Fréttir Greiningar

Kaupmáttur launa eykst verulega

22.10.2014 12:27

Kaupmáttur launa tók talsverðan kipp upp á við í september sl., eða sem nemur um 0,8%, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Þetta er afar óvanaleg hreyfing m.v. það sem yfirleitt á sér stað í septembermánuði, og í raun hefur kaupmáttur launa ekki hækkað svona mikið í september síðan árið 1989. Oftar en ekki hefur þróunin raunar verið þannig að vísitala neysluverðs (VNV) hefur hækkað töluvert umfram launavísitöluna í mánuðinum, öfugt við þróunina nú. Þannig hækkaði launavísitalan um 0,7% á milli ágúst og september á sama tíma og vísitala neysluverðs lækkaði um 0,1%. Þessa myndarlegu hækkun á launavísitölunni má að verulegu leyti rekja til árstíðarbundinna þátta þar sem álagsgreiðslur og annað slíkt koma inn að nýju í mánuðinum eftir að hafa verið í lágmarki yfir sumartímann. Á hinn bóginn var hreyfingin á VNV óvanaleg miðað við þá þróun sem yfirleitt á sér stað í septembermánuði, en oftast nær hækkar hún talsvert í mánuðinum vegna m.a. útsöluloka og árvissra verðhækkana á tómstundastarfi og afþreyingu. 

Rímar vel við spá okkar um einkaneyslu

Á síðastliðnum tólf mánuðum hefur launavísitalan hækkað um 6,2% en vísitala neysluverðs um 1,8%. Nemur tólf mánaða hækkunartaktur vísitölu kaupmáttar þar með 4,3% á tímabilinu. Hefur tólf mánaða takturinn hækkað nokkuð skarpt að undanförnu, en hann hefur ekki verið eins hraður og nú síðan í maí árið 2012. 

Ofangreind þróun samræmist ágætlega spá okkar um einkaneyslu á árinu þar sem við gerum ráð fyrir nokkuð myndarlegum vexti, en í fyrra var vöxtur einkaneyslu nokkuð undir vexti kaupmáttar launa. Við spáum að einkaneyslan muni vaxa um 4,5% í ár, sem er heldur meiri vöxtur en á fyrri árshelmingi skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þær tölur benda til að einkaneyslan hafi vaxið um 4,0% að raungildi á milli ára. Miðað við þá þætti sem liggja fyrir um þróun einkaneyslu á því tímabili hefði ekki komið á óvart að vöxtur hennar hefði reynst meiri, en  tölurnar geta raunar tekið breytingum við endurskoðun þegar frá líður. Auk kaupmáttaraukningar styðja þættir á borð við betra atvinnuástand og skuldalækkun ríkisstjórnarinnar við vöxt einkaneyslu þessa dagana.

Vöxtur einkaneyslu einn helsti burðarás hagvaxtar

Við reiknum með 3,8% vexti í einkaneyslu á næsta ári og 2,8% árið 2016. Miðað við spá okkar verður vöxtur einkaneyslu einn helsti burðarás hagvaxtar á spátímanum. Þó teljum við að einkaneyslan muni ekki ná sömu hæðum á næstu misserum og hún gerði síðustu ár fyrir hrun. Samkvæmt spá okkar mun einkaneysla að raungildi verða svipuð árið 2016 og hún var árin 2006/2007, en sé á hinn bóginn tekið tillit til fólksfjölgunar á tímabilinu mun einkaneysla á mann árið 2016 verða áþekk því sem hún var árin 2004/2005.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall