Fréttir Greiningar

Verðlækkun útflutningsvara skýrir minni vöruskiptaafgang

08.01.2014 12:06

nullVöruskiptaafgangur á nýliðnu ári var u.þ.b. 10% minni en árið 2012. Ástæðan er fyrst og fremst óhagstæð þróun viðskiptakjara, sér í lagi verðlækkun á helstu útflutningsafurðum landsins á milli ára. Hefur sú þróun vegið þyngra en hagstæð innbyrðis þróun í magni, þar sem vöruútflutningur jókst líklega nokkuð í magni mælt á meðan innflutningur dróst lítillega saman.

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu var afgangur af vöruskiptum 4,8 ma.kr. í desember síðastliðnum. Er það í minna lagi miðað við mánuðina á undan. Bæði vöruútflutningur og –innflutningur var með minna móti. Útflutningur var 43,6 ma.kr samkvæmt tölunum, og hefur hann ekki verið minni frá maí síðastliðnum. Skýringin liggur að stærstum hluta í óvenju rýrum útflutningi sjávarafurða, en annar útflutningur var einnig með minna móti. Engin ein skýring er á litlum vöruinnflutningi í mánuðinum, og virðist sem rekja megi hann til flestra helstu undirliða.

Tæplega 70 ma.kr. afgangur í fyrra

nullAfgangur af vöruskiptajöfnuði var 69,6 ma.kr. á síðasta ári ef miðað er við bráðabirgðatölur fyrir desember. Árið 2012 var afgangurinn hins vegar 77,3 ma.kr., og minnkaði hann því um 7,7 ma.kr. á milli ára. Ekki liggur enn fyrir sundurliðun á þróun verðs og magns fyrir desembermánuð, en af tölum Hagstofunnar fyrir fyrstu 11 mánuði nýliðins árs má ráða að ástæða þessa munar sé óhagstæð verðþróun á útflutningsafurðum.

Þannig jókst vöruútflutningur á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs um 1,7% í magni mælt frá árinu 2012, en verð í krónum talið lækkaði að jafnaði um 5,6% á sama tíma. Á innflutningshliðinni varð 1,2% samdráttur í magni á þessu tímabili, en verð lækkaði að jafnaði um 1,7%. Til samanburðar má nefna að gengisvísitala íslensku krónunnar var að jafnaði tæplega 1% lægri á þessu tímabili í fyrra en árið 2012. Sé miðað við hana má gróflega áætla að innflutningsverðlag hafi lækkað innan við 1% en verð á útflutningsafurðum hins vegar lækkað um 4-5% á milli ára, mælt í erlendum gjaldmiðlum.

Horfur svipaðar fyrir nýbyrjað ár

Horfur eru á að vöruskiptaafgangur geti orðið a.m.k. svipaður á þessu ári og raunin var í fyrra. Aukinn kvóti í þorski og ýmsum öðrum botnfiskafurðum mun væntanlega skila töluvert auknu magni í útflutningi sjávarafurða. Þá teljum við góðar líkur á að verð bæði sjávarafurða og áls rétti úr kútnum eftir óhagstæða þróun á síðasta ári. Á móti vegur svo að innflutningur neyslu- og fjárfestingarvara mun væntanlega aukast töluvert á milli ára í samræmi við vöxt í innlendri eftirspurn. Vöruskiptaafgangurinn á nýliðnu ári nam tæplega 4% af vergri landsframleiðslu (VLF). Að gefnu því mati okkar að hlutfallið verði 4% - 5% á yfirstandandi ári gæti afgangurinn numið á bilinu 75 – 90 mö.kr.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall