Friðrik Sophusson, stjórnarformaður

Ávarp stjórnarformanns

Árið 2016 var Íslandsbanka hagfellt. Í janúar 2016 komst bankinn að fullu í eigu íslenska ríkisins eftir að stjórnvöld luku samningum við Glitni og fengu 95% hlut í bankanum afhentan sem stöðugleikaframlag. Nú þegar þessum kafla í sögu bankans er lokið er hægt að horfa fram veginn og líta með eftirvæntingu til þess tíma er bankinn kemst aftur í einkaeigu.

Ísland eflist við hverja raun

Á Íslandi er nú tími efnahagsvaxtar og hagsældar, sem á sér vart hliðstæðu - jafnvægi í hagkerfinu er annað og betra en það var fyrir áratug. Árið 2008 varð Ísland að táknmynd fyrir fjármálahrun heimsins. Nú tæpum tíu árum síðar erum við fyrirmynd annarra þjóða um sjálfbæra endurreisn. Efnahagslífið á Íslandi er í miklum vexti; atvinnuleysi er lítið, útflutningur öflugur, verðbólgan hófleg og á sama tíma fara skuldir í efnahagslífinu lækkandi. Síðast en ekki síst er hrein skuldastaða þjóðarbúsins með þeim hætti að Ísland er orðið lánveitandi við umheiminn, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins.

Hinn öri vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi hefur fært bankanum sem og íslensku atvinnulífi og heimilum ný og spennandi tækifæri. Samhliða mætum við nýjum áskorunum meðan við metum og bregðumst við áhrifum þessa mikla vaxtar á hagkerfið, eignamarkaðinn, umhverfið og gjaldmiðilinn.

Þrjú helstu lánshæfismatsfyrirtækin hækkuðu öll lánshæfismat ríkissjóðs Íslands á síðasta ári og eru einkunnir ríkissjóðs nú A-3 / A- / BBB+. Þessar hækkanir endurspegla skrefin sem tekin hafa verið í átt að afnámi fjármagnshafta og minnkandi skuldsetningu. Það er því varla betri tími til að leita að nýjum samstarfsaðilum, bæði á Íslandi og utan landsteinanna, til að fjárfesta í kraftmiklu og farsælu fjármálafyrirtæki sem Íslandsbanki vissulega er.

Skattlagning

Íslandsbanki er umsvifamikill þátttakandi í íslensku efnahagslífi og er stoltur af því að greiða háa skatta til samfélagsins. Það er vert að taka fram að skattar og gjöld á íslenskar fjármálastofnanir eru með þeim hæstu sem þekkist á heimsvísu. Fyrir utan tekjuskatt, launaskatt og aðra almenna skatta og gjöld er 5,5% sérstakur fjársýsluskattur á laun lagður á íslenska banka og 6% skattur á hagnað umfram 1 ma.kr. Þar að auki greiða bankar svokallaðan bankaskatt sem núna er rétt undir 0,4% af heildarskuldum umfram 50 ma.kr.

Hagsmunir stjórnvalda eru hér tvíþættir, annars vegar af skattheimtu og hins vegar af verðmæti eignarhlutar ríkisins í íslensku bönkunum. Hár bankaskattur hefur neikvæð áhrif á afkomu og arðsemi eigin fjár og lækkar þar með verðmæti bankans. Þessir hagsmunir togast því á þegar ríkisstjórnin er að íhuga einkavæðingu. Þeir sem fjárfesta í íslenskum bönkum í framtíðinni verða að fá fullvissu fyrir því að bankaskatturinn verði afnuminn.

Arðgreiðslur til íslenska ríkisins

Í desember 2016 greiddi bankinn sérstaka arðgreiðslu til ríkisins að fjárhæð 27 ma.kr. Að auki greiddi bankinn í apríl á síðasta ári arð að fjárhæð 10 ma.kr. (50% af hagnaði ársins 2015). Samtals greiddi bankinn því 37 ma.kr. í arð til íslenska ríkisins árið 2016.

Breytingar á stjórn bankans

Talsverðar breytingar urðu á stjórn bankans á liðnu ári. Fimm nýir stjórnarmenn voru kjörnir á síðasta aðalfundi. Þeir eru: Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason og Heiðrún Jónsdóttir. Fráfarandi stjórnarmenn, þau Árni Tómasson, Marianne Økland og Neil Brown, unnu frábært starf í þágu bankans frá árinu 2010. Við kvöddum einnig Evu Cederbalk og Gunnar Fjalar Helgason og þökkum mikilvægt framlag þeirra beggja, en þau voru kjörin í stjórnina árið 2015. Fyrir hönd Íslandsbanka vil ég þakka öllu þessu góða fólki fyrir árangursríkt samstarf meðan þau voru í stjórn. Framúrskarandi reynsla og þekking þeirra hafa lagt mikið af mörkum við enduruppbyggingu bankans og sýn hans til framtíðar.

Einnig færum við EY, þakkir fyrir gott samstarf á fyrsta starfsári þeirra sem endurskoðendur bankans.

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Íslandsbanki er staðráðinn í að viðhalda góðum stjórnarháttum. Í bankanum er viðamikið regluverk sem ætlað er að tryggja að honum sé stjórnað á skilvirkan hátt, með virkri umsjón og eftirliti. Íslandsbanki fékk viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“ í mars 2014, í kjölfar umfangsmikillar athugunar á starfsháttum stjórnar og framkvæmdastjórnar. Viðurkenningin var endurnýjuð í mars 2015 og mars 2016, og svo aftur í nú febrúar 2017.

Bankinn fylgir áfram stefnu sinni um góða stjórnarhætti sem var fyrst innleidd árið 2012. Með þessa stefnu að leiðarljósi eru allar mikilvægar ákvarðanir, sem hugsanlegt er að bankinn vilji grípa til við tilteknar aðstæður, kortlagðar. Tryggt er að allar meiriháttar ákvarðanir séu teknar á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga og að fengnu áliti viðeigandi aðila sem leita skal til í hverju tilliti.

Ég vil að lokum þakka framkvæmdastjórn Íslandsbanka og starfsfólki fyrir árangursríkt starf og óbilandi eldmóð þeirra að fylgja sýn bankans um að vera númer eitt í þjónustu.

Ársskýrsla Íslandsbanka 2016, ásamt ársreikningi samstæðu og áhættuskýrslu, gefa greinargóða mynd af starfsemi bankans og rekstri á árinu.

Hér má skoða skýrslurnar á PDF formi.

Ársskýrsla Ársreikningur Áhættuskýrsla

Að auki má finna allt kynningarefni, s.s. kynningar, tilkynningar, einblöðung, lykiltölur og myndband, á vef fjárfestatengsla undir afkoma og tilkynningar.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall