Fréttir Greiningar

Væntingar um hærri vexti á næstunni en hóflega verðbólgu til lengri tíma

06.11.2018 12:59

Almennt virðist vera búist við hækkun stýrivaxta á komandi fjórðungum. Langtíma verðbólguvæntingar virðast þó enn vera í þokkalegu samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans en verulega hefur dregið í sundur með væntingunum og verðbólguálagi á markaði upp á síðkastið. Á hinn bóginn telja allmargir á fjármálamarkaði að peningalegt aðhald bankans sé nú of slakt og vextir muni því hækka. 

Seðlabankinn birti í gær niðurstöður úr könnun á væntingum aðila á fjármálamarkaði. Bankinn hefur gert slíka könnun frá árinu 2012 og eru niðurstöður hennar innlegg í mat peningastefnunefndar á hæfilegu aðhaldi peningastefnunnar þegar vaxtaákvörðun er undirbúin. Peningastefnunefndin hefur undanfarið horft mjög til þess hvernig langtíma verðbólguvæntingar eru að þróast, enda endurspegla þær þann trúverðugleika sem Seðlabankinn hefur varðandi getu sína til að halda verðbólgu við 2,5% markmið sitt til lengri tíma litið.

Skemmst er frá því að segja að bankinn getur allvel unað við niðurstöður nýju könnunarinnar. Skammtíma verðbólguvæntingar hafa vissulega hækkað talsvert. Þannig búast svarendur að jafnaði við því að verðbólga verði 3,6% bæði að 12 mánuðum og 24 mánuðum liðnum. Hækka þær mælingar um 0,6 prósentur frá síðustu könnun sem gerð var í ágúst síðastliðnum. Hins vegar mælast fremur litlar breytingar á langtíma verðbólguvæntingum milli kannana. Sé tekið mið af miðgildi svara búast markaðsaðilar við 3,0% verðbólgu að jafnaði næstu 5 ár, og 2,9% verðbólgu að jafnaði næstu 10 ár. Með hliðsjón af fyrrnefndum væntingum til næstu tveggja ára má draga þá ályktun að svarendur búist að jafnaði við u.þ.b. 2,6% verðbólgu á árin 2021-2023 og 2,8% verðbólgu árin 2024-2028.

Verulegur munur á verðbólguálagi og væntingum um verðbólgu

Auk beinna kannana á verðbólguvæntingum gefur þróun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði allsterka vísbendingu um mat markaðsaðila á líklegri verðbólguþróun. Fleira hefur þó áhrif á verðbólguálagið. Óvissa um raunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa ætti alla jafna að endurspeglast í álagi á kröfu þeirra umfram samanlagða raunávöxtun verðtryggðra bréfa og verðbólguvæntingar. Auk þess geta markaðsaðstæður haft áhrif á innbyrðis ávöxtunarkröfu verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa. 

Við teljum að báðir þessir þættir hafi orðið til þess að ýta upp verðbólguálaginu undanfarið. Sér í lagi virðist misvægi milli framboðs og eftirspurnar mismunandi ríkisbréfa hafa ýtt upp verðbólguálaginu frá miðju ári. Þar vegur að mati okkar þungt að þeir fjárfestar sem umsvifamestir eru í langtímafjárfestingum á Íslandi, lífeyrissjóðirnir, hafa einkum horft til þess að ávaxta sitt pund í útlánum til einstaklinga og erlendum gjaldeyriseignum á meðan kollegum þeirra erlendis hefur verið gert torvelt að fjárfesta í innlendum skuldabréfum með s.k. fjárstreymistæki Seðlabankans.

Eins og sést á myndinni munar nú u.þ.b. 1,2 prósentum á 5 ára verðbólguálagi á markaði miðað við kröfu ríkisbréfa og verðbólguvæntingum markaðsaðila til 5 ára. Hefur bilið ekki verið svo breitt frá því væntingakönnun Seðlabankans var hleypt af stokkunum árið 2012.

Vænta hærri stýrivaxta

Hins vegar gera markaðsaðilar ráð fyrir að Seðlabankinn þurfi að bregðast vil versnandi skammtíma verðbólguhorfum og vinna markvisst að því að draga úr verðbólguþrýstingi á komandi fjórðungum, ef marka má svör þeirra við könnuninni. 4 af hverjum 10 svarendum telja þannig að taumhald peningastefnunnar sé of laust um þessar mundir, en í ágúst var enginn þeirrar skoðunar.

Þá gera markaðsaðilar að jafnaði ráð fyrir í því að stýrivextir muni hækka fyrir árslok og verða 0,75 prósentum hærri að ári liðnu en þeir eru nú. Er það viðsnúningur frá síðustu könnunum, þar sem almennt hefur verið búist við óbreyttum stýrivöxtum fram eftir árinu 2019. Það kemur svo í ljós í fyrramálið hvort peningastefnunefndin ákveður að hækka vexti eður ei. Við spáum óbreyttum vöxtum að sinni, en talsverðar líkur eru þó á vaxtahækkun. Niðurstöður könnunarinnar nýju gefa nokkuð misvísandi niðurstöður um í hvorn fótinn peningastefnunefndin ætti að stíga nú, en ljóst er að verkefni hennar er talsvert snúið um þessar mundir.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall