningar, einblöðung, lykiltölur og myndband, á vef fjárfestatengsla undir afkoma og tilkynningar.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall