Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttu neysluverði í október

17.10.2014 10:41

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) verði óbreytt frá fyrri mánuði í október. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða taktur verðbólgu sömuleiðis verða óbreyttur í 1,8%. 

Verðbólguhorfur eru sem fyrr ágætar út yfirstandandi ár, og hafa batnað jafnt og þétt undanfarna mánuði. Við gerum nú ráð fyrir að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram undir mitt næsta ár. Í kjölfarið spáum við aukinni verðbólgu samhliða því að meiri þróttur færist í efnahagslífið, þótt verðbólga verði áfram í grennd við markmið Seðlabankans. Hagstofan birtir VNV fyrir október kl.09:00 þann 29. október næstkomandi.

Eldsneyti og raftæki lækka

Lækkandi eldsneytisverð er stærsti einstaki áhrifaþátturinn í spá okkar fyrir október. Heimsmarkaðsverð á kolefnaeldsneyti hefur lækkað verulega undanfarnar vikur, og hefur það skilað sér í 3,8% lækkun á eldsneytisverði (-0,16% áhrif í VNV) hér á landi frá septembermælingu Hagstofunnar. Þá hefur fyrirhuguð lækkun vörugjalda um næstu áramót þegar haft áhrif á verð stærri heimilistækja, sjónvarpa og hljómtækja, og áætlum við að áhrifin séu til 0,04% lækkunar VNV nú. Loks lækkar verð á gistingu væntanlega nokkuð í október (-0,03% í VNV) enda er háannatími í ferðaþjónustu að baki.

Minni hækkun húsnæðisliðar

Húsnæðisliður VNV hefur undanfarið verið megin drifkraftur hækkunar hennar, enda mældist verðbólga í september aðeins 0,4% miðað við VNV án húsnæðis. Hins vegar virðist sem áhrif húsnæðisliðar verði minni í október en verið hefur að jafnaði upp á síðkastið. Kemur þar bæði til að vísbendingar eru um hægari hækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, og einnig hefur viðhaldskostnaður lækkað um 0,4% frá septembermælingu VNV. Við gerum ráð fyrir að húsnæðisliðurinn í heild hækki um 0,2% (0,05% áhrif í VNV). 

Þá hækka flugfargjöld til útlanda væntanlega nokkuð í októbermánuði (0,03% í VNV), þótt sú hækkun vegi aðeins að litlu leyti upp verulega lækkun á þessum lið í ágúst og september. Aðrir liðir breytast minna, en vega samanlagt til 0,12% hækkunar VNV í októbermánuði.

Verðbólga undir markmiði út veturinn

Við teljum að VNV hækki samtals um 0,4% á síðasta fjórðungi ársins, og hækkunin falli jöfnum höndum til í nóvember og desember. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 1,3% í árslok. Ýmsir þættir skýra lítinn skammtíma verðbólguþrýsting. Má þar nefna að innflutt verðbólga er afar lítil, enda krónan stöðug og verð á ýmsum vörum á borð við matvæli og eldsneyti hefur lækkað talsvert erlendis undanfarið. Þá er kostnaðarþrýstingur vegna launa enn tiltölulega hóflegur, og þar teljum við að hófsemi í nafnlaunahækkunum í kjarasamningum í upphafi árs sé að skila sér í minni verðþrýstingi.

Útlit er fyrir að verðbólga aukist jafnt og þétt eftir því sem líður á næsta ár, og fari upp fyrir 2,5% markmið Seðlabankans á seinni hluta ársins. Aukinn gangur í efnahagslífinu mun væntanlega endurspeglast í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun fasteignaverðs. Verðbólga helst þó í grennd við verðbólgumarkmiðið, og ef spá okkar gengur eftir munu árin 2014-2016 verða lengsta tímabil verðbólgu innan þolmarka Seðlabankans (1,0% - 4,0%) frá því núverandi verðbólgumarkmið var tekið upp á vordögum 2001. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 2,4% á árinu 2015 og 2,8% á árinu 2016.  

Helstu forsendur langtímaspár okkar eru að íbúðaverð hækki um 5% - 7% á hverju ári út spátímann, laun muni hækka allhratt á næstu misserum samhliða aukinni spennu á vinnumarkaði og að litlar breytingar verði á gengi krónu. Þó ber að halda því til haga að óvissan í spánni er fremur í þá átt að verðbólga reynist meiri en hér er spáð. Launahækkanir hérlendis gætu hæglega reynst hraðari en gert er ráð fyrir, auk þess sem við teljum meiri líkur á að krónan veikist en styrkist þegar frá líður, þótt í bili bendi flest til þess að Seðlabankinn muni áfram stuðla að stöðugleika í gengi krónunnar næsta kastið.

Verðbólguspá Greiningar

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall