Fréttir Greiningar

Skjótt skipast veður í lofti

14.05.2014 12:06

nullEftir myndarlegan vöxt einkaneyslu undanfarið virðist landinn hafa haldið fastar um veskið í páskamánuðinum. Dróst kortavelta einstaklinga saman að raunvirði um 2,7% á milli ára í apríl sl., og kemur sá samdráttur í kjölfarið á 6,9% raunvexti að jafnaði í mánuðum hverjum á fyrsta ársfjórðungi. Er þetta í fyrsta sinn síðan í júní sl. sem kortavelta dregst saman á milli ára, en Seðlabankinn birti nýjar tölur um kortaveltu í gær.

Má að öllu leyti rekja til verslunar innanlands

nullÞennan samdrátt kortaveltunnar í apríl má að öllu leyti rekja til verslunar innanlands sem dróst saman um 4,8% að raunvirði á milli ára, en svo mikill samdráttur hefur ekki átt sér stað í um 4 ár. Á sama tímabili jókst kortavelta  Íslendinga erlendis um 17,1%, sem að þessu sinni rímar ágætlega við þá fjórðungs fjölgun sem átti sér stað á brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll á sama tímabili.

Rímar vel við væntingar landsmanna

nullTalsvert sló á væntingar íslenskra neytenda til efnahags- og atvinnulífsins í apríl sl. samkvæmt Væntingavísitölu Gallup (VVG). Lækkaði VVG um rúm 12 stig frá fyrri mánuði, og mældist gildi hennar jafnframt lægra en á sama tímabili í fyrra. Það þýðir m.ö.o. að Íslendingar voru svartsýnni á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar nú í apríl en á sama tímabili í fyrra. Þessi lækkun VVG kom jafnframt í kjölfarið á hraðri hækkun hennar mánuðina á undan, og rímar því vel við þann samdrátt sem átti sér stað í kortaveltu Íslendinga sem kom í kjölfarið á hröðum vexti mánuðina á undan. Þótt erfitt sé að festa fingur á ástæðum minni væntinga í apríl dettur okkur í hug að verkfall framhaldsskólakennara fyrri hluta mánaðarins og minni væntingar um áhrif skuldalækkunaraðgerða kunni að hafa spilað þar inn í.

Horfur á talsverðum vexti í einkaneyslu í ár

Þrátt fyrir ofangreinda þróun bæði í kortaveltu landsmanna sem og væntingum þeirra í aprílmánuði teljum við að vöxtur einkaneyslu verði allhraður á árinu, og að ofangreind þróun sé aðeins tímabundið bakslag. Má til að mynda nefna að kortavelta var með meira móti í apríl í fyrra eftir rýran fyrsta ársfjórðung, og magna því grunnáhrif upp þennan viðsnúning í kortaveltunni nú. Þá kann að vera að hluti kreditkortaveltu vegna páskanna komi fram í tölum maímánaðar vegna þess hversu seint páskarnir voru í ár. Það verður því fróðlegt að rýna í maítölurnar, og líklegt að þær muni á ný sýna vöxt í kortaveltu á milli ára.

nullSé tekið mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins þá hefur kortavelta einstaklinga aukist um 4,3% að raunvirði frá sama tímabili í fyrra. Er það nokkuð umfram kaupmáttaraukninguna á sama tímabili, en hér verður raunar að taka inn í reikninginn að einkaneysla var með rýrara móti á sama tímabili í fyrra, og í raun var vöxtur hennar á árinu 2013 í heild fremur lítill og nokkuð undir vexti kaupmáttar launa. Auk heldur spilar fólksfjölgun hér inn í, en í fyrra þegar landsmönnum fjölgaði um tæpt 1% og einkaneysla jókst um 1,2%, nam einkaneysluvöxtur á mann einungis 0,3%. Ríma tölur aprílmánaðar því ágætlega við spá okkar um 4,2% einkaneysluvöxt á árinu í heild, en þar gerðum ráð fyrir að hægja myndi talsvert á vexti einkaneyslunnar eftir því sem liði á árið.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall