Fréttir Greiningar

Veruleg gjaldeyrissöfnun Seðlabankans

07.02.2014 11:49

nullSeðlabankinn hefur verið umsvifamikill í gjaldeyriskaupum á markaði undanfarna tvo mánuði. Var hlutdeild hans á markaði í janúar síðastliðnum raunar sú mesta í rúm 4 ár. Bankinn safnaði frá nóvemberlokum til loka janúarmánaðar 107 m. evra, jafnvirði u.þ.b. 17 ma.kr., í gjaldeyrisforða sinn, og herti hann róðurinn í þeim efnum eftir því sem leið á tímabilið og krónan styrktist. Má túlka það sem svo að peningastefnunefndin, sem leggur línurnar varðandi viðskipti Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði, telji núverandi gengi krónu nærri lagi miðað við stöðu hagkerfisins og verðbólguhorfur.

Með stóran hluta veltu á markaði

nullSeðlabankinn hóf gjaldeyriskaup sín þann 29. nóvember síðastliðinn, en dagana á undan hafði krónan styrkst gagnvart evru um 1%. Í desember keypti bankinn 33 m. evra á markaði og í janúar síðastliðnum námu gjaldeyriskaupin 68 m. evra. Þar af voru 35 m. evra keyptir á einum degi, þann 28. janúar. Hlutdeild Seðlabankans af heildarveltu á millibankamarkaði með gjaldeyri var rúm 32% í desember, en nærri 44% í janúar. Til samanburðar var hlutdeild Seðlabankans á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs að jafnaði tæp 9%. Kaupin héldu áfram fyrstu daga febrúarmánaðar, og virðist lítið lát á þeim.

Vetrarglaðningur eftir breytta stefnu

Seðlabankinn kynnti í maí síðastliðnum breytta stefnu varðandi viðskipti bankans á gjaldeyrismarkaði. Í stað reglubundinna gjaldeyriskaupa, sem raunar var hætt í árslok 2012 vegna óhagstæðs gjaldeyrisflæðis, kom virkari stefna sem miðar að því að draga úr sveiflum í gengi krónu í því skyni að minnka sveiflur í verðbólgu og verðbólguvæntingum. Var þá tekið fram að gjaldeyrir sem keyptur yrði þegar gjaldeyrisinnflæði væri mikið yrði notaður til þess að styðja við krónuna þegar gjaldeyrisútflæði ætti sér stað.

nullLíklega hefur fáa grunað þegar þetta markmið var sett að það yrði loks í svartasta skammdeginu sem Seðlabankinn fengi færi á að safna gjaldeyri í sarpinn. Gjaldeyrisflæði hefur undanfarin ár verið óhagstætt yfir háveturinn, og er þess skemmst að minnast að bankinn seldi 42 m. evra úr gjaldeyrisforðanum á tímabilinu frá síðustu viku desember 2012 fram í miðjan febrúarmánuð 2013 í því skyni að draga úr gengislækkun krónu, sem þó veiktist um nærri 3% gagnvart evru á tímabilinu. Allt annað virðist uppi á teningnum þennan veturinn, og hefur krónan styrkst um 4% gagnvart evru frá seinni hluta nóvembermánaðar á sama tíma og Seðlabankinn hefur safnað í gjaldeyrisforða sinn. Ekki liggur að fullu fyrir hvers vegna gjaldeyrisinnflæði er svo mikið þessa dagana, en þó má benda á tiltölulega litlar afborganir opinberra aðila og fyrirtækja af erlendum lánum, mikla aukningu ferðamanna milli ára, rúma lausafjárstöðu Landsbankans í gjaldeyri og aukinn botnfiskkvóta í því sambandi.

Er bankinn sáttur við núverandi gengi krónu?

Athygli vekur að Seðlabankinn virðist bregðast fyrr við innflæði á gjaldeyrismarkaði undanfarnar vikur en hann gerði á síðustu vikum liðins árs. Þótt erfitt sé að draga skýrar ályktanir af jafn stuttu tímabili má greina tiltekinn mun á viðbrögðum hans við hreyfingum á markaðinum. Ein leið er að skoða samanlagða gengishreyfingu gagnvart evru á þeim degi þegar bankinn grípur inn í markað og næstu tveimur dögum á undan. Slík inngrip voru alls 13 á ofangreindu tímabili. Ef desember 2013 og janúar 2014 eru bornir saman með þessum hætti kemur í ljós að inngrip fylgdu að meðaltali slíkri hreyfingu upp á 0,6% í desember, en í  janúar var þessi tala 0,2%. M.ö.o. fylgdu inngripin minni styrkingu krónu í janúar en í desember, og endurspeglast það í því að krónan styrktist um 2,7% í desember en 1,2% í janúar gagnvart evru. Á sama tíma voru gjaldeyriskaup Seðlabankans svipuð í mánuðunum tveimur ef undan er skilinn risadagurinn 28. janúar, en tvöfalt meiri í janúar ef hann er meðtalinn.

Þar sem peningastefnunefnd Seðlabankans leggur línurnar varðandi viðskipti bankans á gjaldeyrismarkaði virðist nærtækt að draga þá ályktun að ákveðið hafi verið að láta söfnun gjaldeyrisforða ganga fyrir styrkingu krónu í janúar. Má þar benda á að um áramót var gengi krónu orðið nokkru sterkara en gert var ráð fyrir næstu misserin í síðustu spá Seðlabankans í nóvember síðastliðnum. Í ljósi þess að viðhalda þarf afgangi af viðskiptajöfnuði á komandi misserum til að mæta afborgunum erlendra lána og/eða styrkja gjaldeyrisforðann er skynsamlegt að nýta hið óvænta vetrarinnflæði til þess að safna í gjaldeyrisforðann fremur en þrýsta upp raungengi krónu, og skerða þar með samkeppnishæfni hagkerfisins, enda hefur Seðlabankinn þá meiri tök en ella á því að halda aftur af veikingu krónu næst þegar harðnar á dalnum. Í öllu falli verður fróðlegt að heyra umfjöllun Seðlabankamanna um þróun krónunnar á vaxtaákvörðunarfundinum og Peningamálum í næstu viku.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall