Fréttir Greiningar

Meiri hjöðnun verðlags í nóvember en vænst var

26.11.2015 12:05

Verðbólgumæling Hagstofunnar í nóvember er undir spám, og eykst því verðbólga minna en vænst var. Útlit er fyrir að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram yfir mitt næsta ár.

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um  0,35% í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,0%, en var 1,8% í október sl. Miðað við VNV án húsnæðis mælist hins vegar aðeins 0,3% verðbólga undanfarna 12 mánuði líkt og í október. Við spáðum 0,2% lækkun VNV milli mánaða, en spár hljóðuðu ýmist upp á 0,2% lækkun VNV eða óbreytta vísitölu. Er því verðhjöðnunin milli mánaða meiri en vænst var.

Húsnæðiskostnaður á uppleið

Húsnæðisliðurinn var sá áhrifaþáttur í VNV sem vó þyngst til hækkunar hennar í nóvember, og í raun er hann nánast eini liðurinn sem hefur veruleg hækkunaráhrif á VNV í mánuðinum. Í heild hækkaði liðurinn um tæp 0,4% (0,1% áhrif í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,8% (0,12% í VNV) en á móti lækkaði greidd húsaleiga um 0,4% (-0,02% í VNV). Nokkuð hefur dregið saman með leiguverði og íbúðaverði á árinu ef miðað er við þróun þessara liða innbyrðis. Þannig hefur reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, hækkað um 8,5% það sem af er ári á meðan greidd húsaleiga hefur hækkað um 3,1%.

Margir lækkunarliðir leggjast á eitt

Þeir liðir sem höfðu áhrif til lækkunar VNV í nóvember tengjast margir hverjir innflutningi, og má að okkar mati vel greina áhrif styrkingar krónunnar og lækkunar eldsneytisverðs á 3. ársfjórðungi í tölunum nú. Ferða- og flutningaliður VNV vó þyngst til lækkunar hennar nú en í heild lækkaði hann um 1,3% (-0,19% í VNV). Þar skipti sköpum að flugfargjöld til útlanda lækkuðu um tæp 13% (-0,18% í VNV). Flugfargjöld til útlanda hafa nú lækkað um tæp 40% frá júlí sl, og hjálpast þar að árstíðarsveifla, lækkun eldsneytisverðs og styrking krónu á tímabilinu ásamt hugsanlegum áhrifum af aukinni samkeppni. Þá lækkaði bifreiðaverð um rúm 0,5% (-0,03% í VNV) og eldsneytisverð um 0,4% (-0,01% í VNV). Á hinn bóginn varð veruleg hækkun á verði reiðhjóla í mánuðinum, eða um 7,6% (+0,02% í VNV), sem kom talsvert á óvart enda hefur verð þeirra sjaldan hreyfst mikið í nóvembermánuði. 

Auk þess lækkaði verð á mat- og drykk um 0,7% (-0,10% í VNV). Sú lækkun náði bæði til innlendrar framleiðslu sem innfluttra matvæla, og virðist sem aukinn launakostnaður undanfarna mánuði í innlendri matvælaframleiðslu, sem og í dagvöruverslun, hafi tiltölulega hófleg áhrif á matvælaverð enn sem komið er.

Enn fremur lækkaði verð á fötum og skóm um 0,5% í nóvember (-0,03% í VNV) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði um 1,0% (-0,04% í VNV). Þessir innfluttu vöruflokkar hafa hægari veltuhraða en t.d. matvara, og er því eðlilegt að áhrifa styrkingar krónu gæti seinni í þeim en matvörunni. Lækkunin á fötum og skóm var minni en við áttum von á. Gæti lækkunin því orðið enn meiri í jólamánuðinum en við höfum þegar reiknað með í spá okkar, enda fjölgar stöðugt í hópi þeirra fata- og skóverslana sem auglýsa afslátt samsvarandi vörugjöldunum þar til þau leggjast af um áramót. Loks lækkaði verð á símaþjónustu, þ.m.t. internettengingum, um 2,4% (-0,07% í VNV) og hefur þessi liður nú lækkað um 5,5% frá ágúst síðastliðnum.

Betri horfur en Seðlabankinn vænti

Horfur fyrir þróun VNV næstu mánuði eru svipaðar og við áætluðum í nýjustu verðbólguspá okkar. Styrking krónunnar á 3. ársfjórðungi hefur áhrif til minni hækkunar VNV á næstunni en útlit var fyrir fyrr á árinu, og einnig vega lækkun eldsneytisverðs á heimsmarkaði og afnám vörugjalda á föt og skó frá löndum utan EES til minni verðbólguþrýstings. Bráðabirgðaspá okkar nú gerir ráð fyrir að VNV hækki um um 0,2% í desember, lækki um 0,6% í janúar en hækki að nýju um 0,6% í febrúar. Verðbólga verður skv. spánni 1,9% í febrúar 2016, og mun VNV á heildina litið lækka um 0,2% á tímabilinu frá október til febrúar. 

Verðbólga verður því töluvert minni næsta kastið en spáð var af Seðlabankanum í nóvember, en í spá sinni þá gerði hann ráð fyrir 2,3% verðbólgu á lokafjórðungi þessa árs, 2,7% á 1. fjórðungi næsta árs, og 3,0% á 2. fjórðungi 2016. Við reiknum hins vegar með að verðbólga reynist 1,9% á hverjum þessara fjórðunga. Raunar verður verðbólga undir 2,5% markmiði Seðlabankans fram yfir mitt næsta ár, gangi spá okkar eftir. Seðlabankinn reiknaði hins vegar með í nóvemberspá sinni að verðbólga færi yfir markmið fyrir árslok og héldist þar a.m.k. fram til ársloka 2018. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall