Fréttir Greiningar

Metafgangur af viðskiptajöfnuði

03.12.2013 12:41

nullAldrei áður hefur meiri afgangur mælst af viðskiptajöfnuði á einum ársfjórðungi en á þriðja fjórðungi nú í ár. Bendir allt til þess að viðskiptajöfnuðurinn á árinu 2013 í heild verði sá hagstæðasti frá upphafi. Þá er undirliggjandi staða þjóðarbúsins talsvert skárri en fyrri tölur bentu til, og skrifast það bæði á endurskoðun eldri talna og jákvæða þróun milli ársfjórðunga. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins.

... hvort sem áhrif innlánsstofnana eru meðtalin eða ei

Viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð mældist hagstæður um 62,5 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi. Sé hlutur innlánsstofnana meðtalinn í þáttatekjum, sem voru í raun með minni halla nú en oft áður, nemur afgangur af viðskiptajöfnuði 53,9 mö.kr. Eins og áður segir er hér um langmesta afgang að ræða af viðskiptajöfnuði frá upphafi, eða í a.m.k. rúma tvo áratugi sem er eins langt aftur og tölur Seðlabankans ná. Á þetta við hvort sem áhrif innlánsstofnana í slitameðferð eru meðtalin eða ei.

Þjónustujöfnuður aldrei hagstæðari

Þann mikla afgang sem varð á viðskiptajöfnuði á þriðja ársfjórðungi má fyrst og fremst  þakka árstíðarbundnum toppi í þjónustujöfnuði, en einnig varð góður afgangur af vöruskiptum og hallinn af þáttatekjum minni en oft áður. Eins og við fjölluðum um í Morgunkorni okkar sl. föstudag hljóðaði afgangurinn af þjónustujöfnuði á fjórðungnum upp á 46,0 ma.kr., og er það langmesti afgangur sem þjónustuviðskipti hafa skilað nokkru sinni á einum ársfjórðungi. Afgangurinn af vöruskiptajöfnuði á fjórðungnum var 21,0 ma.kr., sem var þó aðeins minni afgangur en á sama tímabili í fyrra. Var um mesta afgang af samanlögðum vöru- og þjónustuviðskiptum að ræða frá upphafi, alls 67,0 ma.kr. Halli af þáttatekjum og framlögum nettó, án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð, hljóðaði upp á 4,6 ma.kr. en hann hefur ekki verið minni síðan fyrir hrun.

Viðsnúningur frá því sem áður var

nullSé litið á fyrstu þrjá fjórðunga ársins er undirliggjandi afgangur kominn upp í 82,2 ma.kr., sem jafngildir um 4,7% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF). Hefur viðskiptajöfnuður aldrei áður mælst hagstæðari á þessu tímabili. Í fyrra nam undirliggjandi afgangur af viðskiptajöfnuði 18,7 mö.kr. á undangreindu tímabili, árið þar á undan 12,4 mö.kr. en fyrir þann tíma var hann nánast ávallt í halla. Á síðustu árum hefur jafnan einhver halli mælst á undirliggjandi jöfnuði á fjórða ársfjórðungi, og má ætla að slíkt verði raunin nú í ár.  Miðað við þróunina það sem af er ári bendir þó allt til þess að afgangurinn verði talsvert meiri en við höfðum reiknað með í þjóðhagsspá frá því í októberbyrjun (2,2% af VLF).

Erlend staða þjóðarbúsins batnar

Samkvæmt tölum Seðlabankans er undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins nú metin neikvæð um 56% af VLF. Það er talsverð breyting til batnaðar frá fyrri fjórðungi þegar hún var metin neikvæð um 65% af VLF. Seðlabankinn tínir til þrjár meginskýringar sem liggja þar að baki:
• Erlendar eignir hafa aukist og erlendar skuldir minnkað í beinni fjárfestingu. Hrein áhrif af því eru jákvæð um tæplega 7% af VLF.
• Erlendar eignir innlendra aðila, aðrar en bein fjárfesting, jukust um 3% af VLF, aðallega vegna verðhækkunar á erlendum verðbréfamörkuðum.
• Innlendir aðilar greiddu niður erlendar skuldir á fjórðungnum, og minnkuðu bæði viðskiptaskuldir og langrímaskuldir um samtals nálægt 2% af VLF.
Á móti ofangreindum þáttum eru áhrif af slitum innlánsstofnana í slitameðferð nú talin verða neikvæð um 46% af VLF í stað 43% af VLF vegna virðishækkunar á innlendum eignum í bókum búanna.

Heilt yfir jákvæðar tölur

Þessar tölur Seðlabankans eru heilt yfir jákvæðar. Mikill viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi skýrir m.a. hversu krónan hefur verið stöðug í haust. Hrein neikvæð staða upp á 56% af VLF er nokkuð há í alþjóðlegum samanburði, en þó ekki af þeirri stærðargráðu að greiðslujöfnuði stafi fortakslaust veruleg hætta af. Er gjarnan talað um 60% af VLF sem þumalputtareglu fyrir efri mörk sjálfbærrar skuldastöðu við útlönd, en það veltur þó á vaxtastigi, arðsemi fjárfestinga milli landa og fleiri þáttum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall