Fréttir Greiningar

Seðlabankinn gerist bjartsýnni á verðbólguþróunina næsta kastið

08.01.2014 12:07

Nýgerðir kjarasamningar og styrking krónunnar síðustu vikur auka að mati Seðlabankans líkur á að verðbólga á fyrstu mánuðum þessa árs minnki hratt á ný eftir að hafa aukist tímabundið í desember. Á móti kemur, að mati bankans, að aðgerðir til að lækka skuldir heimila gætu aukið verðbólgu, en þau áhrif koma fram yfir lengra tímabil og munu vart hafa nein teljandi áhrif á verðbólgu næstu mánaða.

Verðbólgan yfir fráviksmörkin í desember

nullVerðbólgan jókst á milli nóvember og desember í fyrra úr 3,7% í 4,2%. Verðbólgan fór þar með yfir efri fráviksmörk verðbólgumarkmiðsins sem eru 4%. Segir Seðlabankinn í greinargerð sem hann sendi að þessu tilefni til ríkisstjórnarinnar og birt var í gær að aukna verðbólgu í desember megi einkum rekja til hækkunar húsnæðiskostnaðar, en án húsnæðiskostnaðar hefur verðbólgan hækkað um 3,3% undanfarna tólf mánuði.

Verðbólgan á árinu gæti orðið hagfelldari en felst í spá bankans

Verðbólgan á fjórða fjórðungi í fyrra var 3,8%, sem er í samræmi við spá bankans frá því í nóvember. Samkvæmt sömu spá á verðbólgan að fara niður í 3,3% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Segir Seðlabankinn í áðurnefndri greinargerð að nýgerðir kjarasamningar bendi til þess að launakostnaður á framleidda einingu gæti aukist eitthvað minna á þessu ári en reiknað var með í spá bankans, en það er þó háð því að launaskrið haldist innan hóflegra marka. Þá bendir bankinn á að frá því að verðbólguspá bankans var gerð í nóvember hafi gengi krónunnar styrkst og var í lok síðasta árs 2,5% sterkara en miðað var við í spánni.

Gefur tóninn fyrir fyrstu stýrivaxtaákvörðun ársins

nullJákvæðari tónn Seðlabankans varðandi verbólguhorfur næsta kastið gefur tóninn fyrir fyrstu stýrivaxtaákvörðun ársins sem verður 12. febrúar næstkomandi. Peningastefnunefndin sagði samhliða vaxtaákvörðuninni í desember síðastliðnum að niðurstaða kjarasamninga myndi hafa afgerandi áhrif á verbólguhorfur og þar með á þróun vaxta á næstu misserum.  Sagði nefndin að verði launahækkanir umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans væri líklegt að nafnvextir hans þyrftu að óbreyttu að hækka í framhaldinu. Í ljósi þess sem fram kemur í ofangreindri greinargerð Seðlabankans viðrist ljóst að nýgerðir kjarasamningar eru innan þeirra marka sem peningastefnunefndin telji að kalli á stýrivaxtahækkun.   

Róar vaxtahaukinn

nullReikna má með að nýgerðir kjarasamningar rói einnig nokkuð vaxtahauk peningastefnunefndarinnar sem samkvæmt fundargerð síðasta vaxtaákvörðunarfundar, sem birt var í lok desember sl., hefði kosið að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur. Haukurinn hafði m.a. áhyggjur af niðurstöðu kjarasamninga og því hvað þrálát verðbólgan og verðbólguvæntingar væru.  Þá hafði hann einnig áhyggjur af því að aðgerðir stjórnvalda til lækkunar höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána myndu auka enn frekar á verðbólguþrýsting.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall