Fréttir Greiningar

Vikan: Væntingar og vöruskipti

28.10.2013 11:04

Nokkrir áhugaverðir hagvísar líta dagsins ljós nú í vikunni. Má hér nefna Væntingavísitölu Capacent Gallup fyrir októbermánuð og tölur Hagstofu Íslands um vöruskipti við útlönd fyrir tímabilið janúar til september sl.

Miklar sveiflur í Væntingavísitölunni

nullCapacent Gallup mun birta Væntingavísitölu (VVG) sína fyrir októbermánuð á morgun. VVG hækkaði lítillega í september sl. frá fyrri mánuði, eða um 7,4 stig, og mældist hún 73,7 stig. Þessi hækkun kom í kjölfarið á mikilli lækkun VVG í sumar, en í júlí og ágúst hafði vísitalan lækkað um samtals þriðjung og fór úr 100,6 stigum niður í 66,3 stig í ágúst. Þegar vísitalan er 100 stig felur það í sér að álíka margir svarendur eru bjartsýnir og svartsýnir á ástand og horfur í íslensku efnahagslífi, og virðist því svartsýnin hafa tekið yfirhöndina að nýju.

Þrátt fyrir þessa hækkun VVG í september var gildi hennar það næstlægsta það sem af er þessu ári. Við höfum áður bent á að VVG hækkar gjarnan í aðdraganda alþingiskosninga og lækkar svo nokkuð að nýju að þeim loknum. Hreyfingin í kringum kosningarnar nú virðist hins vegar í stærra lagi, og kann að skýrast af því að neytendur hafi margir hverjir haft talsverðar væntingar um fjárhagslegan ábata í kjölfar kosninganna, sem enn hafa ekki gengið eftir. Verður áhugavert að sjá hvað VVG gerir nú í október, en sögulega séð hefur hún oftast lækkað á milli september og október. Í fyrra lækkaði hún um 12,1 stig og árið þar á undan um 16,5 stig.

Myndarlegur afgangur af vöruskiptum í september

nullÁ fimmtudag mun Hagstofan birta tölur um vöruskipti við útlönd fyrir tímabilið janúar til og með september sl. Samkvæmt bráðabirgðatölum var myndarlegur afgangur af vöruskiptum í september sl., eða sem nemur um 8,8 mö.kr. Hagstæð þróun vöruskipta í mánuðinum skrifaðist alfarið á vöruútflutning, sem hljóðaði upp á 55,5 ma.kr. og var sá mesti í krónum talið síðan í janúar sl. Þar munaði mestu um útflutningsverðmæti sjávarafurða upp á 27,5 ma.kr., og hafði það ekki verið meira síðan í október í fyrra. Vöruinnflutningur var jafnframt aðeins meiri í september en hann hefur að jafnaði verið á árinu, en alls voru fluttar inn vörur fyrir 46,7 ma.kr.

Miðað við ofangreindar bráðabirgðatölur nemur afgangur af vöruskiptum á fyrstu níu mánuðum ársins 39,9 mö.kr. samanborið við 49,0 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Munurinn er meiri sé litið til undirliggjandi vöruskiptajafnaðar, þ.e. án skipa og flugvéla, enda var innflutningur slíkra flutningatækja mun meiri í fyrra en verið hefur nú í ár. Nemur undirliggjandi afgangur af vöruskiptum 44,0 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við 72,2 ma.kr. í fyrra.
 

Dags.

Efni

Heimild

28.okt.13

Vísitala framleiðsluverðs í september 2013

Hagstofa Íslands

28.okt.13

Staða markaðsverðbréfa í lok september 2013

Hagstofa Íslands

28.okt.13

Verðbréfafjárfesting í september 2013

Seðlabanki Íslands

29.okt.13

Væntingarvísitala Gallup fyrir október 2013

Capacent Gallup

29.okt.13

Reykjavíkurborg áætlar að birta fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 ásamt 5 ára áætlun

Reykjavíkurborg

29.okt.13

Útboð LS

Lánasjóður sveitarfélaga

30.okt.13

Vinnumarkaður á 3. ársfjórðungi 2013

Hagstofa Íslands

30.okt.13

Nýskráningar og gjaldþrot hlutafélaga og í september 2013

Hagstofa Íslands

30.okt.13

Icelandair Group hf. birtir uppgjör fyrir 3. ársfjórðung 2013

Icelandair Group hf.

31.okt.13

Vöruskipti við útlönd, janúar-september 2013

Hagstofa Íslands

31.okt.13

Hverjir áttu viðskipti með íbúðarhúsnæði á hb.sv. 3. ársfjórðungi 2013?

Þjóðskrá Íslands

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall