Fréttir Greiningar

Spáum 0,2% hækkun neysluverðs í ágúst

12.08.2016 10:10

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í ágúst frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir hjaðnar 12 mánaða taktur verðbólgunnar úr 1,1% í 0,8%. Verðbólgan fer því niður fyrir 1,0% neðri þolmörk Seðlabankans samkvæmt spánni. 

Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa batnað nokkuð frá síðustu spá okkar. Er nú útlit fyrir að verðbólga haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans fram í árslok 2017. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast hratt og fara yfir 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs bankans á seinni hluta ársins 2018. Hagstofan birtir ágústmælingu VNV kl. 9:00 þann 26. ágúst næstkomandi.

Útsölulok og húsnæði til hækkunar

Útsölulok setja ávallt mark sitt á VNV-mælingu ágústmánaðar og teljum við einnig svo verða að þessu sinni. Á heildina litið teljum við þó að þeir vöruflokkar sem þyngst vega í útsölum lækki í verði á 3. ársfjórðungi þegar útsöluáhrif eru um garð gengin, enda um innfluttar vörur að ræða. Við áætlum að föt og skór hækki í verði um 5,0% (0,19% áhrif í VNV), en að í heild vegi útsölulok til um 0,25% hækkunar VNV í ágúst þegar með eru tekin útsölulok í öðrum flokkum. 

Að útsöluáhrifum slepptum vegur húsnæðisliður VNV mest til hækkunar hennar (0,16%). Er það að stærstum hluta vegna 1,0% hækkunar á reiknaðri húsaleigu (0,15% í VNV), en könnun okkar bendir til þess að hækkun íbúðaverðs reynist talsverð í VNV-mælingunni nú. Loks eru horfur á að verðhækkun á þjónustu veitingahúsa vegi til 0,04% hækkunar VNV, enda ferðamannatíminn í algleymingi og kostnaðarþrýstingur vegna launahækkana talsverður í þeim geira. Auk þess vegur liðurinn menntun til 0,03% hækkunar eins og gjarnarn er í ágústmánuði vegna hækkunar skólagjalda í HR. 

Á móti þessum hækkunarliðum vega bein og óbein áhrif af styrkingu krónu undanfarið talsvert til lækkunar VNV í ágúst. Sterkust eru þau áhrif í ferða- og flutningalið vísitölunnar (-0,34% í VNV), þar sem árstíðabundnir þættir og erlend verðþróun leggjast á sömu sveif og gengisáhrifin. Má þar nefna 4,8% lækkun á eldsneytisverði (-0,18% í VNV), umtalsverða lækkun á flugfargjöldum (-0,13% í VNV), og verðlækkun á bifreiðum (-0,07% í VNV). Ýmsir aðrir innfluttir undirliðir VNV lækka einnig í spá okkar frá fyrri mánuði, og vega gegn hækkun ýmissa innlendra þjónustuliða sem og verðhækkun á innlendri framleiðslu. Gott dæmi um þetta er matvöruliðurinn, þar sem vegast á verðhækkun á innlendum vörum á borð við kjöt, fisk og grænmeti annars vegar, og verðlækkun á innfluttum matvælum hins vegar. Í heild vegur því matar- og drykkjarliðurinn einungis til 0,02% hækkunar VNV að þessu sinni.

Hófleg verðbólga næstu mánuði

Útlit er fyrir hóflega verðbólgu næstu mánuði, ekki síst vegna áframhaldandi áhrifa af styrkingu krónu. Við spáum óbreyttri VNV í september, 0,1% hækkun VNV í október en 0,1% lækkun í nóvember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,5% í nóvember. 

Eins og fyrri daginn hefur húsnæðisliðurinn hvað mestu hækkunaráhrifin í heildina litið næstu mánuðina, eða rúmlega 0,12% áhrif á VNV í mánuði hverjum að jafnaði. Í september koma menntun, tómstundir og afþreying sem og útsölulok að vanda til hækkunar, auk þess sem við reiknum með hækkun á húsnæðislið VNV, en á móti koma flugfargjöld til lækkunar. Í október hefur hækkun húsnæðisliðar mest að segja, en í nóvember vega lækkun flugfargjalda og lægra matarverð þyngra en húsnæðisverðhækkunin í spá okkar.  

Verðbólga undir markmiði út árið 2017

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir á nýjan leik. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,6% á árinu 2017, og að í lok næsta árs mælist hún 2,2%. Í kjölfarið teljum við hins vegar að verðbólga muni aukast hratt, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í upphafi ársins 2018 og rjúfa efri þolmörk markmiðsins, sem eru 4,0%, á 3. fjórðungi þess árs. Verðbólga rauf þau mörk síðast í árslok 2013.

Gengi krónu ræður mestu um þá verðbólguþróun sem hér er spáð til meðallangs tíma. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi styrkingu krónu fram á 3. ársfjórðung 2017, og að styrkingin nemi u.þ.b. 5% frá núverandi gildum. Í kjölfarið teljum við hins vegar að gengi krónu taki að lækka á nýjan leik, enda raungengið þá orðið nokkuð hátt, farið að hægja á hagvexti og spennunni í hagkerfinu og tekið að draga úr gjaldeyrisinnflæði vegna viðskiptaafgangs. Veikingu krónu fylgir aukin verðbólga, en það mildar þó höggið að útlit er fyrir hægari hækkun á launakostnaði og íbúðaverði á seinni hluta spátímans.

Verðbólguspá ágúst 2016

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall