Fréttir Greiningar

Háir raunstýrivextir á Íslandi

18.02.2014 11:27

nullStýrivextir Seðlabanka Íslands hafa staðið óbreyttir allt frá því í nóvember árið 2012. Þrátt fyrir harðari vaxtahækkunartón Seðlabankamanna um miðja síðustu viku reiknum við með að svo verði raunin fram á næsta ár. Rætist spáin verður um að ræða lengsta tímabil óbreyttra stýrivaxta bankans um áratuga skeið.

Á hinn bóginn erum við að sjá fram á mun hærri raunstýrivexti á þessu ári en þeir hafa að jafnaði verið frá hruni. Miðað við nýjustu verðbólguspá okkar, og þá aðferð að meta raunstýrivexti sem mun á vöxtum á ársgrunni og liðinni verðbólgu, fela 6% stýrivextir Seðlabankans í sér raunstýrivexti upp á ríflega 3% að jafnaði á árinu. Í fyrra voru raunstýrivextir að jafnaði 2%. Tvö árin þar á undan voru þeir nálægt núlli og raunar neikvæðir hluta þess tímabils.

Hækkandi raunstýrivextir merkja að aðhaldið í peningastjórnuninni hafi aukist. Er nú svo komið að nær allur slakinn er horfinn úr peningastjórnuninni. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur sagt að eðlilegt sé að slakinn hverfi úr peningastjórnuninni samhliða því að slakinn hverfur úr hagkerfinu, sem gerist á næsta ári samkvæmt nýjustu spá bankans. Þróun raunstýrivaxta undanfarið er þannig í takti við það sem nefndin hefur boðað, og er jákvætt að það hefur gerst með hjöðnun verðbólgunnar fremur en hækkun nafnstýrivaxta bankans undanfarið. Hækkun raunstýrivaxta hefur síðan eflaust átt sinn þátt í að verðbólgan hefur hjaðnað undanfarið og mun í þessum mánuði fara niður í verðbólgumarkmið bankans samkvæmt verðbólguspá okkar eftir að hafa verið yfir því markmiði síðan í mars 2011. Verðbólguvæntingar eru enn háar og talsvert yfir verðbólgumarkmiði bankans. Það eru því rök fyrir háum stýrivöxtum þó að deila megi um hvort raunstýrivextir hafi hækkað of hratt undanfarið. 

Raunstýrivextir enn víðast hvar neikvæðir

nullFáir seðlabankar heims, sér í lagi í þeim löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við í efnahagslegu tilliti, hafa jafn háa stýrivexti og Seðlabanki Íslands hefur. Jafnframt eru raunstýrivextir oftar en ekki neikvæðir í þessum löndum, líkt og þeir hafa í mörgum tilvikum verið um alllangt skeið. Stýrivextir fóru lægst niður í 4,25% hér á landi, sem var í febrúar árið 2011, en þar stöldruðu þeir við í 6 mánuði. Vextirnir tóku að hækka á ný í ágúst sama ár og voru komnir upp í 6,0% í nóvembermánuði ári síðar.

Sé litið til Norðurlandanna þá hafa stýrivextir verið lækkaðir þar að nýju eftir að seðlabankar í þeim löndum hófu að hækka vexti á eftirhrunsárunum. Stýrivextir í Noregi standa nú í 1,5% og stýrivextir í Danmörku í 0,2%, en þar hafa stýrivextir aldrei verið lægri en nú. Í báðum löndunum er um neikvæða raunstýrivexti að ræða, og hafa þeir verið neikvæðir í Danmörku í rúm fjögur ár, en í Noregi frá apríl í fyrra. Í Svíþjóð standa stýrivextir í 0,75%, en verðbólga þar í landi hefur verið afar lítil að undanförnu og í því ljósi ákvað Riksbank að lækka stýrivexti sína um 25 punkta í desember sl.

nullSé litið sunnar í Evrópu er svipuð saga uppi á teningnum. Stýrivextir Evrópska Seðlabankans hafa verið 0,25% síðan í nóvember sl. sem er sögulegt lágmark þeirra, og hafa raunstýrivextir verið neikvæðir á svæðinu allt frá því í mars 2010. Fara má enn lengra aftur sé litið til Bretlands. Þar hefur Englandsbanki haldið stýrivöxtum sínum óbreyttum í 0,5% allt frá því í mars árið 2009, og hafa raunstýrivextir verið neikvæðir þar allt frá nóvember 2008.

Sá íslenski með hæstu stýrivextina á EES svæðinu

Sé litið á stýrivexti hjá öðrum seðlabönkum Evrópska efnahagssvæðisins (EES) þá er hinn íslenski með langhæstu stýrivextina. Næsthæstu stýrivextirnir eru í Rúmeníu en þar eru þeir 3,5%. Þriðju hæstu stýrivextir seðlabanka innan EES eru í Ungverjalandi, en þeir standa nú í 2,85% sem er sögulegt lágmark stýrivaxta þar í landi. Er jafnframt reiknað með að stýrivextir verði lækkaðir enn frekar á næstunni. Þar hefur verðbólgan snarlækkað að undanförnu og stóð hún í 0,4% í janúar sl., og hefur ekki verið lægri a.m.k. frá byrjun tíunda áratugar síðustu aldar.

Krónan er með eina hæstu raunstýrivexti hávaxtamynta

nullLíkt og Ísland fór Ungverjaland ekki varhluta af áhrifum vaxtamunarviðskipta fyrir hrun. Önnur lönd sem áttu það sameiginlegt með þessum löndum að búa við hátt vaxtastig og slík viðskipti voru t.d. Nýja Sjáland, Tyrkland, Suður Afríka og Brasilía. Voru vaxtamunarviðskipti einn helsti áhrifaþáttur gengisþróunar í þessum löndum, og þar með verðbólgu.

Í samanburði við ofangreind hávaxtalönd eru stýrivextir á Íslandi nú þeir þriðju hæstu, en þeir eru hæstir í Brasilíu (10,5%) og næsthæstir á Tyrklandi (10%). Í þessum löndum hafa stýrivextir verið hækkaðir töluvert að undanförnu, og nú síðast hækkaði tyrkneski seðlabankinn vexti sína um heila 550 punkta, þ.e. úr 4,5% í 10%, með það að markmiði að sporna við gengisfalli tyrknesku lírunnar. Stýrivextir í Suður Afríku eru nú 5,5% en lægstir eru þeir á Nýja Sjálandi. Þar standa þeir í 2,5% og hafa verið óbreyttir allt frá því í ársbyrjun 2011.

Í fyrra voru raunstýrivextir að jafnaði hæstir í Ungverjalandi (2,6%), en þeir voru svo svipaðir hér á landi og í Brasilíu, þ.e. um 2%. Raunstýrivextir voru lægstir á Tyrklandi (-2,5%) í fyrra en þeir hafa verið neikvæðir þar allt frá miðju ári 2011. Í Suður Afríku voru raunstýrivextir að jafnaði neikvæðir um 0,7% í fyrra en jákvæðir um 1,4% á Nýja Sjálandi. 

Erum enn að súpa seyðið af vaxtamunarviðskiptum

Seðlabankamenn hér á landi hafa undanfarin misseri lagt nokkra áherslu á að við afléttingu gjaldeyrishafta þurfi vextir líklega að hækka til að sporna við hreinu útflæði fjármagns. Hins vegar er vandratað meðalhófið í þeim efnum, sér í lagi með hliðsjón af áhrifum hávaxtastefnu Seðlabankans á flæði skammtímafjármagns til landsins á árunum fyrir hrun. Háir skammtímavextir skiptu sköpum um að hingað til lands streymdi mikið kvikt fjármagn, krónan styrktist og kaupmáttur almennings varð um stundarsakir meiri en hagkerfið stóð undir með góðu móti, með tilheyrandi áhrifum á þenslu og viðskiptahalla.

Að minnsta kosti hlyti að vera varasamt að Seðlabankinn legði aftur áherslu á að laða hér að erlent skammtímafjármagn með háum stýrivöxtum og miklum skammtímavaxtamun við útlönd þegar kemur að því að afnema gjaldeyrishöft. Raunar er fullt afnám hafta án takmarkana á fjármagnsflæði til og frá landinu vart í sjónmáli næstu árin að mati okkar, og er vafamál hvort að það skref verði stigið til fulls svo lengi sem krónan er gjaldmiðill Íslands. Enn erum við að súpa seyðið af vaxtamunarviðskiptum sem voru við lýði fyrir hrun, og má þar minna á að þeir rúmlega 300 ma.kr. af aflandskrónum sem enn eru bundnar hérlendis eru afleiðing þessara viðskipta.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall