Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir og hlutlaus tónn hjá peningastefnunefnd

14.03.2018 11:03

Stýrivextir Seðlabankans verða óbreyttir í 4,25%. Þetta kemur fram í nýbirtri yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans. Hafa vextir bankans þá verið óbreyttir frá því í október síðastliðnum. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar okkar og almenna skoðun á markaði. Allar opinberar spár höfðu hljóðað upp á óbreytta vexti að þessu sinni.

Yfirlýsing nefndarinnar er tiltölulega stutt og laggóð að þessu sinni, og að töluverðu leyti samhljóða síðustu yfirlýsingu frá febrúar síðastliðnum. Virðast verðbólgumæling febrúarmælingar og nýlega birtir þjóðhagsreikningar Hagstofunnar fyrir árið 2017 ekki hafa breytt sýn peningastefnunefndar á líklega verðlags- og efnahagsþróun á næstunni. Það sem helst hefur breyst er einkum tvennt:

  • Í fyrsta lagi er bent á að verðbólguvæntingar virðist hafa hækkað lítillega. Of snemmt sé þó að álykta um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið bankans hafi veikst.
  • Í öðru lagi er í yfirlýsingunni að finna þessa setningu: „Nýleg ákvörðun um að segja ekki upp kjarasamningum dregur úr hættu á ósjálfbærum launahækkunum til skamms tíma litið en undirliggjandi spenna á vinnumarkaði er enn til staðar.“ Þessi setning kemur í staðinn fyrir „Þá ríkir enn óvissa um niðurstöðu kjarasamninga.“ í síðustu yfirlýsingu.

Í sem stystu máli vegast á minni áhyggjur nefndarinnar af vinnumarkaði til skemmri tíma litið og hækkandi verðbólguálag á markaði. Framsýna leiðsögn peningastefnunefndar er hlutlaus sem fyrr.

Óbreytt bindiskylda á innflæði í íslenska vexti

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina las Seðlabankastjóri yfirlýsingu vegna sérstakrar bindiskyldu á erlendu innflæði í innlenda vexti. Bindiskyldan nær til 40% heildarfjárfestingar, og liggja þeir fjármunir á vaxtalausum reikningi í Seðlabankanum í 12 mánuði. Í yfirlýsingunni bregst Seðlabankinn við gagnrýni á sérstöku bindiskylduna sem komið hefur fram undanfarið. Telur bankinn ekki enn ástæðu til að breyta fyrirkomulagi bindiskyldunnar, en að í fyllingu tímans muni aðstæður skapast til að létta á henni þegar vaxtamunur minnkar frekar og dregur úr spennu í hagkerfinu. Benti Már á kynningarfundinum á það að bankinn teldi æskilegt að miðlun peningastefnunnar færi í sem mestum mæli fram um vaxtafarveginn fremur en í gegn um gengisbreytingar krónu, og að bindiskyldan stuðlaði að því. Breytingar á bindiskyldu gætu hins vegar hugsanlega komið til framkvæmda á seinni hluta ársins.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall