Fréttir Greiningar

Lítilsháttar sumarlægð í væntingum neytenda í júlí

27.07.2016 09:40

Líkt og undanfarin ár lækka væntingar íslenskra neytenda nokkuð milli mánaða í júlí. Bjartsýni er þó ríkjandi meðal landsmanna, enda hafa aðstæður heimilanna að jafnaði batnað talsvert undanfarin misseri. Horfur eru á að íslensk heimili nýti hagstæðar aðstæður til að auka neyslu sína verulega í ár.

Væntingavísitala Gallup (VVG), sem birt var nýverið, mælist 124,9 stig í júlí og lækkar um tæp 11 stig frá júnímælingu vísitölunnar. Vísitalan er þó 26 stigum hærri en hún var í sama mánuði í fyrra og endurspeglar talsvert almenna bjartsýni, enda marka 100 stig jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni meðal íslenskra neytenda. Undanfarin 3 ár féll VVG raunar einnig talsvert í júlímánuði, og kann hér að vera um árstíðarbundin áhrif að ræða. Allar undirvísitölur VVG lækka nokkuð á milli mánaða, en eru þó allar eftir sem áður talsvert yfir 100 stiga jafnvægisgildinu líkt og VVG sjálf. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er gildi VVG nú á svipuðum slóðum og í góðærinu 2004-2007 að jafnaði.

Batnandi fjárhagur heimila

Bjartsýni neytenda um þessar mundir á sér góðar og gildar skýringar. Hagur heimilanna hefur að jafnaði vænkast myndarlega undanfarin misseri. Skuldir þeirra hafa minnkað, fasteignir hækkað í verði og starfandi Íslendingum hefur fjölgað jafnt og þétt. Síðast en ekki síst hafa laun hækkað hratt á sama tíma og verðbólga hefur verið afar hófleg vegna styrkingar krónu og hagfelldrar verðþróunar á hrávörum og eldsneyti erlendis. Aukning kaupmáttar launa hefur því verið mun meiri undanfarið en á sambærilegum tímabilum mikilla launahækkana á undanförnum áratugum, þegar verðbólga var veruleg á sama tíma.

Hröð aukning kaupmáttar

Nýlegar tölur Hagstofunnar um launa- og kaupmáttarþróun draga þetta skýrt fram. Í júní hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 1,5% frá mánuðinum á undan. Frá sama mánuði í fyrra nemur hækkunin 12,5%. Á sama tímabili mældist verðbólga 1,6%, og kaupmáttur launa jókst því um 10,7% á tímabilinu.

Þótt enn gæti áhrifa af tveimur samningsbundnum launahækkunum hjá hluta launþega innan þessa 12 mánaða tímabils, og framundan séu hóflegri samningsbundnar hækkanir næstu ár, er ekki að undra að heimilin telji hag sinn mun vænni nú en áður eftir slíka kjarabót. Kaupmáttaraukningin hefur einnig endurspeglast í hagtölum sem gefa til kynna þróun einkaneyslu hérlendis, s.s. kortaveltu og innflutningi neysluvara. Okkur þykir því sýnt að einkaneysla muni vaxa hratt á yfirstandandi ári, og kann spá okkar frá júníbyrjun um 7,8% vöxt einkaneyslu á milli ára að hafa verið hófleg fremur en hitt.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall