Fréttir Greiningar

Mesta fjölgun ferðamanna á árinu

08.10.2015 09:50

Svo mikil fjölgun hefur orðið á erlendum ferðamönnum hér á landi síðustu ár að nýliðinn septembermánuður er orðinn stærri en stærsti mánuður ársins (ágúst) var árið 2012. Þetta má sjá í tölum sem Ferðamálastofa Íslands birti í gær um brottfarir um Keflavíkurflugvöll (KEF) í september sl. Samkvæmt þeim fóru 123 þús. erlendir ferðamenn frá landinu um KEF í mánuðinum, og er hér augljóslega um langfjölmennasta septembermánuð frá upphafi að ræða í fjölda ferðamanna. Eru brottfarir erlendra ferðamanna ríflega 39% fleiri en þær voru í september í fyrra, og er þetta mesta fjölgun á milli ára síðan í janúar í fyrra.
 

Meira en milljón

Fleiri erlendir ferðamenn hafa farið frá landinu um KEF á fyrstu 9 mánuðum ársins en gerðu á öllu árinu í fyrra, og raunar öll ár þar á undan. Er fjöldi ferðamanna nú komin yfir 1 milljón, eða í 1.010 þús., samanborið við 788 þús. á sama tímabili í fyrra. Jafngildir þetta fjölgun upp á rúm 28% milli ára, eða sem nemur 222 þús. ferðamönnum. Verði þróunin á síðustu þremur mánuðum ársins áþekk því sem og hún hefur að jafnaði verið á árinu mun fjöldi erlendra ferðamanna sem fara um KEF verða 1.240-1.250 þús. á árinu í heild. 

Aldrei fleiri Íslendingar verið erlendis í september

Líkt og við mátti búast þá var mikil fjölgun á brottförum Íslendinga um KEF í september, og í raun hafa aldrei fleiri Íslendingar farið til útlanda í septembermánuði og nú. Líklega hefur leikurinn Holland-Ísland komið hér við sögu, en skv. fréttamiðlum voru rúmlega 3 þús. Íslendingar á leiknum, og hafa aldrei fleiri landsmenn fylgt íslensku liði á útivöll. Þó náði fjölgun á brottförum Íslendinga ekki nærri sömu hæðum og hjá erlendum ferðamönnum, en alls fóru um 43,9 þús. Íslendingar til útlanda í septembermánuði sem er fjölgun upp á rúm 17% milli ára, eða sem nemur 6,4 þús. Íslendingum. Þessi þróun er í takti við aðrar hagstærðir sem gefa tóninn varðandi þróun einkaneyslu þessa dagana, en þær benda til þess að neysla landsmanna sé á talsverðri siglingu um þessar mundir. 

Ekki fleiri Íslendingar farið til útlanda síðan 2008

Brottfarir Íslendinga eru komnar upp í tæp 337 þús. á fyrstu 9 mánuðum ársins, sem er um 13% fjölgun milli ára. Hafa ekki fleiri Íslendingar haldið út fyrir landsteinanna síðan árið 2008, og í raun hefur þessi fjöldi aðeins tvívegis áður verið meiri, þ.e. 2007 og 2008. Þó ber hér eðlilega að taka tillit til að Íslendingum fjölgar ár frá ári, og sé það tekið með í reikninginn þá leyfðu hlutfallslega fleiri Íslendingar sé þann munað að fara til útlanda á árunum 2005-2008 en hafa gert á yfirstandandi ári, en við nálgumst þó óðum árið 2005 í því sambandi.  

Metafgangur af þjónustujöfnuði í uppsiglingu? 

Nokkuð ljóst er að ofangreind þróun á mikinn þátt í því mikla gjaldeyrisinnflæði sem verið hefur að undanförnu, og hefur gert Seðlabankanum kleift að bæta myndarlega við gjaldeyrisforða sinn á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst. Ofangreindar tölur gefa einnig til kynna að metafgangur af þjónustujöfnuði sé í uppsiglingu á 3. ársfjórðungi. Á þeim fjórðungi var ferðamannajöfnuður, þ.e. brottfarir erlendra gesta umfram Íslendinga,  jákvæður um 365 þús. í ár samanborið við 272 þús. á sama tímabili í fyrra. Á 3. ársfjórðungi í fyrra var 78 ma. kr. afgangur af þjónustujöfnuði, sem er mesti afgangur sem mælst hefur á þeim jöfnuði frá upphafi. Við spáum því að það met verði auðveldlega slegið í ár, og verði samband þessara tveggja stærða í línu við það sem það hefur verið á síðustu árum má reikna með að afgangurinn verði nokkuð yfir 100 mö. kr. á 3. ársfjórðungi í ár. Hvort sú spá sé nærri lagi kemur í ljós þann 1. desember nk. þegar tölur um þjónustujöfnuð á 3. ársfjórðungi líta dagsins ljós, en í öllu falli er ljóst að afgangur af þjónustujöfnuði mun eiga stærstan þátt í þeim myndarlega viðskiptaafgangi sem útlit er fyrir á árinu 2015 í heild.
 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall