Fréttir Greiningar

Verðbólga hjaðnar verulega í janúar

30.01.2014 10:46

nullLækkun vísitölu neysluverðs (VNV) um 0,72% í janúar er sú mesta í einum mánuði síðan í júlí 2012. Verðbólga er nú 3,1% og hefur ekki verið minni í tæp þrjú ár. Þessi mikla lækkun VNV nú skýrist af áhrifum 4,5% styrkingar krónu frá nóvember á síðasta ári, verðlækkun á eldsneyti erlendis og síðast en síst almennu átaki innanlands í þá veru að halda aftur af bæði árlegri janúarhækkun gjaldskráa og almennri hækkun vöruverðs. Lækkun VNV nú er meiri en vænst var. Opinberar spár lágu á bilinu 0,3% - 0,5% lækkun, og höfðum við spáð 0,4% lækkun vísitölunnar.

Útsöluáhrif og lækkun ferðakostnaðar vega þungt

nullEins og jafnan í janúar höfðu útsölur talsverð lækkunaráhrif í VNV, þótt þau áhrif væru raunar  þau minnstu síðan í janúar 2009. Verð á fötum og skóm lækkaði um 10,8% (-0,55% áhrif í VNV). Að viðbættum áhrifum á aðra liði vísitölunnar reiknast okkur til að útsöluáhrif hafi í heild verið til u.þ.b. 0,7% lækkunar VNV samanborið við 0,9% í fyrra. Þá lækkaði verðlag á ferðum og flutningum um 2,1% í mánuðinum (-0,35% í VNV). Sú lækkun skrifast á 14,6% lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,21% í VNV) og 2,5% lækkun eldsneytisverðs (-0,14% í VNV). Í báðum þessum liðum leggjast á eitt áhrif af styrkingu krónu og lækkun á heimsmarkaðsverði eldsneytis.

Gjaldskrár hækka óvenju lítið

Mun minni hækkun varð á hvers kyns gjaldskrám en venja er í janúar. Má þar nefna að gjöld leikskóla og dagmæðra hækkuðu um 0,4%, en þessi gjöld hækkuðu um 5,1% í janúar í fyrra og 11,4% í janúar árið þar á undan. Önnur skólagjöld hækkuðu raunar ekki neitt samkvæmt mælingu Hagstofu, sem er sömuleiðis óvenjulegt í janúar. Þá hækkaði hitunarkostnaður aðeins um 0,15%, en að jafnaði hefur hann hækkað um 2,3% í janúar síðustu 4 árin. Einnig má víða sjá merki þess í undirliðum VNV að verslun og þjónusta varð við áskorun aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda, og ýmist lækkaði verð einstakra vöruflokka eða hélt aftur af hækkun hinnar ýmsu vöru og þjónustu.

Húsnæðisliður og heilbrigðisþjónusta hækkar

nullÞað sem helst vó til hækkunar VNV í janúar var húsnæði, hiti og rafmagn, sem hækkaði um 0,6% (0,17% í VNV). Reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð á íbúðarhúsnæði, hækkaði um tæplega 0,6% í mánuðinum (0,08% í VNV). Var það vegna hækkunar á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu, og hækkunar íbúðaverðs á landsbyggðinni, en fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði lítillega í verði.

Heilbrigðisþjónusta hækkaði um 4,7% í janúar (0,1% í VNV), sem má rekja til ríflega 16% hækkunar á læknishjálp. Á móti lækkaði tannlækningakostnaður, sem heyrir einnig undir liðnum heilbrigðisþjónusta, um 1,4% þar sem tveir árgangar bættust um áramótin við þann hóp barna sem fær nær ókeypis tannlækningaþjónustu.

Verðbólga undir verðbólgumarkmið í næsta mánuði?

Horfur eru á frekari hjöðnun 12 mánaða verðbólgu á næstu nullmánuðum. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,8% hækkun VNV í febrúar, 0,4% hækkun í mars og 0,3% hækkun í apríl. Rétt er að taka fram að sú spá er óendurskoðuð frá birtingu vísitölunnar í morgun, en við fyrstu sýn teljum við ekki að gera þurfi miklar breytingar á henni. Gangi spáin eftir fer verðbólga niður í 2,3% í febrúar, og mun mælast 2,6% að jafnaði á 1. ársfjórðungi 2014. Verðbólgumarkmið Seðlabankans verður þar með í höfn á fjórðungnum, í fyrsta sinn síðan í mars 2011. Verðbólguhorfur hafa því batnað umtalsvert á síðustu mánuðum.

Hjálpar til við komandi kjarasamninga

Þessi þróun er sérstaklega mikilvæg nú, þar sem enn er ósamið við u.þ.b. helming almennra launþega á vinnumarkaði og stóra launþegahópa hjá hinu opinbera. Horfur eru nú á að minni nafnlaunahækkun þurfi til að skila auknum kaupmætti launa á næstunni en áður leit út fyrir. Geta forsvarsmenn SA og ASÍ bent á janúarmælingu VNV og batnandi verðbólguhorfur sem vísbendingu um að sú leið sem reynt var að fara í nýgerðum kjarasamningum, þar sem áhersla var á að ná fram kaupmáttaraukningu í gegnum hóflega hækkun nafnlauna og aukinn stöðugleika verðlags, sé yfir höfuð fær, en talsverðar efasemdir hafa verið þar um meðal launþega. Hóflegir samningar þeirra launþegahópa sem enn eiga ósamið myndu svo hjálpa enn frekar til við að ná þessu markmiði, sér í lagi ef gengi krónu helst áfram á svipuðum slóðum og nú.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall