Fréttir Greiningar

Vöruskiptahalli jókst um 60% í fyrra

09.01.2018 11:35

Vöruskiptahalli  við útlönd jókst um 60% á árinu 2017 frá árinu áður. Hallinn nam 172 mö.kr. og hefur hann ekki verið meiri í hlutfalli við landsframleiðslu í áratug. Myndarlegur afgangur af þjónustuviðskiptum hefur hins vegar orðið til þess að viðskiptaafgangur var talsverður á nýliðnu ári.

Talsverður vöruskiptahalli í árslok

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var ríflega 20 ma.kr. halli á vöruskiptum við útlönd  í desember síðastliðnum. Er það ríflega tvöfalt meiri halli en í sama mánuði 2016, og nokkuð yfir meðaltali síðasta árs. Mikill vöruskiptahalli í desember skýrist bæði af fremur miklum innflutningi, sér í lagi á hrá- og rekstrarvörum sem og flutningatækjum, og einnig af óvenju rýrum útflutningi sjávarafurða. 

Vöruinnflutningur nam alls 61,8 mö.kr. í desember en vöruútflutningur 41,7 mö.kr. Hvað innflutning flutningatækja varðar er líklegt að þar hafi haft áhrif breytingar á opinberum gjöldum af bílaleigubílum, sem tóku gildi um síðustu áramót.

Mesti vöruskiptahalli í áratug

Á síðasta ári nam halli af vöruskiptum 172 mö.kr., en til samanburðar var vöruskiptahallinn ríflega 108 ma.kr. árið 2016. Í krónum talið hefur vöruskiptahalli aldrei mælst meiri hérlendis. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu var vöruskiptahalli 6,8% á síðasta ári. Á þann kvarða hefur hallinn ekki verið meiri í áratug.

Ólík þróun vöruútflutnings og –innflutnings skýrir aukinn vöruskiptahalla á síðasta ár. Hagstofan hefur birt niðurbrot á magn- og verðþróun vöruviðskipta á fyrstu 10 mánuðum liðins árs og kemur þar fram að útflutningur stóð nánast í stað í magni mælt frá sama tíma ári áður, en innflutningur jókst um 10% á sama kvarða. Slík þróun er kunnuglegur fylgifiskur hækkandi raungengis, en raungengi í  fyrra var að jafnaði 12% hærra en árið áður á mælikvarða hlutfallslegs verðlags, og hefur raungengið ekki verið hærra á þann kvarða í áratug.

Innflutningur neysluvara jókst áberandi hraðar (20%) en annar innflutningur. Einkum var hröð aukning á innflutningi ökutækja til einkanota (40%) og varanlegra neysluvara á borð við heimilistæki (23%), en myndarlegur vöxtur var einnig á innflutningi matvöru (17%) og fatnaðar (17%) svo nokkuð sé nefnt. Aftur á móti dró úr talsvert úr vexti á innflutningi fjárfestingarvara. Slíkur innflutningur jókst um ríflega 6% í magni mælt á fyrstu 10 mánuðum síðasta árs, en árið 2016 nam vöxturinn hins vegar nærri 19%. Er þessi þróun til marks um hversu dregið hefur úr vexti fjárfestingar á milli ára.

Við teljum þennan mikla innflutning neysluvara endurspegla tvennt. Annars vegar óx einkaneysla hratt á Íslandi á liðnu ári, og hefur framlag hennar til hagvaxtar raunar ekki verið meira í áratug. Hins vegar kallaði ör fjölgun ferðamanna hingað til lands á aukinn innflutning aðfanga til neyslu þeirra hér á landi. 

Viðskiptaafgangur í boði ferðaþjónustu

Í stórum dráttum má því segja samsetning vöruskiptajafnaðar endurspegli þróun hagsveiflunnar frá útflutnings- og fjárfestingardrifnum hagvöxt yfir í vöxt þar sem neysla og fjárfesting heimilanna er í vaxandi mæli drifkrafturinn. 

Góðu heilli hefur hátt raungengi hins vegar ekki enn leitt til samdráttar í þjónustuútflutningi, en hraður vöxtur ferðaþjónustu er helsta ástæða fyrir samfelldum viðskiptaafgangi undanfarin 5 ár. Við áætlum að afgangur af þjónustuviðskiptum hafi numið ríflega 270 mö.kr. á síðasta ári, og að viðskiptaafgangur í fyrra hafi þar með verið í kring um 100 ma.kr. Er útlit fyrir að ferðamönnum hingað til lands fjölgi  áfram í ár eins og raunin hefur verið undanfarin ár, þótt vöxturinn verði væntanlega talsvert hægari en verið hefur. Á móti gæti bætt áfram í vöruskiptahalla, og því eru líkur á því að viðskiptaafgangur verði minni í ár en hann var í fyrra.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall