Fréttir Greiningar

Fremur hægur kortaveltuvöxtur í upphafi árs

16.02.2015 10:58

Þróun kortaveltu gefur til kynna að heldur hafi hægt á vexti einkaneyslu upp á síðkastið, þótt vöxturinn sé enn töluverður. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að fjárhagslegar aðstæður heimila eru býsna hagstæðar um þessar mundir. 

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga milli ára 2,7% í janúar sl. Þar af nam vöxtur í kortaveltu innanlands aðeins 1,3% en vöxtur í kortaveltu erlendis var 17%. Þetta er mun hægari vöxtur en var á síðastliðnu ári, þegar kortavelta einstaklinga jókst um 4,8% að raunvirði. Þetta á sérstaklega við um veltu innanlands, en hún jókst að jafnaði um 3,3% að raunvirði á milli ára í fyrra á sama tíma og kortavelta erlendis jókst um 18,3%. 

Batnandi hagur heimila styður einkaneysluvöxt

Hafa ber í huga að stór hluti kreditkortaveltunnar í janúar er vegna jólahalds landsmanna. Lítill vöxtur þeirrar veltu nú gæti því rímað við ummæli verslunarmanna í fjölmiðlum um að jólaverslunin hefði verið dræmari en þeir áttu von á og lítill vöxtur hefði orðið í henni milli ára. Hins vegar vekur athygli að allra síðustu mánuði hefur hægt á raunvexti kortaveltunnar á sama tíma og kaupmáttarvöxtur heimilanna er sá mesti síðan fyrir aldamót, eignaverð fer hækkandi og atvinnuástand hefur batnað jafnt og þétt. Hér gæti þó verið um skammtímafrávik að ræða, og vöxtur tekið við sér að nýju. Þar ber einnig að hafa í huga að kortaveltuvöxtur var með mesta móti í svartasta skammdeginu fyrir ári síðan og gæti hægari vöxtur skýrst af grunnáhrifum frá fyrra ári.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall