Fréttir Greiningar

Peningastefnunefnd: Dúfurnar koma að utan

06.04.2018 10:56

Utanaðkomandi nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans voru heldur hallari undir lækkun stýrivaxta á síðasta ári en þeir nefndarmenn sem starfa innan bankans. Ekki var þó mikill munur á áherslum nefndarmanna, og full samstaða hefur verið meðal þeirra um síðustu fimm vaxtaákvarðanir.

Í nýlega birtri ársskýrslu Seðlabankans fyrir árið 2017 er að vanda yfirlit yfir atkvæðagreiðslur peningastefnunefndar bankans við vaxtaákvarðanir ársins. Í öllum tilfellum greiddu allir fimm nefndarmenn atkvæði með tillögu Seðlabankastjóra. Hins vegar hefði Gylfi Zoëga í tvígang kosið 0,25 prósentum lægri vexti en ákveðnir voru og Katrín Ólafsdóttir lagðist á sömu sveif í eitt skipti þótt atkvæði þeirra hafi í þessum tilfellum fallið með tillögu Más Guðmundssonar. Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans, sem hefur undanfarin ár á stundum verið haukur nefndarinnar (þ.e. hallari undir hærri vexti en aðrir nefndarmenn), var hins vegar ávallt sammála vaxtatillögum Más í fyrra og sömu sögu má segja af Arnóri Sighvatssyni  aðstoðarseðlabankastjóra. 

Samhljómur í nefndinni upp á síðkastið

Líkt og síðasta ár hefur verið samhljómur meðal meðlima peningastefnunefndarinnar um vaxtaákvarðanir það sem af er þessu ári. Hafa því allir nefndarmenn greitt atkvæði með tillögum Seðlabankastjóra undanfarnar tíu vaxtaákvarðanir, og við síðustu fimm ákvarðanir hefði enginn nefndarmaður kosið aðra niðurstöðu en lögð var til. Samstaða nefndarmanna hefur því verið með meira móti frá ársbyrjun 2017.

Stýrivextir lækkuðu um 0,75 prósentur á síðasta ári en hafa verið óbreyttir í 4,25% frá október sl. Við höfum spáð 25 punkta lækkun stýrivaxta á yfirstandandi ári, en undanfarið hefur þó dregið úr líkum á slíkri lækkun að mati okkar.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall