Fréttir Greiningar

Ferðaþjónustutekjur bæta upp rýrari vöruskiptaafgang

03.04.2014 12:20

nullAfgangur af vöruskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi var innan við helmingur þess sem hann var í fyrra. Á sama tíma lítur út fyrir að góður afgangur hafi verið á þjónustujöfnuði vegna mikillar fjölgunar ferðamanna á milli ára. Gjaldeyrisinnflæðið sem styrkt hefur krónuna um tæp 2% frá áramótum má því að miklu leyti þakka miklum vexti í ferðaþjónustunni, en við væntum þess að vöruskiptin reynist hagstæðari þegar líður á árið.

Lítill vöruskiptaafgangur á 1. ársfjórðungi

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var 1,1 ma.kr. afgangur af vöruskiptum við útlönd í mars síðastliðnum. Er það minnsti vöruskiptaafangur frá því í maí í fyrra. Mikill innflutningur skýrir niðurstöðuna að stórum hluta, en einnig var útflutningur í hóflegri kantinum. Á innflutningshliðinni teljum við að um mánaðarsveiflu sé að ræða að hluta sem líkleg er til að ganga til baka í næsta mánuði. Léleg loðnuvertíð og óhagstæð verðþróun erlendis hefur svo haft neikvæð áhrif á útflutning í mars.

Á fyrsta fjórðungi ársins nam afgangur af vöruskiptum 12,3 mö.kr. Á sama tíma í fyrra var afgangurinn hins vegar 26,6 ma.kr., þ.e. ríflega tvöfalt meiri. Sú þróun er áhyggjuefni, og skýrist m.a. af því að loðnuvertíðin í ár skilaði einungis um þriðjungi af afurðum vertíðarinnar í fyrra, álverð hefur lækkað um 14% á milli ára og auknum innflutningi vegna vaxtar í innlendri eftirspurn. Hins vegar teljum við að meiri afgangur verði að jafnaði af vöruskiptum það sem eftir er ársins. Vöruskiptajöfnuðurinn getur sveiflast talsvert frá einum tíma til annars, og er skemmst að minnast þess að í fyrra var 1,5 ma.kr. halli á vöruskiptum á 2. ársfjórðungi, en á 3. ársfjórðungi var afgangurinn hins vegar 20,4 ma.kr. og á 4. ársfjórðungi var hann 23,9 ma.kr.

Ferðaþjónustan skilar meiri gjaldeyristekjum

nullÁ móti rýrum afgangi af vöruskiptum vegur svo að sterkar vísbendingar eru um að þjónustuútflutningur sé að vaxa hratt, og að gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustu hafi aukist mikið á fyrsta ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra þrátt fyrir aukningu á ferðum Íslendinga erlendis. Nýbirtar tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir um Keflavíkurflugvöll (KEF) sýna að erlendum ferðamönnum hingað til lands fjölgaði um ríflega 35% í mars frá síðasta ári. Á 1. ársfjórðungi nam fjölgunin á milli ára einnig rúmum 35%. Á sama tíma stóðu brottfarir Íslendinga um KEF í stað milli ára, en þar þarf þó að hafa í huga að brottfarir í páskaferðir féllu inn á þetta tímabil í fyrra, en koma fram í apríltölum þetta árið. Við þetta má bæta að kortaveltutölur fyrir janúar og febrúar sýna að velta vegna erlendra ferðamanna jókst á því tímabili um 28% frá árinu áður, og að afgangur var af kortaveltujöfnuði á þessu tímabili í fyrsta sinn svo langt aftur sem tölur Seðlabankans ná.

Ágætar horfur fyrir gjaldeyrisinnflæði á næstunni

Það virðist því ljóst að hagstæð þróun þjónustujafnaðar hefur átt drjúgan þátt í því hversu hagfelld gengisþróun krónu hefur verið þennan veturinn miðað við undanfarin ár. Þar hefur raunar einnig komið til minna gjaldeyrisútflæði vegna afborgana af erlendum lánum, en á móti hafa vöruskiptin skilað mun minni gjaldeyri inn í þjóðarbúið en á síðasta ári. Ef vöruskiptaafgangur glæðist með vorinu, líkt og við teljum góðar líkur á, og vöxtur ferðaþjónustunnar heldur áfram af krafti, má búast við því að utanríkisviðskipti skili ágætu gjaldeyrisinnflæði á komandi mánuðum. Að öðru óbreyttu gætu því verið skilyrði fyrir frekari styrkingu krónu fram undir haustið, en það veltur þó einnig á gjaldeyriskaupum Seðlabankans sem og hvort kaup vegna komandi gjalddaga af erlendum lánum færast í aukana.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall