Fréttir Greiningar

Þjóðhagsspá - ágætar horfur í efnahagsmálum

02.05.2014 13:00

Greining Íslandsbanka hefur gefið út nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2014 - 2016.

2014 - Ár jafnvægis og ágæts hagvaxtar

nullVið teljum að horfur í efnahagsmálum hér á landi séu góðar um þessar mundir. Við spáum 3,2% hagvexti hér á landi í ár sem er svipaður hagvöxtur og mældist á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hagvöxtur í ár verður þó af töluvert öðrum toga en hagvöxtur síðasta árs sem drifinn var áfram af utanríkisviðskiptum. Samkvæmt spá okkar mun hagvöxtur þessa árs verða drifinn áfram af vexti í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi. Við spáum hins vegar talsvert hraðari vexti í innflutningi en útflutningi í ár, og mun því framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verða neikvætt á árinu.

Dregið hefur talsvert úr slakanum í hagkerfinu sem myndaðist við hrunið 2008. Er það m.a. sýnilegt í tölum frá vinnumarkaðnum, en atvinnuleysi hefur stöðugt farið minnkandi frá því að það náði hámarki á árinu 2010. Við reiknum með því að áfram dragi úr framleiðsluslakanum í hagkerfinu, og að staðan á vinnumarkaði batni enn frekar. Þá spáum við því að verðbólga muni vera undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans stóran hluta af árinu, gengi krónu verði nokkuð stöðugt og að peningastefnunefnd Seðlabankans  muni lækka stýrivexti bankans á fyrri hluta ársins en halda þeim óbreyttum á seinni helmingi ársins. Árið mun því einkennast af óvenju miklu jafnvægi í ýmsum mikilvægum efnahagsstærðum.

Hagvaxtarhorfur góðar 2015 og 2016

nullVið spáum 3,3% hagvexti á næsta ári, og mun hann verða, líkt og hagvöxtur þessa árs, byggður á nokkuð breiðum grundvelli. Spáum við áfram nokkuð hröðum vexti einkaneyslu, þó að hann verði aðeins hægari en á þessu ári. Þá reiknum við með að vöxturinn í fjárfestingum verði öllu meiri á næsta ári og þá sérstaklega í fjárfestingum atvinnuveganna. Einnig reiknum við með nokkuð kröftugum vexti í útflutningi vöru og þjónustu, en áfram gerum við ráð fyrir meiri vexti í innflutningi og verður því framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar áfram neikvætt.

Aðeins dregur úr hagvexti þegar kemur fram á árið 2016, en þess ber að geta að óvissan í hagvaxtarspám þegar horft er svona langt fram í tímann er mikil. Spáum við 2,4% hagvexti það árið. Minni vöxtur í fjárfestingum og útflutningi skýrir minni hagvöxt að mestu. Innlend eftirspurn og útflutningur mun þó halda áfram að vaxa. Út allt spátímabilið mun fjárfestingarstigið í hagkerfinu hækka en það hefur verið mjög lágt eftir hrun. Þá mun þjóðhagslegur sparnaður einnig aukast á tímabilinu af þessum sökum.

Gengi krónunnar stöðugt

nullNokkrir kraftar munu toga gengi krónunnar í ólíkar áttir á næstunni. Fyrst má nefna að eðlilegt er að raungengi krónunnar hækki samhliða því að slakinn hverfur úr hagkerfinu, líkt og hér er spáð að gerist á næstunni. Samkvæmt verðbólguspá okkar mun raungengishækkunin gerast að nokkru marki með því að verðbólga hér verður umfram það sem hún verður í viðskiptalöndunum á spátímabilinu. Nafngengi krónunnar gæti hins vegar einnig styrkst eitthvað á þessu tímabili.

Á móti vegur sá greiðslujafnaðarvandi sem blasir við þegar borin er saman spá um undirliggjandi viðskiptajöfnuð á spátímabilinu og það vænta fjármagnsútflæði sem verður á tímabilinu vegna afborgana innlendra aðila af erlendum lánum. Í ljósi þessa vanda og þess að verðbólgan er við verðbólgumarkmiðið er ólíklegt að Seðlabankinn vilji sjá nafngengi krónunnar hækka í bráð a.m.k. Þó að bankinn geti ekki haft áhrif á raungengisþróunina til lengri tíma getur hann haft nokkuð um hana að segja til skemmri og miðlungslangs tíma. Mun hann því líklega vilja nýta það misvægi í gjaldeyrisstraumum til og frá landinu sem ellegar myndi hafa styrkt krónuna til að efla óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð sinn á næstunni. Við væntum þess að ofangreindir kraftar á gjaldeyrismarkaði vegi hvorn annan upp og að krónan haldist nálægt því gildi sem hún er í nú út spátímabilið.

Meiri verðbólga og hærri stýrivextir framundan

nullVerðbólgan mun haldast undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans stóran hluta ársins samkvæmt spá okkar, en taka að aukast nokkuð á næsta ári samhliða því að spenna tekur að myndast í efnahagslífinu. Spáum við því að verðbólgan verði 2,9% á næsta ári og 3,1% á árinu 2016. Hröð hækkun húsnæðisverðs ásamt innlendum kostnaðarverðs-hækkunum skýrir aukna verðbólgu. Þá munu þverra áhrifin af styrkingu krónunnar undanfarna mánuði þegar líður á þetta ár. Verðbólgan ætti hins vegar að vera nokkuð undir hækkun launa að jafnaði, og kaupmáttur launa mun því halda áfram að aukast samkvæmt spánni. Einnig mun verðbólgan verða undir verðhækkun húsnæðis, og raunverð íbúðarhúsnæðis ætti því að halda áfram að hækka en með nokkuð hægari takti en verið hefur undanfarið.

Við reiknum með því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti bankans fyrir mitt yfirstandandi ár um 0,25 prósentur. Samhliða því að spenna myndast í efnahagslífinu reiknum við hins vegar með að nefndin ákveði að hækka stýrivexti bankans í þrígang á næsta ári um samtals 0,75 prósentur. Verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,5% í árslok 2015. Við spáum síðan einni 0,25 prósentustiga hækkun á árinu 2016. Við reiknum með að langtíma nafnvextir muni hækka á spátímabilinu vegna hækkunar stýrivaxta og aukinna verðbólguvæntinga. Við væntum hins vegar lítilla breytinga í langtíma raunvöxtum þar sem þessir tveir áhrifaþættir munu vegast á.

Minnkandi afgangur af utanríkisviðskiptum

nullMikill vöxtur í þjónustuútflutningi ásamt áframhaldandi vexti í útflutningi sjávarafurða verða helstu stoðir þess vaxtar í útflutningi sem við spáum á komandi misserum. Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði mun hins vegar minnka sem hlutfall af VLF eftir því sem líður á spátímann. Á heildina litið áætlum við að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði muni reynast 6,0% af VLF í ár, en minnka næstu ár og verða 4,4% af VLF árið 2016. Þessu veldur allhraður vöxtur innflutnings, sem reynast mun umfram vöxt útflutnings öll ár spátímans. Orsakir vaxtar í innflutningi eru fyrst og fremst aukin innlend eftirspurn, sem endurspeglast bæði í aukningu í innflutningi neysluvara og eins í meira magni innfluttra fjárfestingarvara.

Samhliða því að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði minnkar dregur úr afgangi af viðskiptajöfnuði. Við gerum þó ráð fyrir að afgangur verði af undirliggjandi viðskiptajöfnuði, þ.e. þegar leiðrétt hefur verið fyrir uppgjöri gömlu bankanna, út spátímabilið. Áætlum við að afgangur af undirliggjandi viðskiptajöfnuði verði 2,6% af VLF í ár, en að hann reynist 1,0% af VLF árið 2016. Það mun því draga nokkuð úr gjaldeyrisinnflæði tengdu utanríkisviðskiptum á næstu árum, en þó ber að hafa í huga að hluti af minnkandi viðskiptaafgangi er til kominn vegna aukins innflutnings fjárfestingarvara til iðnaðar sem að hluta eru fjármagnaðar erlendis og kalla því ekki á gjaldeyrisútflæði.

Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall