Fréttir Greiningar

Íbúðaverð aðalorsök verðbólgu

28.05.2014 11:06

nullVerðbólga mældist 2,4% í maí. Er verðbólgan þar með áfram rétt undir verðbólgumarkmiði Seðlabanks, fjórða mánuðinn í röð. Horfur eru á að verðbólga verði við 2,5% markmið bankans a.m.k. út þetta ár, og verður það þá lengsta tímabil verðbólgu við markmið í áratug. Hækkun á íbúðaverði er helsti drifkraftur verðbólgu um þessar mundir, og að því undanskildu er verðbólga þessa dagana í neðri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,07% í maí frá mánuðinum á undan samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Mælingin var í neðri kantinum m.v. opinberar spár, en þær lágu á bilinu 0,1% - 0,2% hækkun. Við höfðum gert ráð fyrir 0,2% hækkun að þessu sinni.

Íbúðaverð vegur þyngst í verðbólgu

nullHúsnæðisliður VNV var sá undirliður sem vó þyngst til hækkunar að þessu sinni. Í heild hækkaði liðurinn um tæp 0,5% í maí (0,13% áhrif í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð íbúðarhúsnæði, um 0,9% (0,12% í VNV). Húsnæðisliðurinn stendur raunar á bak við ríflega helming verðbólgu um þessar mundir. Þannig lækkaði VNV án húsnæðis um 0,08% í maí og mælist 12 mánaða verðbólga m.v. þá vísitölu nú 1,1% um þessar mundir. Markaðsverð húsnæðis í VNV hefur hækkað um 9,7% undanfarna 12 mánuði. Mest er hækkunin á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu, tæp 12%, en hækkun sérbýlis á höfuðborgarsvæði nemur tæpum 8% og hækkun húsnæðis á landsbyggðinni tæplega 5% á sama tímabili.

Veruleg lækkun flugfargjalda

Flugfargjöld lækkuðu verulega í  maímælingu VNV. Í heild nam lækkunin 8,1% (-0,15% í VNV) og þar af lækkuðu flugfargjöld til útlanda um tæplega 5% en flugfargjöld innanlands um ríflega 29%. Hagstofan breytti nýlega útreikningsaðferð sinni á þessum lið, og var því meiri óvissa en oft áður um áhrif hans. Við höfðum þó gert ráð fyrir svipaðri lækkun á flugfargjöldum til útlanda og raunin varð. Einnig lækkaði verð á sjónvörpum og slíkum búnaði um 2,6%, og verð á raftækjum um 1,5%. Væntanlega eru þar enn að koma fram áhrif af styrkingu krónu í vetur sem leið.

Af öðrum hækkunarliðum en húsnæðislið má nefna að matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,25% (0,04% í VNV) og vó verðhækkun á ávöxtum og fiski einna þyngst í þeirri hækkun. Þá hækkaði verð á fötum og skóm um tæp 0,8% (0,04% í VNV) og verð á hótelgistingu um 3,9% (0,01% í VNV). Síðastnefnda hækkunin var þó mun minni en við höfðum gert ráð fyrir, en undanfarin ár hefur verð á gistingu hækkað um 13-15% í maímánuði þegar háannatími ferðaþjónustunnar gengur í garð.

Ágætar verðbólguhorfur til skemmri tíma

nullHorfur eru á áframhaldandi hóflegri verðbólgu á næstunni. Við gerum ráð fyrir að VNV hækki um 0,2% í júní, lækki svo um 0,3% í júlí en hækki að nýju um 0,4% í ágúst næstkomandi. Áhrif útsala og útsöluloka skýra sveifluna í VNV í júlí og ágúst í spánni. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 2,1%  í ágústmánuði. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að verðbólga verði á svipuðum slóðum, og mælist rétt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í árslok. Verði þróunin með þessum hætti jafngildir það lengsta tímabili verðbólgu við 2,5% markmið Seðlabankans frá því 2003-2004 þegar verðbólga mældist við markmið bankans í  hálft annað ár. Það veltur þó á því hvort krónan helst stöðug og hversu hratt innlendur kostnaður hækkar næsta kastið hvort verðbólga reynist jafn hófleg og við væntum á næstunni.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall