Fréttir Greiningar

Lækkun íbúðaverðs heldur aftur af verðbólgu í desember

21.12.2017 11:32

Veruleg lækkun íbúðaverðs milli mánaða eru stærstu tíðindin í nýbirtri desembermælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs. Verðbólga hefur verið innan við 2,0% allt árið 2017. Horfur eru á að Seðlabankinn geti haldið upp á 4ja ára afmæli verðbólgu undir verðbólgumarkmiði í febrúar næstkomandi.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,27% í desember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 1,9% en var 1,7% í nóvember. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,62% í desember og m.v. þá vísitölu mælist 1,6% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Það dregur því töluvert saman með verðbólgumælikvörðunum með eða án húsnæðis.

Mæling desembermánaðar er í samræmi við birtar spár.  Við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,2% – 0,5% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að mestu leyti í verulegri og óvæntri lækkun reiknaðrar húsaleigu, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu. Einnig hækkaði ferða- og flutningaliður VNV talsvert minna en við spáðum.

Breyttur taktur á íbúðamarkaði

Stóru tíðindin í desembermælingunni eru að okkar mati 1,1% lækkun á reiknaðri húsaleigu milli mánaða (-0,22% áhrif í VNV). Liðurinn, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, hefur ekki lækkað svo mikið milli mánaða síðan í október árið 2012. Þessi niðurstaða er enn merkilegri þegar haft er í huga að mæling Hagstofu endurspeglar þriggja mánaða hlaupandi meðaltal íbúðaverðs með eins mánaðar töf. Þannig byggir desembermælingin á þinglýstum kaupsamningum í september, október og nóvember. Sú aðferðafræði ætti að draga úr mánaðasveiflum að öðru óbreyttum.

 

Lækkun vísitölu íbúðaverðs skv. Hagstofunni var mest á landsbyggðinni (-3,2%), en einnig lækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæði um 1,3%. Hins vegar hækkaði verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæði um 1,2% milli mánaða í tölum Hagstofunnar. 

Nú liggur fyrir að hækkun íbúðaverðs á landinu öllu nam 15% yfir árið 2017 miðað við tölur Hagstofunnar. Hækkunin var mest á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu, tæp 19%. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um ríflega 14% en íbúðaverð á landsbyggðinni um 15%. Verulega hefur dregið úr 12 mánaða hækkunartaktinum frá miðju ári, en hann náði hámarki í 24% m.v. landið allt í júlí síðastliðnum.

Á móti lækkun reiknaðrar húsaleigu vó að greidd húsaleiga hækkaði um 1,0% í desember (0,06% í VNV). Þá hafði hækkun á viðhaldslið og veitugjöldum áhrif til 0,01% hækkunar hvor liður.

Ferðakostaður eykst í desember

 Ferðir og flutningar voru sá undirliður sem hafði mest áhrif til hækkunar VNV í desember (0,21% áhrif í VNV). Þar vó þyngst að flugfargjöld til útlanda hækkuðu um tæpan fjórðung (0,22% í VNV) eftir fimmtungs lækkun í nóvember. Einnig hafði hækkandi eldsneytisverð áhrif til 0,01% hækkunar, og hækkun á flugfargjöldum innanlands sömuleiðis 0,01% hækkunaráhrif. Á móti lækkaði verð á nýjum bílum um 0,25% (-0,02% í VNV) og verð á varahlutum um ríflega hálft prósent (-0,01% í VNV).

Þá hækkaði matur og drykkur í verði um 0,4% milli mánaða (0,06% í VNV), og var sú hækkun á tiltölulega breiðum grunni. Einnig hækkaði verð á fötum og skóm um 1,6% (0,05% í VNV) eftir talsverða lækkun í nóvember. Enn fremur hækkaði verð á símaþjónustu um 1,4% milli mánaða (0,03% í VNV), en sá liður hefur lækkað linnulítið undanfarin tvö ár. Loks má nefna að heimilisbúnaður hækkaði í verði um hálfa prósentu (0,01% í VNV).

Fjögur ár af verðbólgu undir verðbólgumarkmiði?

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni heldur aukast næstu mánuðina samkvæmt bráðabirgðaspá okkar. Við spáum 0,4% lækkun VNV í janúar, 0,7% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun VNV í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,4% í mars 2018. Gangi það eftir getur Seðlabankinn haldið upp á 4 ára afmæli verðbólgu samfellt undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans á fyrsta fjórðungi komandi árs.

Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,16% í mánuði hverjum að jafnaði. Í ljósi nýjustu mælinga á þróun íbúðaverðs þurfum við þó hugsanlega að endurskoða þessa forsendu til lækkunar. Í janúar munu að vanda togast á árviss áhrif af hækkun opinberra krónutölugjalda og ýmissa verðskráa annars vegar, og lækkunaráhrif af útsölum hins vegar. Einnig mun hækkun flugfargjalda ganga að verulegu leyti til baka í janúar skv. spá okkar. Útsölulok munu svo að vanda setja svip sinn á mælingu febrúar og mars.  

Í ljósi þess hversu breyttir vindar virðast blása um íbúðamarkað þessa dagana miðað við fyrri árshelming er óvissan í bráðabirgðaspánni til lækkunar að mati okkar. Verðbólga gæti því reynst hóflegri á fyrsta fjórðungi nýs árs en spáin gefur til kynna. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall