Fréttir Greiningar

Töp og sigrar síðasta árs á hlutabréfamarkaði

26.01.2015 08:42

Á síðasta ári hækkaði hlutabréfavísitalan K-90 um 7% en OMXI8 um 4,1%. Ef litið er til eðlilegra væntinga fjárfesta um ávöxtun hlutabréfa má telja árið nokkuð slakt. Þá erum við reyndar að tala um þá fjárfesta sem áttu hlut í markaðsvegnu eignasafni. Það er nefnilega alls ekki þannig að allir hafi borið skarðan hlut frá borði á hlutabréfamarkaði síðasta árs. Þeir sem áttu hlut í Össuri fengu til dæmis 58,6% ávöxtun og þeir sem áttu hlutabréf í Granda allt síðasta ár fengu 53,6% ávöxtun en þeir sem eignuðust hlut í félaginu við skráningu og héldu honum út árið hafa fengið 22% ávöxtun á sinn hlut yfir tæplega 9 mánaða tímabil. Nýherji hækkaði einnig verulega en Nýherji og Össur eiga það sameiginlegt að verðmyndun með bréf félaganna er fremur óskilvirk. 

Spurning um að veðja á réttan hest

Á hlutabréfamarkaði snýst í raun allt um að veðja á réttan hest. Alla jafnan þykir þó heppilegast fyrir almenna fjárfesta að kaupa hlutabréf í gegnum sjóði þannig að áhættu sé dreift og eggin liggi ekki öll í sömu körfu. Margir hlutabréfasjóðir eru markaðsvegnir en ávöxtun þeirra ætti þá að svipa til ávöxtunar úrvalsvísitölunnar. Aðrir sjóðstjórar áhættudreifa eignasafni sínu ólíkt markaðssafninu og reyna svo að „sigra markaðinn“ þ.e. ná betri ávöxtun en ávöxtun úrvalsvísitölunnar. Sumum tekst það en öðrum ekki og ekki eru það alltaf sömu sjóðstjórarnir sem „sigra markaðinn“ ár eftir ár. 

Íslenskir sjóðsstýrendur gefa alla jafnan töluverðar upplýsingar um sjóði sína þ.e. hver fjárfestingastefna þeirra er, hvernig ávöxtun hefur verið og hverjar stærstu eignir sjóðsins eru. Fjárfestar geta þannig myndað sér sjálfstæða skoðun á því hvort þeir telja líklegt að viðkomandi safn gefi ásættanlega ávöxtun yfir fyrirhugaðan fjárfestingartíma að gefinni þeirri áhættu sem í fjárfestingunni felst. Það er eðlilega þannig að áhætta getur verið misjöfn milli sjóða m.a. vegna seljanleikaáhættu en hlutabréfasjóðir eiga oft hvoru tveggja skráð og óskráð bréf.

Minna selt í sjóðum 2014 en 2013

Seðlabankinn birtir reglulega tölur yfir seld og innleyst hlutdeildarskýrteini í hlutabréfasjóðum. Nýjustu tölur eru fyrir nóvember á síðasta ári. Kemur þar fram að yfir ellefu mánuði ársins voru seld 5.713 fleiri hlutdeildarskírteini en voru innleyst. Salan var þó mun meiri bæði árið 2012 og 2013. Árið 2013 voru seld 18.944 fleiri skírteini en innleyst voru yfir sama tímabil og árið 2012 var sala umfram innlausn 9.770 skírteini. Dræm ávöxtun vísitalna á síðasta ári kann að skýra minnkandi áhuga fjárfesta en eins gæti mikill áhugi fyrri ára verið að hluta til ástæða þess eftirspurnarþrýstings sem við sáum árið 2013. Í það heila má þó segja að áhugi á hlutabréfum sé að glæðast aftur eftir hrun samhliða stækkun markaðarins.

Markaðurinn breyttist eftir hrun - arðgreiðslur nýja normið

Markaðurinn nú er talsvert ólíkur þeim markaði sem við sáum síðustu árin fyrir hrun. Flest félög voru þá í einhvers konar útrás enda var framboðs af lánsfé mikið. Mörg þeirra félaga sem eru á markaði í dag eru hins vegar hluti af grunn innviðum hagkerfisins og hafa það að markmiði að koma umfram lausafé til fjárfesta sinna fremur en nýta það til vaxtar enda lítil tækifæri til slíks á þeim mörkuðum sem þau starfa. Þessi félög greiða arð eða kaupa eigin bréf á markaði. 

Í töflunni hér til hliðar má sjá arðgreiðslu þeirra félaga er greiddu arð á síðasta ári í hlutfalli af upphafsgengi hlutabréfa í viðkomandi félagi á því ári. Utan þeirra fjármuna er komið var áfram til hluthafa með þessum hætti þá stunda Vodafone, TM og VÍS reglulega endurkaup á markaði. N1 og Össur fóru aftur í stór einskiptis endurkaup á markaði á síðasta ári. Reikna má með að þau félög sem greiddu arð á síðasta ári komi til með að halda áfram að koma hluta hagnaðar áfram til hluthafa annað hvort í formi arðgreiðslna eða endurkaupa á markaði. Hvað varðar þau félög sem skráð voru á síðasta ári þá gerum við ráð fyrir að Sjóvá komi fjármunum til hluthafa til samræmis við arðgreiðslustefnu sína. Í skráningarlýsingu HB Granda kemur hins vegar fram að arðgreiðslur séu langtímamarkmið stjórnar. Þau félög sem mesta arðgreiðslugetu ættu að hafa í nærtíð sökum lítilla vaxtatækifæra og fjárfestingaþarfar eru tryggingarfélögin þrjú, Hagar og N1. 

Sumir sigra – aðrir tapa

Í það heila er niðurstaðan sú að hægt var að hafa ágætlega upp úr hlutafjárviðskiptum á síðasta ári, hafi menn veðjað á réttan hest. Á þessu ári verða líka einhverjir sigurvegarar á meðan aðrir tapa en það er líka yfirleitt svo í viðskiptum með hlutabréf að samspil er milli ávöxtunar og áhættu. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall