Fréttir Greiningar

Júní metmánuður í gjaldeyriskaupum Seðlabankans

06.07.2015 10:10

Mikið gjaldeyrisinnflæði, m.a. vegna mikils vaxtar ferðaþjónustunnar og bata í viðskiptakjörum, hefur gert Seðlabankanum kleyft að auka verulega forðasöfnun sína í gjaldeyri undanfarna ársfjórðunga. Útlit er fyrir að hreinn gjaldeyrisforði bankans verði allt að þrefalt stærri um næstu áramót en hann var í ársbyrjun, þrátt fyrir að bankinn selji væntanlega talsverðan gjaldeyri í stóra aflandskrónuútboðinu í haust. 

Júní á við þrefaldan meðalmánuð

Júní var metmánuður í kaupum Seðlabankans á gjaldeyri. Keypti hann alls 198 m. EUR á millibankamarkaði, sem samsvarar ríflega 29 mö. kr. m.v. meðalgengi EUR/ISK í júní samkvæmt tölum sem bankinn birti nýverið. Fyrra met í einum mánuði var 115 m. EUR sem var  í ágúst í fyrra. Til samanburðar námu gjaldeyriskaupin á fyrstu 5 mánuðum ársins að jafnaði 70 m. EUR í hverjum mánuði. Gjaldeyriskaupin í júní endurspegla að stórum hluta mikið innflæði gjaldeyris vegna þjónustuviðskipta, og er næsta víst að krónan hefði styrkst hressilega í síðasta mánuði ef ekki hefði verið fyrir inngrip bankans.

Það sem af er ári hefur Seðlabankinn keypt 551 m. EUR á millibankamarkaði, og greitt fyrir tæplega 82 ma. kr. Það er ríflega tvöfalt hærri fjárhæð en á fyrri hluta ársins 2014 (257 m.EUR). Hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans, þ.e. gjaldeyriseignir að frádregnum öllum skuldbindingum í gjaldeyri, hefur frá áramótum aukist úr 306 m. EUR (rúmum 47 mö. kr.) í 644 m. EUR (95 ma. kr.). Ekki lítur út fyrir að neitt lát verði á gjaldeyriskaupum SBÍ inn í gjaldeyrisforðann á næstunni, enda háannatíminn byrjaður í ferðaþjónustunni og útlitið þokkalegt fyrir vöruskipti næsta kastið.

Af nógu að taka í útboðinu í haust?

Fyrir liggur að SBÍ mun bjóða gjaldeyri úr gjaldeyrisforðanum til sölu í stóra útboðinu sem haldið verður fyrir aflandskrónueigendur í haust og kynnt var sem hluti áætlunar stjórnvalda um losun hafta í síðasta mánuði. Auk reiðufjár í EUR verður boðið upp á 20 ára ríkisbréf í ISK og meðallangt ríkisbréf í EUR í útboðinu. Aflandskrónurnar nema nú u.þ.b. 291 ma. kr., en þar af 175 ma. kr. í ríkistryggðum skuldabréfum og 116 ma. kr. í innlánum.

Ef við gerum ráð fyrir að skipting milli EUR reiðufjár annars vegar og skuldabréfa hins vegar verði svipuð og eignaskipting aflandskróna nú, og verðið á EUR verði a.m.k. ekki lægra í útboðinu en í febrúarútboði Seðlabankans (EUR/ISK 200) gæti Seðlabankinn selt í kring um 500 m. EUR úr gjaldeyrisforðanum í útboðinu. Við teljum þó að þessar forsendur séu í ríflegri kantinum, og salan úr forðanum verði væntanlega minni. Bæði gæti skiptigengið orðið hærra og eins gæti Seðlabankinn viljað beina aflandskrónueigendum í ríkari mæli í skuldabréfin.

Það virðist því líklegt að gjaldeyriskaup Seðlabankans á sumarmánuðum dugi ein og sér til þess að útvega gjaldeyri fyrir aflandskrónaútboðið. Að því gefnu að gjaldeyriskaup SBÍ á síðustu fjórum mánuðum ársins verði svipuð að jafnaði og síðasta vetur áætlum við að hreinn gjaldeyrisforði verði u.þ.b. 800-900 m. EUR í lok árs. Jafngildir það allt að þreföldun frá stöðunni í ársbyrjun. Þess ber að geta að gjaldeyrisforði bankans í heild er mun stærri. Í lok maí síðastliðins nam hann t.a.m. tæplega 4 mö. EUR (588 mö. kr.), en stærstum hluta þeirrar fjárhæðar var aflað með skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs í USD og EUR. Það er því mikilvægt að hreinn gjaldeyrisforði aukist nú jafn hratt og raun ber vitni, enda mun það auka líkurnar á farsælli losun hafta þegar fram í sækir. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall