Gerð ferilskrár

Engar heilagar reglur eru um ferilskrá. Um hana gilda mismunandi venjur eftir því í hvaða landi verið er að sækja um starf. Ferilskráin getur verið eitt mikilvægasta skrefið í atvinnuleitinni, sérstaklega ef hún er það fyrsta sem atvinnuveitandinn sér frá þér. Þess vegna er mikilvægt að vanda vel gerð hennar.

Ferilskrá er hugsuð til að vinnuveitandi geti séð hvort umsækjandi uppfyllir þær meginkröfur sem gerðar eru til starfsins. Ef til viðtals kemur mun gefast tækifæri til að fjalla nánar um það sem stendur í henni.

Ferilskrá er hugsuð til að kynna einstaklinginn; að skýra í grófum dráttum frá menntun, reynslu, áhugamálum og fleiru. Hún er einskonar ævi- og starfságrip í stuttu máli. Sérhver ferilskrá er persónubundin og hægt er að útfæra hana á margvíslegan hátt, þó er gott að halda sig við hefðbundið form í uppröðun upplýsinga. Einfalt og skýrt eru lykilorðin við gerð ferilskrár. Æskilegt er að hún sé ekki meira en ein til tvær síður. Lengd hennar miðast þó við hvort umsækjandi er nýkominn úr námi eða hefur verið lengi á vinnumarkaði.

Hér á eftir er að finna leiðbeiningar um hverjar þessar upplýsingar eru og framsetningu þeirra.

Uppbygging

Skipta má upplýsingum í ferilskrá í fimm megin þætti. Fyrst koma persónuupplýsingar, menntun og starfsferill. Þar á eftir er æskilegt að nefna félagsstörf, áhugamál eða önnur persónutengd atriði, þannig að sá sem les ferilskrána fái skýrari mynd af einstaklingnum. Í lokin þarf að tilgreina umsagnaraðila.

Mikilvægt er að leturgerðin sem notuð er sé skýr og kaflarnir vel afmarkaðir.

Persónuupplýsingar

Helstu persónuupplýsingar sem þurfa að koma fram eru:

  • Fullt nafn
  • Kennitala
  • Netfang
  • Heimilisfang
  • Símanúmer

Þessar upplýsingar eru yfirleitt settar upp í eins konar haus á bréfinu. Hér er einnig gott að skanna inn passamynd.

Undir þennan lið er einnig hægt að setja fleiri upplýsingar, t.d. um fjölskylduhagi, um reykingar eða annað það sem umsækjandi telur að skipti máli. Ef umsækjandi er að sækja um tímabundið starf eða hlutastarf er gott að það komi fram undir þessum lið.

Menntun

Þegar umsækjandi tilgreinir menntun sína er rétt að byrja á því námi sem hann lauk síðast þar sem það vegur væntanlega þyngst. Helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram eru skóli, heiti náms, gráða, einkunnir og námstími. Einnig getur verið gott að tilgreina þau fög sem umsækjandi lagði áherslu á í námi. Ef umsækjandi hefur sótt námskeið sem hann telur að muni skipta máli í því starfi sem hann sækir um er upplagt að geta þeirra hér.

Starfsferill

Líkt og þegar getið er um menntun skal byrja á því starfi sem umsækjandi stundaði síðast. Helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram eru vinnustaður, stöðuheiti og lengd í starfi. Gott er geta í örfáum orðum um ábyrgðarsvið og helstu verkefni í starfi.

Persónutengd atriði

Auk ofangreindra upplýsinga getur umsækjandi getið um annað sem skiptir máli, eins og tölvukunnáttu, tungumálakunnáttu, áhugamál, félagsstörf og markmið. Ef umsækjandi hefur ákveðnar skoðanir á því hvers konar verkefnum hann hefur áhuga á, eða telur sig vera sterkan á ákveðnum sviðum, er gott að geta þess í fáeinum orðum til að lesandi átti sig á því hvar innan fyrirtækisins kraftar hans myndu nýtast best.

Umsagnaraðilar

Vinnuveitendur óska eftir umsögn um umsækjanda frá aðilum sem geta nefnt bæði styrkleika hans og veikleika. Varast skal þó að gefa upp náin skyldmenni eða vini, þar sem þeir eru ekki í aðstöðu til að gefa hlutlausa umsögn. Umsagnaraðilar ættu að vera a.m.k. tveir og skal gefa upp nafn þeirra, stöðu og símanúmer. Ef atvinnuleit á að fara leynt í byrjun þarf að koma fram ef umsagna skuli ekki leita án samráðs við umsækjanda.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall