Fréttir Greiningar

Mesti hagvöxtur síðan 2007

11.09.2015 10:43

Kröftugur hagvöxtur mældist á fyrri árshelmingi samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan  birti nú í morgun. Samkvæmt þeim mældist hann 5,2%, en svo mikill  hefur hagvöxtur ekki mælst á fyrri árshelmingi síðan á hinu umdeilda ári 2007. Er vöxturinn talsvert umfram það sem Seðlabankinn spáir fyrir árið í heild sinni, en í spánni sem hann birti samhliða vaxtaákvörðuninni 19. ágúst sl. gerði hann ráð fyrir að hagvöxturinn í ár yrði 4,2%. Kröftugur vöxtur í útflutningi á fyrri helmingi árs skýrir mestan muninn á spá Seðlabankans og niðurstöðu fyrsta árshelmings. 

Umfram spár

Hagvöxtur á fyrri árshelmingi er einnig umfram okkar nýjustu spá sem birt var í maí sl. en hún hljóðar upp á 4,0% hagvöxt í ár. Einnig er þessi hagvöxtur talsvert umfram það sem Hagstofan spáir, en sú er lögð til grundvallar í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi. Þar reiknar stofnunin með 3,8% hagvexti í ár.

Hagvöxtur á nokkuð breiðum grunni

Hagvöxtur á fyrri helmingi ársins er á nokkuð breiðum grunni. Mikill vöxtur er í einkaneyslu og fjárfestingu sem og í útflutningi. Mældist vöxtur einkaneyslu 4,4% á fyrri árshelming, sem er umtalsverður vöxtur og sá mesti sem mælst hefur í einkaneyslu á fyrri árshelmingi síðan 2006. Ljóst er að bætt fjárhagsstaða heimilanna, m.a. vegna vaxtar í kaupmætti ráðstöfunartekna, er að skila þessum mikla vexti. Er vöxtur einkaneyslu nokkuð nálægt því sem bæði við og Seðlabankinn spáum fyrir árið í heild en okkar spá hljóðar upp á 4,6% en spá Seðlabankans 4,2%. 

Fjárfestingarstigið að hækka

Fjárfestingar eru að vaxa hratt, eða um 21,2% á fyrri árshelmingi. Vöxtur fjárfestinga er hins vegar í góðu samhengi við spá Seðlabankans fyrir árið í heild sem hljóðar upp á 22,5% vöxt . Vöxtinn má alfarið rekja til atvinnuvegafjárfestingar sem jókst um 38% á tímabilinu. Inn- og útflutningur skipa og flugvéla kemur með beinum hætti fram í fjárfestingum, en jafnframt til frádráttar sem innflutningur og hefur því ekki áhrif á landsframleiðslu. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum var aukningin í  atvinnuvegafjárfestingu um 20,3% og fjárfesting alls um 9%. Með þessum mikla vexti í fjárfestingum er fjárfestingarstigið í hagkerfinu að hækka en það hefur verið lágt eftir hrun. Mældist það tæp 18% á fyrri helmingi þessa árs sem er þó enn aðeins undir þeim 20% sem til lengri tíma er talið eðlilegt að sé í iðnvæddu ríki og nauðsynlegt er til að viðhalda hagvexti litið til lengri tíma.    

Mikill vöxtur í útflutningi þjónustu

Mikill vöxtur var í útflutningi á fyrri árshelmingi, eða sem nemur 9%. Mestur var vöxturinn í þjónustuútflutningi, eða 15,5% en vöruútflutningur jókst um 3,9%. Í þjónustuútflutningi kemur fram kröftugur vöxtur í ferðaþjónustu á þessu ári auk þess sem sala á hugverkum var óvenju mikil á tímabilinu. Er vöxturinn í útflutningi nokkuð umfram spá Seðlabankans og okkar fyrir árið, en spá Seðlabankans hljóðar upp á 6,8% fyrir árið en við spáðum 4,7%. 

Vöxtur í framleiðni vinnuafls eykst

Hagvöxturinn á fyrri árshelmingi er nokkuð umfram vöxt heildarvinnustunda sem mældist rétt rúm 4% á tímabilinu. Bendir þetta til þess að framleiðnivöxtur vinnuafls hafi verið með meira móti á þessu tímabili en hann var neikvæður um 0,1% í fyrra. Meiri framleiðnivöxtur merkir að meiri innistæða er fyrir launahækkunum og leitar þá minni hluti þeirra út í verðlagið. Aukinn framleiðnivöxtur er þó í takti við það sem Seðlabankinn gerði ráð fyrir í sinni síðustu þjóðhags- og verðbólguspá er hann reiknaði með 1,3% vexti í framleiðni vinnuafls í ár.   

Hefur áhrif á ákvörðun peningastefnunefndar

Hagvöxtur á fyrri árshelmingi þessa árs er sá öflugasti sem verið hefur hér á landi síðan á fyrri árshelmingi 2007, eins og áður segir. Ljóst er að Peningastefnunefndin mun taka tillit til þessa þegar hún kemur saman undir lok þessa mánaðar til að ákvarða stýrivexti bankans. Ein af rökum nefndarinnar fyrir hækkun stýrivaxta undanfarið hefur verið að framleiðsluspenna sé nú komin í hagkerfið eftir slaka síðustu ára.   

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall