Fréttir Greiningar

Bjartsýni landsmanna eykst talsvert í mars

31.03.2015 11:47

Brún landsmanna léttist verulega í marsmánuði þrátt fyrir linnulítið illviðri og aukna óvissu á vinnumarkaði, ef marka má mánaðarlega könnun Capacent Gallup á væntingum landsmanna.  Væntingavísitala Gallup (VVG) hækkar um 9,8 stig á milli febrúar og mars sl., og mælist hún nú 101,3 stig. Fer hún þar með yfir 100 stigin sem markar jafnvægi á milli bjartsýni og svartsýni neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, en slíkt hefur atvikast aðeins þrisvar sinnum áður frá því snemma árs 2008. VVG fór síðast yfir 100 stig í júní í fyrra en þar á undan hafði það gerst þegar áhrifa alþingiskosninga gætti á vísitöluna í maí og júní 2013. 

Hafa ekki verið sáttari við stöðuna í 7 ár

Allar undirvísitölur VVG hækka á milli mælinga í febrúar og mars. Að þessu hækkar mat neytenda á núverandi ástandi mest (11,4 stig) og fer sú vísitala í sitt hæsta gildi í tæp 7 ár, eða frá því í maí 2008. Þó er ljóst að Íslendingar vænta enn þess að ástandið í efnahags og atvinnumálum þjóðarinnar muni batna frá núverandi ástandi, líkt og raunin hefur verið síðustu 7 ár. Þannig er vísitalan sem mælir væntingar neytenda til ástandsins eftir 6 mánuði 120 stig og hækkar um tæp 8,7 stig frá fyrri mánuði. Þessi var öfugt farið frá miðju ári 2004 til mars 2008, en þá var gildi vísitölunnar sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi ávallt hærra en þeirrar sem mælir mat á væntingum til 6 mánaða. Töldu neytendur þá núverandi ástand svo gott að það myndi varla batna upp frá þessu, andstætt við stöðuna nú. 

Aukin neysluútgjöld í farvatninu

Ef marka má ársfjórðungslega stórkaupavísitölu Gallup, sem birt var samhliða væntingavísitölunni, hyggja fleiri landsmenn nú á meiriháttar neysluútgjöld á komandi mánuðum en raunin hefur verið frá því fjármálakreppan skall á haustið 2008. Stórkaupavísitalan hækkar um 5 stig frá síðustu mælingu í desember sl. og fer í sitt hæsta gildi í 7 ár. Stórkaupavísitalan vegur saman fyrirhuguð kaup á bifreiðum, húsnæði og utanlandsferðum, og hækka allir þessir liðir talsvert að þessu sinni.

Vísitala fyrir fyrirhuguð bifreiðakaup hækkar um rúm sjö stig frá desembermælingunni, en töluvert flökt hefur undanfarið verið í mælingum á þeirri undirvísitölu. Alls töldu tæplega 16% svarenda líklegt að þeir myndu festa kaup á bifreið á næstu 6 mánuðum. Þetta rímar við nýlegar tölur um nýskráningu fólksbíla, en samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu jókst sala á nýjum bílum um 27% á fyrstu tveimur mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

Þá hækkar vísitala fyrirhugaðra húsnæðiskaupa um tæp 2 stig milli mælinga. Mælist sú vísitala 0,3 stigum hærri en á sama tíma í fyrra, og fer þar með í sitt hæsta gildi frá því í mars 2008. Mælist hún nú 9,2 stig, sem er þó enn aðeins undir því sem hún hefur að jafnaði mælst undanfarin 13 ár. Telja ríflega 5% svarenda líklegt að þeir muni ráðast í húsnæðiskaup næsta hálfa árið. Þessi undirvísitala hefur sveiflast nokkuð upp á síðkastið líkt og bifreiðavísitalan, en undirliggjandi virðist vera nokkuð skýr leitni til hækkunar undanfarin 4 ár eða svo. Ætti það ekki að koma á óvart í ljósi aukinnar íbúðafjárfestingar, vaxandi eftirspurnar á íbúðamarkaði og veltuaukningar undanfarna mánuði og misseri, sem svo endurspeglast í umtalsverðri raunhækkun á íbúðaverði.

Fleiri huga að utanlandsferð

Loks stígur vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða upp um rúm 6 stig á milli mælinga, og er nú nærri 20 stigum hærri en á sama tíma í fyrra. Þróunin á milli ára er því langmest afgerandi í þessum undirlið stórkaupavísitölunnar, en fyrrgreind vísitala er nú í svipuðu gildi og í september árið 2008, en hún lækkaði mjög skarpt í kjölfarið samfara falli krónunnar og verulegri rýrnun kaupmáttar. Hyggja 70% svarenda á utanlandsferð næsta árið. Nærtækt virðist að ótíð í veðri á fyrsta ársfjórðungi hafi ýtt undir ferðagleði landsmanna, en líkt og undanfarin misseri er skýringin væntanlega einnig aukinn kaupmáttur og betri fjárhagsleg skilyrði heimila. 

Einkaneysla sækir í sig veðrið 

Að öllu samanlögðu gefa bæði væntingavísitalan og stórkaupavísitalan nú vísbendingu um allhraðan vöxt einkaneyslu á komandi mánuðum. Þó er rétt að halda til haga, hvað fyrrnefndu vísitöluna varðar, að hún á til að sveiflast talsvert á milli mánaða. Við spáðum í október síðastliðnum 3,8% vexti einkaneyslu á yfirstandandi ári. Miðað við þá hagvísa sem þegar liggja fyrir, sem og horfur á komandi fjórðungum hvað varðar kaupmátt og fjárhagsleg skilyrði heimila, virðist þar síst hafa verið ofspáð.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall