Fréttir Greiningar

Hófleg hækkun neysluverðs í ágúst

27.08.2014 11:13

Lækkandi verð á ferðum og flutningum er ein helsta ástæða hóflegrar hækkunar vísitölu neysluverðs (VNV) í ágúst. Verðbólga í ágúst er undir 2,5% markmiði Seðlabankans sjöunda mánuðinn í röð og útlit er fyrir að hún haldist á svipuðum slóðum út árið. 

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði VNV um 0,24% í ágúst frá fyrri mánuði. Hækkunin var ívið minni en við höfðum vænst (0,3%), en spár lágu á bilinu 0,1% - 0,3% hækkun. Ársverðbólga mælist nú 2,2%, en var 2,4% í júlímánuði. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,18% og mælist verðbólga á þann kvarða nú 1,2%.

Útsölulok, húsnæði, póstur og sími til hækkunar

Líkt og jafnan í ágúst höfðu útsölulok talsverð hækkunaráhrif í VNV að þessu sinni. Föt og skór hækkuðu í verði um 7,9% (0,33% áhrif í VNV), og er það snarpari hækkun á þessum lið en undanfarin ár í ágústmánuði. Gæti það bent til þess að liðurinn muni hækka minna en ella í september. Húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði hins vegar í verði annan mánuðinn í röð, en áhrif útsöluloka hafa ýmist komið fram í ágúst eða september í þessum lið undanfarin ár.

Að áhrifum útsöluloka undanskildum hafði húsnæðisliður VNV mest áhrif til hækkunar (0,08%) í ágústmánuði. Hækkunin kom að langstærstum hluta til vegna 0,6% hækkunar rá reiknaðri húsaleigu (0,08% í VNV), en sá liður endurspeglar að mestu verðþróun á íbúðarhúsnæði. Einnig hækkaði greidd húsaleiga lítillega, en lítilsháttar lækkun á rafmagni og hita vó á móti.

Þá hækkaði verð á póst- og símaþjónustu um 2,0% (0,06% í VNV) og hefur sá liður nú hækkað um 3,8% á tveimur mánuðum. Póstþjónusta hækkaði í verð um 9,4% í ágústmánuði, en 1,9% hækkun á símaþjónustu vó þó þyngra. 

Flug og eldsneyti vegur til lækkunar

Á móti framantöldum hækkunum kom til 1,7% lækkun á ferða- og flutningalið vísitölunnar (-0,27% í VNV).  Þar af lækkaði eldsneytisverð um 2,1% (-0,09% í VNV) og flugfargjöld um 8,4% (-0,18% í VNV). Lækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti undanfarnar vikur var þar veigamikill áhrifaþáttur. Að auki má nefna að flugfargjöld höfðu samtals hækkað um nærri 28% í júní og júlí, og lækkunin nú þegar nær dregur hausti var að okkar mati viðbúin í því ljósi.

Góðar verðbólguhorfur til skemmri tíma

Útlit er fyrir áframhaldandi litla og stöðuga verðbólgu út árið. Raunar gæti verðbólgumæling septembermánðar orðið heldur lægri en við höfum gert ráð fyrir þar sem eldsneytisverð hefur lækkað um tæpa prósentu frá síðustu mælingu og Ikea tilkynnti í morgun um 5% lækkun að jafnaði á vörum verslunarinnar. Við gerum að jafnaði ráð fyrir 0,3% hækkun VNV í hverjum mánuði út árið, og miðað við þá spá verður verðbólga 2,2% í árslok. Í kjölfarið eigum við hins vegar von á því að verðbólga aukist á komandi misserum samhliða auknum umsvifum í hagkerfinu og vaxandi spennu á vinnumarkaði. Spáum við því að verðbólga muni að jafnaði verða 3,0% á næsta ári og 3,1% á árinu 2016. Niðurstaða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem farið verður að semja um á komandi vikum, og þróun krónu ræður svo hvað mestu um hvort spá okkar gengur eftir. Horfur fyrir næstu mánuði eru hins vegar í ágætu samræmi við nýlega verðbólguspá Seðlabankans, en í yfirlýsingu Peningastefnunefndar bankans við vaxtaákvörðun í síðustu viku kom fram að miðað við grunnspá bankans væri útlit fyrir að núverandi vaxtastig dugi til að halda verðbólgu í markmiði. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall