Fréttir Greiningar

Spáum 0,5% hækkun neysluverðs í júní

15.06.2016 11:19

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,5% í júní frá maímánuði. Verðbólga eykst samkvæmt spánni úr 1,7% í 2,0%, en er þar með áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Verð-bólguhorfur til meðallangs tíma hafa talsvert breyst frá síðustu spá okkar vegna breyttrar forsendu um gengisþróun krónu. Horfur eru á að verðbólga verði að mestu undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram undir lok næsta árs. Verðbólga mun hins vegar aukast hratt á árinu 2018 og fara jafnvel yfir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins á seinni hluta þess árs samkvæmt spánni. Hagstofan birtir VNV fyrir júní kl. 09:00 þann 28. júní næstkomandi.

Eldsneyti, húsnæði, flug, gisti- og veitingaþjónusta hækkar 

Fjórir undirliðir vega þyngst í júníhækkun VNV í spá okkar: flugfargjöld, eldsneyti, húsnæði og veitinga- og gistiþjónusta. Af þeim vegur hækkun flugfargjalda þyngst (0,19% í VNV). Þar er fyrst og fremst um árstíðarbundin áhrif að ræða, nú þegar háannatími ferðaþjónustunnar er hafinn. Hækkandi eldsneytisverð gæti þó einnig verið áhrifaþáttur í hækkun flugfargjalda, en eldsneytisverð á heimsmarkaði hefur hækkað linnulítið undanfarna 4 mánuði. Sú hækkun endurspeglast einmitt í talsverðri hækkun eldsneytisverðs innanlands (0,11% í VNV). 

Hækkun húsnæðisliðar (0,11% í VNV) er að mestu til komin vegna hækkunar á reiknaðri húsaleigu (0,09% í VNV), en einnig gerum við ráð fyrir nokkurri hækkun á greiddri húsaleigu (0,02% í VNV). Þá endurspeglast sumarannatími ferðaþjónustu einnig í talsverðri verðhækkun á þjónustu veitingahúsa (0,04% í VNV) og gististaða (0,05% í VNV).

Sárafáir liðir vega til lækkunar VNV í spá okkar að þessu sinni. Þó má nefna að verðlækkun á kjöti, grænmeti, fötum, húsgögnum og heimilisbúnaði, lyfjum og pakkaferðum erlendis vegur samtals til 0,09% lækkunar VNV í júní samkvæmt spánni. 

Svipuð verðbólga næstu mánuði

Litið til næstu mánaða spáum við óbreyttri VNV í júlí, 0,4% hækkun í ágúst og 0,1% hækkun VNV í september. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,2% í lok 3. ársfjórðungs. 

Eins og fyrri daginn hefur húsnæðisliðurinn hvað mestu hækkunaráhrifin í heildina litið á næstu mánuðum, eða 0,14% áhrif í VNV í mánuði hverjum að jafnaði. Í júlímánuði lita útsöluáhrif mælinguna, en hækkun flugfargjalda vegur á móti. Það snýst svo í spánni fyrir ágúst og september þar sem útsölulok vega til hækkunar en lækkun flugfargjalda heldur aftur af hækkun. 

Verðbólga nærri markmiði til ársloka 2017

Á síðasta fjórðungi ársins eykst verðbólga nokkuð í spá okkar, og mun hún mælast 2,6% í árslok samkvæmt spánni. Verður þar með endi bundinn á lengsta tímabil verðbólgu undir markmiði frá því verðbólgumarkmiðið var sett á í byrjun aldarinnar, það mun miðað við spána standa í 33 mánuði. Í kjölfarið gæti þó dregið tímabundið úr verðbólguþrýstingi að nýju, þar sem hægari hækkun launa og frekari styrking krónu eru helstu áhrifaþættir.  Á næsta ári er útlit fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 2,3%, Árið 2018 gerum við hins vegar ráð fyrir að verðbólga aukist jafnt og þétt eftir viðsnúning í gengisþróun krónunnar. Teljum við að verðbólga verði að jafnaði 3,4% það ár, en undir árslok 2018 gæti verðbólgan jafnvel verið í kring um 4,0%. Svo mikil hefur verðbólga ekki mælst á Íslandi síðan í árslok 2013.

 
Styrking krónu dregur úr verðbólgu næsta kastið

Gengi krónunnar er einn stærsti áhrifaþáttur verðbólguþróunar hérlendis, og hefur tæplega 10% styrking krónunnar undanfarið ár haft mikið að segja um hversu hófleg verðbólgan hefur verið á því tímabili þrátt fyrir hraða hækkun launa og annan innlendan kostnaðarþrýsting. Líkt og kom fram í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við því að krónan muni styrkjast enn um sinn. Teljum við að styrkingin muni nema u.þ.b. 4% á seinni helmingi ársins, og nálægt 5% til viðbótar framan af árinu 2017. Gengishækkun krónu mun að mati okkar hvíla á áframhaldandi innflæði gjaldeyris frá utanríkisviðskiptum, en gjaldeyriskaup Seðlabankans og útflæði vegna rýmri fjárfestingarheimilda erlendis fyrir innlenda aðila halda væntanlega aftur af styrkingunni.

Þegar líður á seinni helming ársins 2017 aukast líkur á því að gengi krónu taki að lækka að nýju. Kemur þar til minnkandi viðskiptaafgangur, hægari vöxtur í hagkerfinu og lægri raunvextir svo nokkuð sé nefnt. Gerum við ráð fyrir að gengislækkun krónu nemi u.þ.b. 5% á seinni hluta spátímans, en vart þarf að taka fram að mikil óvissa er um tímasetningu og stærðargráð slíkrar veikingar. Þrátt fyrir þennan viðsnúning mun gengi krónu verða nærri 3% sterkara í lok spátímans en það er nú, gangi spá okkar eftir.

Framangreind gengisforsenda hefur áhrif til talsvert minni verðbólgu framan af spátímanum en í fyrri spám okkar, þar sem gengisforsendan var um stöðugt gengi krónu. Að sama skapi vegur hún til meiri verðbólgu á seinni hluta tímans en áður var spáð.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall