Fréttir Greiningar

Myndarlegur afgangur af vöruskiptum í nóvember

06.12.2013 07:34

nullAfgangur af vöruskiptum við útlönd í nóvember síðastliðnum hljóðaði upp á 12,3 ma.kr. samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands sem birtar voru í gær. Alls voru fluttar út vörur fyrir 55,2 ma.kr. í mánuðinum á sama tíma og innflutningur nam 43,0 mö.kr. Þetta er talsvert meiri afgangur en sá 9,5 ma.kr. afgangur sem var af vöruskiptum í nóvember í fyrra, og í raun mesti afgangur síðan í október í fyrra.

Rýr innflutningur en myndarlegur útflutningur

Bæði rýr innflutningur og mikill útflutningur skýra myndarlegan afgang af vöruskiptum nú í nóvember. Var innflutningur um 2,8 mö.kr. minni í nóvember sl. en hann hefur að jafnaði verið á árinu, og má það einna helst rekja til þess að innflutningur flutningatækja sem og fjárfestingatækja var með minna móti í mánuðinum. Í raun hefur innflutningur flutningatækja ekki verið minni síðan í október árið 2011, og rímar það við nýlegan fréttaflutning um mikinn samdrátt í nýskráningum bifreiða í nóvember sl.

Útflutningur sjávarafurða nam 26,3 mö.kr., sem er með meira móti, og 3,2 mö.kr. meira en verðmæti þeirra nam í nóvember í fyrra. Útflutningsverðmæti iðnaðarvara nam 26,2 mö.kr. sem er í takti við það sem það hefur að jafnaði verið á árinu, en þó 2,8 mö.kr. minna en útflutningsverðmæti þeirra nam á sama tíma í fyrra.

Myndarlegur afgangur hjálpar krónu

nullÞað sem af er ári nemur vöruskiptaafgangur 63,5 mö.kr., en sé leiðrétt fyrir skipum og flugvélum og litið til undirliggjandi jafnaðar nemur afgangurinn 67,6 mö.kr. Sambærilegar tölur fyrir síðasta ár eru 73,6 ma.kr. og 98,3 ma.kr. Útlit er fyrir að vöruskiptaafgangurinn verði í kring um 70 ma.kr. í ár, sem jafngildir tæplega 4,0% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var vöruskiptaafgangur 77,3 ma.kr. í fyrra, eða sem nemur um 4,6% af VLF. Undirliggjandi vöruskiptajöfnuður var þó heldur hagstæðari í fyrra, eða 102,9 ma.kr. sem nemur um 6,1% af VLF.

Þessi myndarlegi afgangur á eflaust sinn þátt í því hversu vel krónan hefur haldið sjó síðustu vikur. Gengi krónunnar styrktist um 1,0% gagnvart evru og 1,4% gagnvart Bandaríkjadollar í nóvember. Dollarinn kostar nú 118,5kr. á millibankamarkaði og hefur ekki verið ódýrari síðan um miðjan ágúst sl. Evran stendur í 161,9 kr. og hefur ekki verið ódýrari síðan um miðjan september.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall