Fréttir Greiningar

Góð ávöxtun á hlutabréfamarkaði á sama tíma og nettó innlausn var í sjóðum

02.07.2015 09:00

Í maímánuði var innlausn hlutdeildarskírteina í hlutabréfasjóðum um 1,1 ma.kr. umfram sölu, samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans. Er þetta annan mánuðinn í röð sem fjárfestar virðast hafa minnkandi áhuga á hlutabréfasjóðum en innlausn var jafnframt umfram sölu í apríl mánuði. Þróunin síðust ár hefur að mestu verið á hinn veginn þ.e. sala hlutdeildarskírteina hefur verið umfram innlausn þeirra. Áhugi fjárfesta á fjárfestingum í hlutabréfasjóðum virðist því eitthvað hafa dvínað yfir þetta tímabil. Yfir sama tímabil virðist hins vegar áhugi fjárfesta á skuldabréfasjóðum hafa aukist. Innlausn hafði um töluvert langt skeið að mestu verið umfram sölu en á tímabilinu febrúar til maí á þessu ári hefur sala í skuldabréfasjóðum verið umfram innlausn. 

Fjárfestingarvilji samræmist ekki þróun markaða

Kaupvilji í þessum tveim sjóðaformum er nokkuð ólíkur þróun markaða. Þannig hækkaði gengi hlutabréfa verulega yfir þessa tvo mánuði (apríl og maí)  á meðan gengisvísitala ríkisskuldabréfa (NOMXIBB) lækkaði nokkuð. Frá ársbyrjun og til loka maí var ávöxtun hlutabréfa eins og hún er mæld með Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI8) rúm 10% en ávöxtun ríkisskuldabréfa eins og hún er mæld með vísitölu kauphallarinnar (NOMXIBB) einungis um 2,2%.  Mikill hluti hækkunar hlutabréfa kom til í apríl og maí en yfir það tímabil hækkuðu hlutabréf um 7,6%.

Seðlabankinn birtir með sjóðatölum sínum upplýsingar um stöður einstakra eigendahópa. Frá tímabilinu mars og fram í maí voru fáir hópar með eignahækkun til samræmis við hækkun hlutabréfa á markaði og sé leiðrétt fyrir ætluðum áhrifum markaðshreyfinga er ljóst að flestir eigendahópar hafa losað einhverja eign. Ástæðan er í sjálfu sér ekki augljós, það kann þó að vera að hræðslu hafi gætt við að fyrstu skrefa í losun hafta og órói í kringum kjarasamninga hefðu neikvæð áhrif á gengi skráðra félaga. Eins er mögulegt að aðrar fjárfestingar hafi tosað til sín fjármagn t.d. nýskráningar Eik og Reita. 

Góð ávöxtun frá ársbyrjun

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar, OMXI8, hefur hækkað um rúm 12,9% frá ársbyrjun. Ef litið er til ávöxtunar einstakra hlutabréfasjóða yfir sama tímabil má sjá að fjölmargir sjóðir hafa gefið af sér betri ávöxtun en það. Í því tilliti er þó eðlilegt að hafa í huga að eignasamsetning sjóðanna getur verið mjög misjöfn og hafa þeir t.a.m. misjafnt hlutfall óskráðra eigna. Sjóðirnir eru einnig mis atkvæðamiklir í einstökum skráðum félögum en ávöxtun félaga hefur verið misjöfn það sem af er ári eins og sjá má í töflunni hér til hliðar. Ávöxtun Nýherja hefur verið ævintýraleg en félagið er minnsta félag  á Aðallista Kauphallarinnar og er einungis um 4,2 ma.kr. að markaðsvirði. Önnur félög sem hækkað hafa verulega í virði á árinu eru öll, að N1 undanskildu, stór félög en saman eru Icelandair, Marel, Össur og HB Grandi um 67% af heildar markaðsvirði hlutabréfamarkaðarins. Tryggingarfélögin hafa frá ársbyrjun nokkuð liðið fyrir þróun skuldabréfamarkaðar og hafa hækkað lítið að Sjóvá undanskildu sem hækkaði töluvert enda hafði tilkynning um arðgreiðslu félagsins jákvæð áhrif á gengi þess snemma á árinu. Gengi Haga og Eimskipa hefur lækkað, í tilfelli Haga er væntanlega að miklu leiti um að ræða væntingar um áhrif kjarasamninga á afkomu en í tilfelli Eimskip hefur afkoma verið undir væntingum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall