Fréttir Greiningar

Spáum 0,6% hækkun neysluverðs í mars

11.03.2016 10:27

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,6% í mars frá febrúarmánuði. Verðbólga hjaðnar samkvæmt spánni úr 2,2% í 1,7%, enda hækkaði VNV um 1,0% í mars í fyrra. Verðbólga verður því miðað við spána áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa versnað lítillega frá síðustu spá okkar. Horfur eru á að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á síðasta fjórðung yfirstandandi árs. Undir lok ársins stígur verðbólgan hins vegar yfir markmiðið, og mun verða nokkuð yfir því árin 2017 og 2018. Hagstofan birtir VNV fyrir mars kl. 09:00 þann 30. mars næstkomandi.

Húsnæði, útsölulok og ferðaliður til hækkunar 

Húsnæðisliður VNV er sá þáttur sem þyngst vegur til hækkunar hennar að þessu sinni. Í heild gerum við ráð fyrir að liðurinn hækki um ríflega 0,6% í mars (0,18% áhrif í VNV). Þar skiptir mestu 1,0% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,16% í VNV) en könnun okkar bendir til þess að hækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis muni reynast veruleg í mælingu VNV nú. 

Við gerum ráð fyrir að föt og skór hækki um 3,7% í mánuðinum (0,15% í VNV), enda eru útsölur nú að baki. Hækkunaráhrif þessa liðar eru hins vegar mun minni í spá okkar nú en raunin var í fyrra, og kemur þar þrennt til: Í fyrsta lagi voru áhrif útsöluloka meiri í febrúar en við bjuggumst við. Þá má búast við að áhrif afnáms vörugjalda á meirihluta innfluttra fata og skófatnaðar muni loks koma í ljós nú þegar útsölur eru um garð gegnar. Loks hafa nýjar vörur í fata- og skóverslunum væntanlega verið keyptar inn á mun hagstæðara gengi en þær vörur sem fyrir voru og fóru á útsölurnar í ársbyrjun. Í öllu falli teljum við að það hljóti að teljast óeðlileg þróun ef styrking krónu og afnám vörugjalda skilar ekki talsverðri verðlækkun á fötum og skóm til neytenda þegar öll kurl eru komin til grafar. Í heild teljum við að áhrif útsöluloka verði með minna móti í ár, og sér í lagi eigum við ekki von á teljandi hækkun á verði húsbúnaðar og raftækja eftir verulega hækkun í febrúar.

Ferðir og flutningar hafa alls áhrif til 0,14% hækkunar VNV að þessu sinni. Að stærstum hluta er hér um að ræða áhrif af tæplega 7% verðhækkun á flutningum í lofti (0,09% í VNV), en vísbendingar eru um talsverða hækkun á flugfargjöldum til útlanda. Þá hefur eldsneytisverð að jafnaði hækkað um 1,5% frá febrúarmælingu VNV í takti við verðhækkun erlendis (0,05% í VNV).

Fátt er um lækkunarliði í VNV að þessu sinni að okkar mati, en þó má búast við lítilsháttar lækkun á verði matar og drykkjar, sem og á áfengis- og tóbaksverði (alls -0,01% í VNV). Aðrir liðir vega minna, en hafa samtals áhrif til 0,09% hækkunar VNV í marsmánuði.

Hófleg verðbólga fram á haustið

Horfur eru á að hækkun VNV á fyrri helmingi ársins nemi samtals 1,4%. Við spáum 0,2% hækkun í apríl, 0,2% hækkun í maí og 0,3% hækkun í júní. Verðbólga mælist samkvæmt þessu að jafnaði 1,9% á fyrstu sex mánuðum ársins.

Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar VNV á komandi mánuðum, en þar spáum við 0,7% hækkun í mánuði hverjum líkt og raunin hefur verið að meðaltali undanfarna 12 mánuði. Í apríl gerum við að auki ráð fyrir nokkurri hækkun flugfargjalda, sem raunar lækka að nýju í maí og hækka loks talsvert í júní samkvæmt spánni. Er það í takti við árstíðarsveiflu síðustu ára. Þá mun verðhækkun á þjónustu hótela og veitingahúsa væntanlega vega drjúgt til hækkunar VNV í maí og júní, enda mesti annatími ferðaþjónustunnar þá framundan.

Vaxandi verðbólga á seinni árshelmingi

Á seinni hluta ársins eykst verðbólga jafnt og þétt í spá okkar, og fer verðbólga yfir 2,5% markmið Seðlabankans á síðasta fjórðungi ársins. Í árslok spáum við 3,2% verðbólgu. Á næsta ári er útlit fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 3,4% og árið 2018 gerum við ráð fyrir 3,3% meðalverðbólgu. Aukinn verðbólgu-þrýstingur skýrist af áframhaldandi hraðri hækkun á innlendum launakostnaði, viðvarandi raunhækkun á íbúðaverði og því að áhrif innfluttrar verðhjöðnunar fjara út, svo nokkuð sé nefnt.

Styrking krónu myndi halda aftur af verðbólgu

Krónan er, líkt og jafnan, einn helsti óvissuþátturinn í spá okkar, en við spáum óbreyttu gengi hennar næstu misserin. Til skamms tíma virðast þó meiri líkur á styrkingu hennar en veikingu, enda hefur innflæði gjaldeyris verið viðvarandi síðustu misserin og er nú svo komið að nægt svigrúm virðist vera til að mæta hugsanlegu útflæði vegna aflandskrónaútboðs, aukinna heimilda lífeyrissjóða til erlendrar fjárfestingar og uppgjörs slitabúa. 

Frekari styrking krónu myndi leiða til minni verðbólgu en hér er spáð, og má sem dæmi nefna að ef krónan styrkist um 5% til áramóta gefur spálíkan okkar þá niðurstöðu að verðbólga verði 2,5% í árslok og einnig nokkru minni á næsta ári en ella. Frekari styrking krónu gæti þó reynst skammgóður vermir, þar sem frekari hækkun raungengisins grefur að okkar mati á endanum undan samkeppnishæfni þeirra innlendu fyrirtækja sem helst keppa við erlend og eykur að sama skapi hættu á ytra ójafnvægi hagkerfisins og gengisfalli síðar meir. Einnig gæti hækkun launa reynst hraðari næsta kastið en við gerum ráð fyrir, sem vegur þá til aukinnar verðbólgu á næstu misserum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall