Fréttir Greiningar

Umfangsmikil forðasöfnun Seðlabankans í fyrra

07.01.2016 11:06

Aukið gjaldeyrisinnflæði til landsins, eins og fjallað er um hér að ofan, hefur leitt til stóraukinnar forðasöfnunar Seðlabankans (SBÍ) í gjaldeyrisforða sinn undanfarið. Í nýliðnum desember keypti bankinn alls 314 m. evra á millibankamarkaði, og átti hann 65% af heildarveltu á markaðinum. Tæpur helmingur þessara gjaldeyriskaupa (140 m. evra) átti sér raunar stað á einum degi, þann 18. des. síðastliðinn. Hefur Seðlabankinn aldrei fyrr keypt jafn háa fjárhæð á millibankamarkaði á einum degi.

Desember var þar með næststærsti mánuður í gjaldeyriskaupum SBÍ frá upphafi. Í ágúst síðastliðnum námu kaupin 319 m. evra, en þá var ekki um neinn einstakan risadag að ræða eins og var í desember heldur var flæðið jafnara enda innflæði ferðamannagjaldeyris í hámarki.

Jákvæð umskipti í hreinum gjaldeyrisforða

Alls námu gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði tæplega 1,9 mö. evra á árinu 2015. Til samanburðar voru kaupin 720 m. evra árið 2014, og er því um hátt í þreföldun á forðasöfnun SBÍ að ræða á milli ára. Seðlabankinn ætti því að vera vel í stakk búinn til að selja gjaldeyri úr forðanum í komandi aflandskrónuútboði, sem bankinn hefur talað um að halda á seinni hluta 1. ársfjórðungs. 

Hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans, þ.e. gjaldeyriseignir að frátöldum öllum erlendum skuldum og gjaldeyrisskuldum við innlenda aðila, nam tæpum 1,7 mö. evra í nóvemberlok og hefur væntanlega staðið nær 2,0 mö. evra (jafnvirði um 280 ma. kr.) um nýliðin áramót. Til samanburðar var hreinn gjaldeyrisforði á þennan kvarða 306 m. evra í árslok 2014 og í lok ársins 2013 var hreini forðinn neikvæður um 186 m. evra. Staða gjaldeyrisforðans hefur því umturnast til hins betra á tveimur árum, og eykur sú þróun verulega líkur á að losun gjaldeyrishafta á komandi misserum verði áfallalaus.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall