Fréttir Greiningar

Mikill vöxtur einkaneyslu og þjónustuútflutnings í ársbyrjun

15.03.2016 11:14

Gríðarlegur vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í febrúar sl. og bendir margt til þess að einkaneysluvöxtur nú á 1. ársfjórðungi verði sá mesti síðan á seinni hluta ársins 2007. Þrátt fyrir verulega aukningu í veltu innlendra korta erlendis var myndarlegt gjaldeyrisinnflæði í mánuðinum vegna kortaveltu, enda hefur úttekt erlendra korta hér á landi sjaldan aukist eins mikið á milli ára. Eru tölurnar til marks um að bæði einkaneysla og þjónustuútflutningur fari af stað með trukki á þessu ári og komi til með að vera tveir af helstu drifkröftum hagvaxtar á árinu. Þetta má ráða af kortaveltutölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær.

Sjaldan verið meiri vöxtur í kortunum

Alls jókst kortavelta einstaklinga um 16,6% að raunvirði á milli ára í febrúar sl., sem er mesti vöxtur hennar síðan í ágúst 2007. Eðlilega hefur sá viðbótardagur sem var í febrúar nú vegna hlaupárs einhver áhrif, en sé leiðrétt fyrir dagafjölda var vöxturinn engu að síður mikill eða um 13%. Raunvöxtur kortaveltu Íslendinga innanlands nam alls 14,0% (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis) á milli ára í febrúar og 38,3% vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í útlöndum. 

Tónninn í öðrum hagstærðum hinn sami

Ofangreind þróun er til marks um að neysla landsmanna vaxi ansi hressilega um þessar mundir. Sé tekið mið af fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur kortavelta einstaklinga aukist um 12,5% að raunvirði á milli ára, og ef þróunin verður áþekk í mars þá verður þetta mesti vöxtur í kortunum síðan á síðasta fjórðungi ársins 2007. Aðrar hagstærðir er gefa tóninn varðandi þróun einkaneyslu þessa dagana benda einnig til hins sama. Má hér nefna að á fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur sala á nýjum fólksbílum, að bílaleigubílum frátöldum, aukist um 49% frá sama tímabili í fyrra skv. tölum Bílgreinasambandsins og rúmlega 16% fleiri Íslendingar hafa farið til útlanda á tímabilinu en á sama tíma í fyrra skv. tölum Ferðamálastofu. Síðast en ekki síst má nefna að þróun Væntingavísitölu Gallups gefur til kynna að heimilin séu mun ánægðari með stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar nú en þau voru í byrjun síðasta árs. Þannig mældist Væntingavísitala Gallup, sem hefur talsvert mikla fylgni við einkaneyslu, að jafnaði 121,4 stig á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við 86,7 stig á sama tímabili í fyrra, en 100 stig marka jafnvægi á milli bjart- og svartsýni neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.

Erlend kortavelta vex áfram hraðar en ferðamannafjöldi

Kortavelta útlendinga hér á landi nam um 13,2 mö. kr. í febrúar og var í krónutölu heilum 65% meiri en hún var á sama tíma í fyrra. Þessi gríðarlegi vöxtur í kortaveltu er talsvert umfram þann vöxt sem var á brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll á sama tímabili, líkt og var upp á teningnum í janúar sl. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu fjölgaði brottförum erlendra ferðamanna um 42,9% á milli ára í febrúar. Við teljum ekki ólíklegt að þessi umfram vöxtur í kortaveltu í samanburði við brottfaratölur eigi sér svipaðar skýringar og í janúar þegar kortvelta jókst um 60% á milli ára á sama tíma og brottförum fjölgaði um 26%. Samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar mátti rekja þróunina í janúar að stórum hluta til stóraukinnar kortaveltu útlendinga fyrir farþegaflutninga með flugi, sem aftur mátti líklega rekja til opnunar á WOW fyrir bókanir til og frá San Francisco og Los Angeles en slík velta kemur fram hjá innlendum færsluhirðum. 

Útlit fyrir myndarlegan afgang af þjónustujöfnuði

Kortavelta Íslendinga í útlöndum nam rúmlega 8,2 mö. kr. í febrúar, og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga í útlöndum) þar með jákvæður um 4,9 ma. kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í febrúarmánuði, en í febrúar í fyrra var þessi jöfnuður jákvæður um 1,5 ma. kr.

Sé tekið mið af fyrstu tveimur mánuðum ársins er kortaveltujöfnuður jákvæður um rúma 8,9 ma. kr. samanborið við tæpa 2,2 ma. kr. á sama tímabili í fyrra. Þetta kann að gefa tóninn hvað varðar þróun þjónustujafnaðar á fyrsta ársfjórðungi, en út frá þessum tölum má ætla að hann verði sá hagfelldasti frá upphafi nú í ár. Raunar er útlit fyrir að þjónustujöfnuður skili metafgangi í ár, og standi alfarið undir þeim talsverða viðskiptaafgangi sem við eigum von á þetta árið. Mikill einkaneysluvöxtur mun hins vegar eiga sinn þátt í hallanum sem við gerum ráð fyrir á vöruskiptum í ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall