Fréttir Greiningar

Fjölgun ferðamanna vanspáð

10.11.2015 11:21

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu Íslands sem birtar voru í gær fóru alls 98,8 þús. erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) í október sl. Er það fjölgun upp á 32,3 þús. ferðamenn á milli ára, eða sem nemur 48,5%. Þetta er mesta hlutfallslega fjölgunin sem orðið hefur á milli ára síðan í desember 2013, og í raun er hér um þriðju mestu fjölgun að ræða á milli ára frá upphafi talninga Ferðamálastofu. Er fjöldi ferðamanna nú kominn upp í 1.109 þús. á fyrstu 10 mánuðum ársins, samanborið við 855 þús. á sama tímabili í fyrra. Jafngildir þetta fjölgun upp á 29,8% milli ára, eða sem nemur ríflega 254 þús. ferðamönnum. Þessi þróun sem verið hefur á árinu er mun jákvæðari en við höfðum reiknað með í upphafi árs, og í raun hafa allar þær spár sem gefnar hafa verið út um fjölda ferðamanna ítrekað vanáætlað þá fjölgun sem síðan hefur orðið á ferðamönnum.

 

Justin Bieber-áhrif í vændum?

Það er kannski ekki að undra að spár hafi vanáætlað þróunina í heimsóknum ferðamanna á síðustu árum, enda þarf sífellt fleiri hausa til þess að viðhalda hlutfallslega jafn hraðri fjölgun ferðamanna eftir því sem þeir verða fleiri á hverjum tíma. Í fyrra fjölgaði ferðamönnum um 24%, árið þar á undan um 21% og árið 2012 um 20%. Ef árið endar með 30% fjölgun frá fyrra ári verða brottfarir erlendra ferðamanna um 1.260 þús. á árinu, og ef þróunin á næsta ári verður sambærileg verða brottfarir um 1.640 þús. Að minnsta kosti hefur Ísland sjaldan fengið jafn mikla auglýsingu og nú á dögunum í myndbandi stórstjörnunnar Justin Bieber, og er því ekki útilokað að enn meira verði um manninn að jafnaði á Keflavíkurflugvelli á næsta ári en þessar tölur benda til.


Brottfarir Íslendinga aldrei fleiri í október

Alls fóru 44,5 þús. Íslendingar frá landinu um KEF í október sl., sem er 9,2% fjölgun frá á sama tíma í fyrra. Hafa brottfarir Íslendinga aldrei verið fleiri í októbermánuði og þeim síðastliðna, og er sú þróun í takti við aðrar hagstærðir sem gefa tóninn varðandi þróun einkaneyslu þessa dagana. Benda þær til þess að neysla landsmanna sé á talsverðri siglingu um þessar mundir. 

Brottfarir Íslendinga eru komnar upp í rúm 381 þús. á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er um 12,4% fjölgun milli ára. Þetta er svipaður fjöldi Íslendinga og fór til útlanda á sama tímabili 2008, og næstmesti fjöldi frá upphafi. Þó ber hér eðlilega að taka tillit til að Íslendingum fjölgar ár frá ári, og sé það tekið með í reikninginn þá leyfðu hlutfallslega fleiri Íslendingar sé þann munað að fara til útlanda á árunum 2006-2008 en hafa gert á yfirstandandi ári.


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall