Fréttir Greiningar

Hagvöxtur af bestu gerð

07.03.2014 12:20

nullHagvöxtur mældist 3,3% á árinu 2013 skv. bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti nú í  morgun. Er þetta nokkuð umfram það sem flestir aðilar voru að spá, og þ.m.t. Seðlabankinn Íslands (SÍ) sem reiknaði með hagvexti upp á 3,0% á árinu. Þá er þetta mesti hagvöxtur sem hefur mælst á einu ári frá árinu 2007.

Það sem er að skapa hagvöxt á síðasta ári eru utanríkisviðskipti enda standa þjóðarútgjöld nánast í stað á milli ára. Afgangur af undirliggjandi viðskiptajöfnuði jókst talsvert á milli ára 2012 og 2013. Nam afgangurinn 6,4% af VLF í fyrra og er það mesti afgangur sem mælst hefur frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945, og er umtalsvert betri niðurstaða en SÍ reiknaði með (5,3%). 

Í heildina litið teljum við þetta mjög jákvæðar tölur, og má í raun segja að þetta sé hagvöxtur af „bestu gerð“. Er það ólíkt því sem var fyrir hrun þegar hagvöxtur var af stórum hluta tekinn að láni og gríðarlegur halli var á utanríkisviðskiptum.

Minni slaki en áður var reiknað með

nullÍ ljósi þess að hagvöxtur er nú talinn hafa verið nokkru meiri á síðasta ári en áður var spáð má einnig gera ráð fyrir að framleiðsluslakinn hafi minnkað meira en áður var áætlað. Í sinni nýjustu spá reiknaði SÍ með að slakinn á síðasta ári hafi verið tæplega 1%, en m.v. nýbirtar tölur er ljóst að hann er nær ½%. Rifja má upp að peningastefnunefnd SÍ hefur sagt í yfirlýsingum sínum undanfarið að eftir því sem slakinn hverfur úr hagkerfinu er rétt að slakinn hverfi einnig úr peningastjórnuninni, þ.e. að raunstýrivexti hækki.

Hægur vöxtur einkaneyslu

nullVöxtur þjóðarútgjalda nam einungis 0,1% í fyrra, sem er talsvert minna en SÍ (spá SÍ 0,4%) hafði gert ráð fyrir. Þar munar mestu um að einkaneyslan var að vaxa nokkuð minna en SÍ hafði reiknað með, eða um 1,2% á móti 1,6%. Þrátt fyrir að einkaneyslan hafi braggast nokkuð frá því hún náði botni árið 2009, þá hefur hún ekki enn náð nærri sömu hæðum og fyrir hrun. Sé einkaneysla í fyrra borin saman við árið 2007 þegar hún náði hámarki, þá virðist hver landsmaður hafa að jafnaði eytt 20% minna í fyrra en 2007. Fara þarf aftur til ársins 2002 til þess að finna lægri einkaneyslu á mann, að undanskildum eftirhrunsárunum. Samneyslan jókst um 1,3% sem var í takti við spá SÍ.

Hlutfall fjárfestingar enn of lágt

nullFjárfesting dróst minna saman í fyrra en SÍ reiknaði með, eða um 3,4% í stað 4,3%. Þennan samdrátt fjárfestingar má fyrst og fremst rekja til minni innflutnings skipa og flugvéla sem dregur einnig úr innflutningi. Eru því lítil nettó áhrif vegna  þess á VLF ársins, en að skipum og flugvélum undanskildum jókst fjárfesting um 5,8% í fyrra sem má telja jákvætt. Þó er fjárfesting sem hlutfall af VLF enn afar lágt bæði í söguleg ljósi og í alþjóðlegu samhengi. Nam fjárfesting um 13,6% af VLF í fyrra, og hefur þetta hlutfall verið í sögulegu lágmarki síðustu 5 ár sem er umhugsunarefni í ljósi þess gildis sem fjárfesting hefur fyrir framtíðahagvöxt.

Utanríkisviðskipti skýra nær allan hagvöxt

Utanríkisviðskipti voru drifkraftur hagvaxtarins á síðastliðnu ári, eins og áður segir. Voru þau talsvert hagfelldari en SÍ gerði ráð fyrir en framlag þeirra til hagvaxtar nemur 3,2%, eða m.ö.o. þau skýra nær allan hagvöxt síðastliðins árs. SÍ hafði reiknað með að framlag þeirra yrði 2,6%.  Er útflutningur að vaxa meira en SÍ reiknaði með og innflutningur að dragast lítillega saman í stað þess að vaxa lítillega líkt og SÍ gerði ráð fyrir. Framlag utanríkisviðskipta vegna vöruskipta nam 1,6% en vegna þjónustuviðskipta 1,8% eins og áður segir. Vart þarf að taka fram hér að hér spilar ferðaþjónustan stóran rullu, og teljum við ekki ofmælt að segja að sú grein hafi heldur betur fært landinu björg í bú á undanförnum árum.

Þetta hefur jafnframt gert það að verkum að útflutningur nam 57,3% af VLF á síðasta ári og hefur það hlutfall aldrei áður farið hærra frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst á Íslandi árið 1945. Er það ekki síst merkilegt og viss þverstæða í því ljósi að hér eru gjaldeyrishöft en þetta hlutfall ásamt hlutfalli innflutnings af landsframleiðslu hefur oft verið notað á það hversu opið hagkerfið er. Tölurnar sýna að útflutningur er að vaxa umtalsvert þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall