Fréttir Greiningar

Ótrúlegt ár að baki í ferðaþjónustu

07.01.2016 11:10

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu sem birtar voru í gær fóru alls 70,9 þús. erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) í desember sl. Er það fjölgun upp á 17,1 þús. ferðamenn á milli ára í desember, eða sem nemur um 31,9%.

Brottfarir erlendra ferðamanna um KEF námu því 1.262 þús. í fyrra, samanborið við 969 þús. á árinu 2014 og 781 þús. árið þar á undan. Jafngildir þetta fjölgun upp á 30,2% milli ára, eða sem nemur 293 þús. ferðamönnum. Eins og við höfum áður fjallað um var þróunin í fyrra mun jákvæðari en við höfðum reiknað með í ársbyrjun 2015, en þá höfðum við spáð 23% fjölgun og vorum bjartsýnust á meðal spámanna. Það er kannski ekki að undra að spár hafi vanáætlað þróunina í heimsóknum ferðamanna á síðustu árum, enda þarf sífellt fleiri hausa til þess að viðhalda hlutfallslega jafn hraðri fjölgun ferðamanna eftir því sem þeir verða fleiri á hverjum tíma.

Tíundi hver Íslendingu hélt erlendis í desember

Talsverð fjölgun var einnig á brottförum Íslendinga um KEF í desembermánuði, þó að hún næði ekki nærri sömu hæðum og vöxturinn í brottförum erlendra ferðamanna frekar en fyrri daginn. Alls fóru 32,9 þús. Íslendingar til útlanda í desember, sem er fjölgun upp á 17,2% frá sama tíma í fyrra. Jafngildir þetta því að tíundi hver Íslendingur hafi farið til útlanda í desember, og hafa hlutfallslega séð (þ.e. m.v. mannfjölda) aldrei fleiri Íslendingar farið erlendis í desembermánuði en þeim síðastliðna. Var ferðamannajöfnuður þar með jákvæður um 37,9 þús., samanborið við 25,6 þús. í desember 2014, og gefur augaleið að hann hefur aldrei áður verið eins jákvæður í jólamánuðinum.

Næstmesti fjöldi frá upphafi

Alls námu brottfarir Íslendinga um KEF 450 þús. í fyrra samanborið við 400 þús. árið 2014, sem er fjölgun upp á 12,6% á milli ára. Hafa brottfarir Íslendinga um KEF aðeins einu sinni áður verið fleiri en í fyrra, sem var árið 2007 og námu þær þá 452 þús. Þó ber hér eðlilega að taka tillit til þess að Íslendingum fjölgar ár frá ári, og sé það tekið með í reikninginn þá leyfðu hlutfallslega fleiri Íslendingar sé þann munað að fara til útlanda á árunum 2006-2007 en gerðu í fyrra. 

Útlit fyrir enn meira gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna í ár

Eins og áður segir þá voru brottfarir erlendra ferðamanna um KEF 1.262 þús. en Íslendinga 450 þús. í fyrra. Var ferðamannajöfnuður þar með jákvæður um 812 þús. í fyrra samanborið við 569 þús. árið 2014 og 416 þús. ári áður. Í raun hefði hver Íslendingur orðið að fara u.þ.b. 4 sinnum til útlanda í fyrra til þess að brottfarir þeirra næðu sömu hæðum og brottfarir útlendinga um KEF. 

Aukinn munur á ferðum útlendinga hingað til lands og Íslendinga á erlenda grundu endurspeglast í gjaldeyrisflæði, þar sem innflæði tengt ferðamennsku var mun meira í fyrra en áður hefur verið. Verður spennandi að sjá hvað árið í ár ber í skauti sér í þessum efnum, en miðað við farþegaspá Isavia má ætla að gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna nái nýjum hæðum í ár. Isavia gerir ráð fyrir 10% aukningu í utanlandsferðum Íslendinga í ár, og gangi sú spá eftir mun heildarfjöldi íslenskra brottfararfarþega verða um 495 þús. í ár. Félagið reiknar svo með enn meiri fjölgun á komum erlendra ferðamanna til landsins, eða 22,2% sem þýðir að heildarfjöldi erlendra brottfararfarþega verður um 1.542 þús. í ár.

Afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga, samgangna og flutninga var 191 ma. kr. á fyrstu 9 mánuðum nýliðins árs. Var það 34 mö. kr. meiri afgangur en árið áður, og á þessi aukning drjúgan þátt í stórauknu gjaldeyrisinnflæði á síðasta ári samanborið við árin undan. Miðað við framangreinda áætlun má ætla að þessi afgangur verði enn meiri í ár, og hreint gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustu þar með meira. Það er afar jákvæði þróun og mikilvæg í ljósi þess að líkur eru á nokkrum halla á vöruviðskiptum í ár. Samanlagt eru því líkur á ágætum afgangi af utanríkisviðskiptum þrátt fyrir vaxandi innlenda eftirspurn, en það skiptir sköpum um að losun hafta á árinu gangi snurðulaust fyrir sig.
 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall